Þegar ég hóf störf hjá RB á sínum tíma þá bar það svo til að ég fór í ferð til Danmerkur ásamt forstjóra félagsins. Þetta væri nú ekki tilefni til mikilla frétta, nema vegna þess að áður en lagt var af stað þá skoraði hann á hópinn að taka með sér hlaupaskó til að taka morgunskokk í Köben.
Þrátt fyrir að hafa verið ræktarfíkill um áraskeið þá hafði ég lítið verið í hlaupunum og fannst þetta því lítt spennandi áskorun. En þar sem forstjórinn var ríflega tveir metrar og um 100 kg þá taldi ég að hann hlyti að vera í einhverju átaki og því sjálfsagt að tölta þennan spotta með honum áður en ég færi í ræktina. Lítið mál. Maðurinn augljóslega ekki byggður til afreka í hlaupum.
Fyrsta morguninn reif ég mig því upp fyrir allar aldir, henti mér í ræktarfötin og lagði af stað niður í lobbýið. Ég hafði akkúrat enga trú á að fyrrnefndur forstjóri biði þar, enda hópurinn farið fremur seint í rúmið kvöldið áður, og var í raun tilbúinn til að taka lyftuna lóðbeint upp aftur og henda mér í rúmið.
Ég var því engan veginn undirbúinn þeirri sjón sem beið mín niðri í anddyrinu. Þar voru þessir ríflegu tveir metrar, spandexaðir frá toppi til táar, hreinlega iðandi í skinninu að komast í hlaupið. Kom þá í ljós að hann hafði þegar tekið þátt í maraþoni og var að æfa sig fyrir það næsta. Klukkutíminn sem eftir fylgdi var einn sá erfiðasti sem ég hef gengið í gegnum.
Hraðspólum nú áfram um nokkur ár eða fram til byrjun júní á þessu ári. Var ég þá á leið á ráðstefnu á erlendri grundu og skoraði forstjórinn þá á hópinn að taka með sér morgunskokk. Ég afþakkaði pent og einbeitti mér frekar að efni ráðstefnunnar sem fjallaði um framtíð fjármálaþjónustu.
Svo virðist að kapphlaup sé hafið meðal fyrirtækja í fjármálaþjónustu um viðskiptavini, sem hafa til þessa dreifst á þúsundir banka af öllum stærðum og gerðum. Alþjóðlegir bankar eru farnir að fjárfesta tugum milljarða hver um sig í þróun stafrænna lausna og hafði Ralph Hamers, forstjóri ING, það á orði að bankinn keppti við fremstu tæknifyrirtæki heims. Vísaði hann þar til aðila eins og Facebook, Google og Amazon sem væru búnir að setja viðmiðin þegar kæmi að stafrænni upplifun notenda. ING væri þannig að þróa lausnir sínar með þeim hætti að þær virki eins fyrir alla, hvar sem er í heiminum. Alveg eins og Facebook gerir.
Þetta er nýr vinkill á gamla umræðu um innkomu Facebook og félaga á bankamarkaðinn. Það þarf nefnilega ekki að vera að Facebook hafi svo mikinn áhuga á að stíga inn á þennan markað af fullum krafti, en það er hins vegar afar líklegt að einhver noti sama módel til að ná til viðskiptavina. Ný bankaþjónusta er ekki lengur byggð upp með sama hætti og hún var áður. Í dag er hægt að púsla saman fjártæknifyrirtækjum með því að gera samning við einn aðila um bankaleyfi, annan um auðkenningaleið og þann þriðja um útgáfu korta og gefa svo út lausn sem virkar þvert á heilu heimsálfurnar. Það er engin þörf á að byggja upp viðskiptalega og tæknilega innviði frá grunni eins og áður var raunin. Revolut er dæmi um slíkt fyrirtæki og áhugavert að fylgjast með hraðri útbreiðslu þeirra innan Evrópu.
Í þessu ljósi er áhugavert að líta til sögunnar. Eitt sinn var fjöldi sjálfstætt starfandi bóksala talinn í tugum ef ekki hundruðum þúsunda innan Evrópusambandsins. Nú höfum við Amazon og eBay. Eitt sinn var fjöldi myndbandaleiga hundruð þúsunda á sama svæði. Nú höfum við Netflix, Hulu og Amazon Prime. Árið 2017 voru 6.596 bankar (ekki útibú, bankar!) innan Evrópusambandsins. Hvað verða þeir margir í framtíðinni?
Þegar fólk þarf að fara á einhverja ákveðna staði til að fá þjónustu er vissulega eðlilegt að margir og staðbundnir aðilar sinni henni. Sem dæmi ná nefna bakarí og hárgreiðslustofur. Því er ekkert óeðlilegt við að bankastarfsemi hafi byggst upp með þessum hætti, enda þurfti fólk að fara í bankann til að leggja inn pening, taka út pening, sækja um lán og svo framvegis.
En sú er ekki raunin í dag þar sem við fáum meginhluta þjónustunnar í gegnum internetið. Virðiskeðjan er að riðlast og bankar þurfa að staðsetja sig upp á nýtt. Það má telja næsta víst að það sama gerist í bankaheiminum og hefur gerst á öðrum vígstöðvum stafrænnar þjónustu, að til verði nokkrir alþjóðlegir aðilar sem bjóði upp á yfirburða notendaupplifun og þjónustuframboð sem gengur þvert á heimsálfur. En það er ekki víst að þessir aðilar verði eiginlegir bankar og enn óljóst hvernig hefðbundnir bankar muni staðsetja sig í slíkri virðiskeðju.
Það er ágætt að hafa í huga að nýir aðilar verða ekkert endilega „byggðir til afreka“ í bankaþjónustu og munu ekki líta út eins og hefðbundnir bankar gera í dag. Ekki frekar en 100 kg forstjórar sem reynast svo geta hlaupið eins og vindurinn.
Höfundur er framkvæmdastjóri sérlausna hjá RB.