Ég ætla ekki að skrifa innblásnar setningar um aðdraganda fullveldisins, þær aðstæður sem Íslendingar bjuggu við fyrir hundrað árum eða hvernig okkur hefur vegnað síðan; þá sögu þekkjum við öll nokkuð vel. Áleitnar spurningar snúast fremur um það hvernig við spilum úr þeim spilum sem nú eru á hendi, þannig að framtíðin verði okkur Íslendingum og öðrum jarðarbúum farsæl.
Aðstæður eru allt aðrar í heiminum nú en þegar hugmyndum um þjóðríki var að vaxa fiskur um hrygg. Á seinni hluta tuttugustu aldar hafa hugtök eins og alþjóðasamvinna og hnattvæðing verið meira áberandi og ekki að ástæðulausu. Einkenni þeirra; fjölbreytni, sveigjanleiki, og aukin samstaða og samskipti eru nefnilega betri leiðir til að bregðast við sameiginlegum áskorunum heldur en sú leið að loka sig af með sterkum landamærum og tollamúrum.
Ójöfnuður, stríð og loftslagsógnir eru risaáskoranir sem mannkynið verður að sigrast á. Vissulega hafa þau tvö fyrst nefndu verið hluti af allri mannkynssögunni en með sífellt fullkomnari tækni þróast þau með allt öðrum hætti en fyrr og aukin nálægð okkar við fólk um alla jörð setur allt í nýtt ljós. Loks er okkur að verða ljós samverkun þessara þriggja ógna; ein verður ekki upprætt nema hinar verði það líka.
Ísland ætti því að fylkja liði með þeim stjórnvöldum sem vilja byggja á víðtæku samstarfi þjóða og taka harða afstöðu gegn þeim sem vilja halda í gjörólíka átt. Með þjóðum sem vilja axla sameiginlega ábyrgð á fordæmalitlum fólksflótta gegn þeim sem bregðast hart við til að bjarga eigin skinni, um sinn.
Við þurfum því að búa í haginn til að geta tekið þátt í slíkri samvinnu. Sem dæmi má nefna EES samninginn, en fátt ef nokkuð hefur fært Íslendingum jafn mikinn ávinning. Með honum erum við þó að sífellt að reyna á þolrif gildandi stjórnarskrár, við upptöku reglugerða, sem eru okkur þó til góðs. Meðal annars þess vegna er nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni og heimila takmarkað, afturkræft valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnanna. Þetta getur átt við um aðgerðir sem miða að því að koma á friði, stuðla að efnahagsframförum en ekki síst á sviði baráttu gegn loftslagsvánni.
Það má jafnvel halda því fram að slíkt geti aukið á fullveldi okkar, að minnsta kosti að ekki sé hægt að tryggja landinu fullveldi til lengri tíma nema okkur sé kleift að taka þátt í sameiginlegum verkefnum ríkja heims.
En hundrað ára fullveldið Ísland þarf líka að takast á við flókin verkefni innanlands. Þrátt fyrir að meðaltöl sýni að Íslendingar hafi það býsna gott er hinn blákaldi veruleiki talsvert annar.
Á meðan 1% þjóðarinnar á jafn mikið fé og þau 80% sem minnst eiga og mokar stöðugt til sín stærri hluta þess er stór hópur fólks sem á erfitt með að ná endum saman. Þetta geta verið öryrkjar, aldraðir en líka harðduglegt vinnandi fólk sem er á skammarlega lágum launum. Um hver mánaðarmót verður það að velja milli þess að borga reikninga, bjóða börnum sínum sjálfsagða þátttöku í félagsstarfi eða sækja sér læknisþjónustu.
Stór þáttur í því að búa fólki nauðsynlegt öryggi frá vöggu til grafar er að allir fái mannsæmandi laun og að hér sé öflug almannaþjónusta fjármögnuð með réttlátri samneyslu. Þetta á jafnt við um góða heilbrigðisþjónustu og menntun sem stendur öllum öllum til boða og samgöngur og fjarskipti. Núverandi stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að afla nauðsynlegra tekna til að blása til sóknar á þessu sviði.
Hér verður að þróa skattkerfi sem eykur jöfnuð í stað þess að kynda undir misskiptingu, ráðast verður í auðlindastjórnun sem að tryggir almenningi eðlilegan arð af auðlind sinni um leið og hugað er að rekstrarhæfi fyrirtækja, og ekki síst skoða af alvöru upptöku gjaldmiðils sem nýtist almenningi betur og gæfi nýsköpunarfyrirtækjum sóknarfæri í breyttum heimi.
Í aðdraganda hátíðarhalda vegna 100 ára afmælis fullveldis landsins mættu ráðamenn minna sig á að það er ekki nóg að guma af fullveldi þjóðar, ef fullveldi þeirra einstaklinga sem henni tilheyra er ekki tryggt.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.