Tíu staðreyndir sem benda til þess að við ættum að hætta að berjast fyrir því að „efla“ lýðræðið á Íslandi og fara þess í stað að berjast fyrir að „fá“ lýðræði:
1. Fólk getur almennt aðeins kosið hverjir stýra landinu okkar á fjögurra ára fresti. Þrátt fyrir hátt mentunarstig og gríðarlega útbreidda netnotkun er viska almennings ekki/illa nýtt þess á milli. Með öðrum orðum kerfið er eins og það var þegar fólk þurfti að fara á hestbaki margar dagleiðir til að þinga um lög landsins. Samfélagið líkist hins vegar þeim veruleika ekkert.
2. Þegar fólk loks fær að kjósa má það einungis velja stjórnmálaflokka, ekki einstaklinga, og hafa kjósendur gjarnan lítið um það að segja hverjir eru í framboði fyrir viðkomandi flokka.
3. Þegar einstaklingar eru kjörnir á þing ganga þeir inn í kerfi sem er afar ógegnsætt. Þeir hafa verið kjörnir til að setja landinu lög en lögin eru þó ekki skrifuð á Alþingi.
4. Þeir flokkar sem lengst hafa verið við völd þekkja kerfið á þinginu mun betur en nýrri flokkar og hafa því óhóflega mikil völd inn á þessum vinnustað sem er ekki í samræmi við hlutfall kjósenda sem völdu téða flokka.
5. Barátta kjörinna fulltrúa fer að miklu leyti í það að reyna að ná endurkjöri fyrir sig/sinn flokk. Þannig fer vinnan að of miklu leyti að snúast um vinsældir og skoðanakannanir á kostnað heildar- og langtímasýnar fyrir þjóðfélagið í heild.
6. Lögin eru sem fyrr segir ekki skrifuð af Alþingi því þar er ekki nægilega mikið af starfandi sérfræðingum til að veita þingmönnum aðstoð. Í staðinn fá ráðuneytin þetta verkefni þó þau séu ekki löggjafinn. Þar er hins vegar heldur ekki nægilega mikið af starfandi sérfræðingum svo þetta endar gjarnan í höndunum á einkaaðlum á borð við lögfræðistofur sem fá ríkulega greitt fyrir að skrifa lagafrumvörp sem engin kaus þær til að skrifa (sjá hér ummæli Viðskiptaráð sem hreykti sér af því á einhverjum tímapunkti að fá 98% af þeim lögum sem ráðið skrifaði samþykkt af Alþingi). Eftir að fyrstu drög að lagafrumvörpum eru komin fram er afar erfitt að gera á þeim grundvallarbreytingar svo vinna Alþingis fer að snúast um smávægilegar breytingar og að slökkva elda en ekki að móta heildarsýn og stefnu löggjafarinnar í landinu.
7. Upplýsingar sem almenningur kostar eru almennt ekki aðgengilegar sem þýðir að ekki er hægt að veita þeim sem fara með völdin almennilegt aðhald, hvorki af hálfu fjölmiðla né almennings. Í skjóli þessarar óskiljanlegu leyndarhyggju þrífst augljós spilling.
8. Vegna lágmarksþröskulda falla fjölmörg atkvæði dauð í hverjum kosningum sem þýðir að þúsundir kjósenda fá engan fulltrúa á þing. Auk þess vega atkvæði í landinu ekki jafnt sem þýðir að niðurstöður endurspegla ekki vilja lýðsins á jafnréttisgrundvelli.
9. Þrátt fyrir eið að stjórnarskrá um að fylgja eigin sannfæringu er nær undantekningarlaust að þingmenn greiða atkvæði eftir flokkslínum (sjá hér t.d. ummæli Brynjars Níelssonar um að „kyngja ælunni“ þegar hann greiddi atkvæði með jafnréttislöggjöf). Þetta þýðir að lýðræði á Alþingi er í raun bara meirihlutaræði sitjandi ríkisstjórnar að öllu jafna en ekki staður þar sem greitt er atkvæði um hvert mál með hlutlausum hætti út frá sannfæringu viðstaddra.
10. Þegar almenningur er spurður álits í þjóðaratkvæðagreiðslu (sem hefur aðeins gerst átta sinnum í sögu Íslands) láta kjörnir fulltrúar eins og þeim beri ekki endilega skylda til að lúta niðurstöðu lýðsins, jafnvel þó málið snúist um sjálf grundvallarlögin sem eru til þess fallin að tempra og skilgreina völd þeirra sjálfra.
Að þessu sögðu legg ég til að við hefjum baráttu fyrir lýðræði á Íslandi við höfum það nefnilega ekki í raun.
Höfundur er formaður Stjórnarskrárfélagsins.