Fyrsti sparisjóðurinn á Íslandi tók til starfa 1858 í Mývatnssveit og fyrsti bankinn 1904. Fram að þeim tíma og sennilega nokkuð lengur geymdi fólk sparifé sitt í handraðanum og lánaði hvort öðru fé milliliðalaust.
Í upphafi voru bankar staður þar sem fólk gat komið með sína peninga og geymt þá á öruggum stað og fengið lán ef þörf var á. Bókhald var eins og orðið ber með sér skráð í bækur og þannig hélst staða mála nokkuð lengi án stórkostlegra breytinga. Sparisjóðunum fjölgaði og svo fækkaði þeim aftur. Bönkum fjölgaði, þeir sameinuðust, lentu í erfiðleikum og fótuðu síg á ný eins og gengur og gerist. Fjármálakerfið í dag ber keim af þessari sögu og til dæmis eru flest útibú Arion banka að grunni til sparisjóðir sem runnu inn í Búðarbankann, forvera Arion banka.
Eins og flestir þekkja hefur mikil breyting átt sér stað frá þeim tíma þegar meira og minna allar upplýsingar voru handskrifaðar í bankastarfsemi. Nú er bókhald rafrænt og netbankar, öpp ofl hafa rutt sér til rúms á innan við einni starfsævi. Það fólk sem hefur starfað lengi í bönkunum man allar þessar breytingar. Í dag er nokkuð rætt um þær breytingar sem eru að byrja setja sitt mark á bankastarfsemi, eins og PSD2, open banking, fintech ofl en þær eru í raun ekki svo ólíkar því sem gerst hefur á síðustu áratugum hvað hraða breytinga varðar.
Það er þó einn grundvallarmunur á þessu. Breytingarnar fram til þessa hafa snúið að því að gera bankaþjónustu aðgengilegri, hraðari og einfaldari auk þess að gera fólki kleift að afgreiða sig sjálft án þess að þurfa að fara í bankann. Að öðru leyti hefur eðli þjónustunnar ekki endilega breyst mikið.
Það sem er að gerast í dag er að mörkin milli bankaþjónustu og annarrar starfsemi eru að minnka eða jafnvel hverfa. Í Kína hefur verslunarrisin Ali Express þróað fjármálaþjónustu sem upphaflega var hugsuð til að auðvelda fólki að eiga rafræn viðskipti en er orðin stór eining út af fyrir sig og ber nafnið AliPay. Kínverska útgáfan af Facebook sem ber heitið Wechat hefur náð að samþætta virkni sem öll helstu öpp vesturlanda veita í eitt app, þar með talið spjall, samfélagsmiðla, Tinder, Uber, greiðsluþjónustu ofl. þú getur jafnvel bókað heilbrigðisþjónustu í gegnum þetta app og allt virkar saman í einni samþættri lausn. Þannig hafa nýjir aðilar sem hafa aldrei stundað bankastarfsemi komið til skjalanna og farið að keppa við hefðbunda banka.
Á Íslandi sjáum við þetta líka en nemendur í kerfisfræði hafa þróað lausn sem gerir fólki kleift að millifæra peninga sín á milli á grundvelli símanúmers, aðrir hafa þróað app sem gerir þér kleift að greiða í verslunum og borga seinna og svo framvegis. Á Vesturlöndum sjáum við að netrisarnir eru að horfa til Kína og reyna að feta í fótspor þeirra með því til dæmis að Amazon er farið að stunda útlánastarfsemi og að bjóða upp á kreditkort og Facebook, Google og Apple eru öll að þróa greiðslulausnir osfrv. Enn sem komið er hafa þó Kínverjar vinningin og lausnir þeirra virðast standa mun framar tæknilega og hvað þægindi viðskiptavina snertir.
Stóra spurningin er hvert verður hlutverk banka í þessari framtíð? Möguleikarnir eru margir, mun til dæmis þessi þróun halda áfram og fjármálaþjónusta verða hluti af þjónustuframboði þeirra sem eru að selja aðrar vörur og þjónustu og bankar heyra sögunni til eða munu bankar verða í bakgrunni og veita fjármálaþjónustu í samstarfi við aðra. Önnur sviðsmynd væri að bankar myndu útvíkka sína þjónustu og bankaappið yrði grunnkerfið sem aðrir, til dæmis aðilar sem selja veitingar, afþreyingu og annað myndu smíða lausnir inn í. Þannig gætu viðskiptavinir banka keypt blaða- eða sjónvarpsáskrift í appinu, pantað skyndibita, bíómiða eða annað, allt í einu appi og hnökralaust að greiða fyrir þjónustuna án þess að þurfa að slá inn kortanúmer, gildistíma og öryggisnúmer með tilheyrandi villuhættu og veseni.
Það er erfitt að spá fyrir um í hvaða átt þetta mun þróast en það eru nokkur atriði sem eru alveg ljós. Í fyrsta lagi þá mun þessi þróun leiða til þess að fjármálaþjónusta verður enn aðgengilegri og þægilegri en hún er í dag fyrir viðskiptavini. Í öðru lagi þá er alveg ljóst að þessar breytingar eru að gerast mjög hratt. Það er því alls ekki víst að bankar muni hverfa en til þess að svo verði ekki þurfa þeir að halda áfram að gera lífið þægilegra og einfaldara og það verður ekki nóg að veita bara hefðbunda bankaþjónustu, fólk mun gera kröfu um víðtækari lausnir og þjónustu.
Það sem er alveg ljóst, burtséð frá því hvort það verði bankar, tæknifyrirtæki eða verslunarfyrirtæki sem muni leiða þessa þróun, er að viðskiptavinir munu hafa vinninginn í formi þægilegri og einfaldari þjónustu.