Fyrir áhugamenn um stjórnmál lifum við á mjög athyglisverðum tímum. Fyrir vestan haf er Donald Trump í Hvíta húsinu og lætur þar eins og enginn hefur gert. Fyrir austan er svo bóndinn í Kreml, Vladimír Pútín, fastur í sessi, enda nýbúinn að tryggja sér nánast öll völd í Rússlandi til ársins 2024 með því að vinna forsetakosningar með yfirburðum fyrr á þessu ári.
Á milli þessara tveggja póla eru svo allskyns kallar, sem í skjóli kosninga, stjórnarskrárbreytinga og eða annarra hluta hafa náð að lengja í völdum sínum með einum eða öðrum hætti. Þetta eru menn sem eru í raun alræðisseggir og alráðir í sínum löndum. Nægir að nefna Erdogan Tyrklandsforseta, Viktor Orban í Ungverjalandi, sem og aðgerðir stjórnvalda í Póllandi, sem beinast gegn því sem við köllum ,,sjálfstæði dómstóla” og „réttarríki“. Tyrkland er nánast komið undir hælinn á Erdogan og er að breytast í „eins-manns-ríki“.
Lýðræðið á því í raun undir högg að sækja, en jákvæða punkta má þó finna í allskyns hreyfingum sem spretta upp á samfélagsmiðlum og er „me-too“-hreyfingin og „Black lives matter“ ágætis dæmi um það.
Bolabíturinn Trump
Næstkomandi mánudag hittast þeir Trump og Pútín í finnsku víkinni, Helsinki, en þetta verður síðasta „stopp“ Trumps á Evróputúrnum hans (best að tala um Trump eins og rokkstjörnu) sem hófst með „úrhellinu“ á NATO-fundinum, þar sem Trump hellti sér yfir hina NATO-leiðtogana vegna peningamála, réðist eins og bolabítur á Angelu Merkel og sagði hana vera einskonar „fanga Rússa“ vegna orkukaupa Þjóðverja af þeim í gegnum tíðina. Daginn eftir strauk Trump síðan öllum mjúklega og var smjaðrið uppmálað. Svona er taktík hans; að slá fyrst frá sér og faðma síðan alla og knúsa.
Rétt eins og í tilfelli Kim Jong Un, hefur Donald Trump farið fögrum orðum um einvaldinn Vladimír Pútín, sem ríkir eins og gömlu keisararnir yfir Rússlandi. Trump hefur lýst Pútín sem miklum leiðtoga, gáfuðum og engum ,„dellugæja“ (no-nonsense guy). Nú síðast hefur hann lýst Pútín sem „samkeppnisaðila“ en ekki óvini á alþjóðasviðinu.
Að vísu má taka undir það að Pútín sé sennilega enginn dellugæji, en þær aðferðir sem hann hefur notað til að halda völdum í Rússlandi, verða seint taldar lýðræðislegar; hann stjórnar öllum fjölmiðlum, mikið „grugg“ er í sambandi við alla kosningar á valdatíma Pútíns í Rússlandi, hann tekur ekki þátt í umræðum í apdraganda forsetakosninga og lögreglu er beitt af miklu offorsi gegn mótmælendum, svo dæmi séu tekin. Pútín er einnig náungi sem þverbrotið hefur alþjóðalög með innlimum Krím-skaga í Rússland vorið 2014 og valdbeitingu gagnvart Úkraínu í stríðinu þar, sem og Georgíu árið 2008.
Makedóníu boðið í NATO
En á fundinum í Helsinki er ekki ólíklegt að málefni NATO-beri á góma, enda Rússar búnir að vera fúlir útaf stækkun þess á undanförnum árum. Nú hefur enn einu „fyrrum kommúnistaríki“ verið boðið inn en það er Makedónía (sem var lýðveldi í gömlu Júgóslavíu). Trump fór af NATO-fundinum með þá vissu að hann hefði fengið leiðtoga þess til þess að eyða miklu meiri pening í NATO. Verði það raunin, þá eru allar líkur á því að afstaða Rússa harðni enn frekar og það kólni meira í samskiptum austur og vesturs.
Nýr geimher USA nýtt þrætuepli?
Annað mál sem kannski líklegt er að komi upp eru nýjar (og þó ekki) hugmyndir Bandaríkjamanna um geimherinn, eða það sem nú er kallað „Space Force“. Um yrði að ræða sjöttu grein herafla Bandaríkjanna (hinar eru; landher, landgöngulið, floti, flugher og strandgæsla) og er geimhernum einfaldlega ætlað að standa fyrir hernaðaraðgerðum í geimnum. Ólíklegt verður að teljast að Pútín og menn hans séu hressir með þessar hugmyndir og ef menn muna svo langt aftur og til 1986 þá strandaði leiðtogafundur Ronald Reagan, þáverandi forseta og Mikhails Gorbatsjovs, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna í Höfða í Reykjavík, einmitt á hugmyndum Reagans um geimvarnaráætlun (sem af gárungum var kölluð „Star Wars“).
Pútín gæti þó notað hugmyndir sem þessar í skiptum fyrir viðurkenninga Trumps á innlimun Krím-skaga, eða álíka, því óneitanleega væri það gott fyrir Pútín að viðurkenningu Trumps á Krím-bröltinu. Slíkt væri hinsvegar afleitt fyrir alþjóðkerfið.
Glandsfundur til heimabrúks?
Ekki verður að teljast líklegt að mannréttindamál verði ofarlega á dagskránnni, eða tilburðir Rússa að blanda sér í stjórnmál vestan hafs á síðari árum. Frekar er líklegt að um verði að ræða svipaðan „glansfund“ og átti sér stað í Singapúr um daginn, þegar Kim Jong Un gekk sigri hrósandi frá samningaborðinu og Donald Trump sagðist hafa afgreitt kjarnorkuvandamál N-Kóreu í eitt skipti fyrir öll. Annað er hinsvegar smám saman að koma á daginn.
Einnig verður að teljast ólíklegt að Trump skelli einni „Merkel“ á Pútín og ausi úr skálum sínum yfir hann. Til þess dáir Trump sennilega Pútín allt of mikið. Líklegt er að Trump vilji nota þennan fund til „heimabrúks“ en í haust verða þingkosningar í Bandaríkunum og þá er gott að geta rifjað upp „góða“ fundi með einvöldum í austri og montað sig af afrekum á alþjóðavettvangi. Enda elskar Trump Trump.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði frá Austur-Evrópudeild Uppsalaháskóla í Svíþjóð.