Orðið veldi er dregið af orðinu vald og gefur til kynna stærð og styrk, jafnvel vaxandi vald. Við tölum um fullveldi, lýðveldi, herveldi, ættarveldi, goðaveldi, feðraveldi, mæðraveldi, klerkaveldi, stórveldi – og heimsveldi. En við tölum ekki um smáveldi, bara smáríki – og kvennaríki. Það gefur til kynna valdaleysi: en við vitum hins vegar að valdaleysi jafngildir ekki skorti á styrk. Því minni völd sem fólk hefur, þeim mun meiri styrk þarf það að nota í lífsbaráttunni.
Fullveldi Íslendinga táknar meðal annars þetta; þjóðarkríli sem hefur lifað hallæri og hörmungar gegnum aldirnar en fer með með stjórn eigin mála, með afar misjöfnum árangri vissulega og í sífelldri innri togstreitu um gæðin og byrðarnar – en samt þjóð sem sjálf kýs sér sitt þing og hefur sérstaka sjálfsmynd og sína rödd í heiminum.
Við Íslendingar erum vissulega smáveldi – en við getum líka verið smá veldi.
When Irish eyes are smiling …
Þjóð. Þetta er eitt af þessum hugtökum sem skreppur sífellt undan þegar við reynum að fanga það með skilgreiningum en við vitum samt að vísar á eitthvað sem er þarna í raun og veru. Þjóðir eru til, þó að vissulega hafi fólk fyrr á öldum frekar skilgreint sig út frá fjölskyldu og ætt, héraði, sveit og landshluta en þjóð. Nú til dags vísar orðið á annars konar mengi en það gerði þegar hér bjó einsleit og einöngruð hjörð.
Fyrsta skipti sem orðið „íslenskur“ kemur fyrir er í ljóði – nema hvað – og vísar á augu. Sighvatur Þórðarson var skáldið, fæddur nálægt aldamótunum 1000, fylgdi Ólafi digra Noregskonungi og orti um hann lof og hvatningar – starfaði með öðrum orðum á auglýsingastofu á sinnar tíðar vísu. Einhver kona einhvers staðar á þessum ferðum hafði orð á dökkum augum hans og skáldið íslenska svaraði: „Oss hafa augun þessi / íslensk, kona, vísað / brattan stíg að baugi / björtum langt hin svörtu …“ – það er að segja: oss hafa þessi svörtu íslensku augu, kona góð, vísað um brattan stíg að björtum baugi… When Irish eyes are smiling, var sungið löngu síðar. Fyrsta sinn sem orðið „íslenskur“ kemur fyrir vísar það sem sagt á írsku skáldaaugun. Þetta er arfurinn frá „víkingatímanum“ miklu frekar en hjálmar með horn sem bara voru til í Prins Valíant bókum og Wagner óperuuppfærslum.
Íslendingar uppfylla annars óvenju mörg skilyrði þess að mega heita sérstök þjóð: búa á eyju úti í ballarhafi, tala sérstakt tungumál, hafa meira og minna sameiginlega menningararfleifð og sögu – óvenju ríkulegan sagnaarf, munnlegan og skriflegan – og þjóðtrú með skrautlegum forynjum, sem kvikmyndahöfundar okkar hafa vonandi einhvern tímann spurnir af. Íslendingar eiga meira að segja ritaðar heimildir um landnám eyjarinnar, upphaf byggðar á landinu, þar sem kemur fram að hingað kom fólk frá Bretlandseyjum og Noregi til lengri og skemmri dvalar áður landið byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hárfagra, norrænu og gelísku fólki, þar á meðal fjölda þræla sem fylgdu þeim norrænu höfðingjum sem hingað komu. Þessi þrælar áttu eftir að móta menningu landsmanna, rétt eins og afkomendur Afríkurþræla í Ameríku hafa fært þeirri álfu allt það besta í sinni menningu – „oss hafa augun þessi …“. Hér voru töluð fleiri en eitt tungumál og iðkuð fleiri en ein trúarbrögð – og svo bætist við suðureyskt fólk og Finnar – sem voru Samar og kunnu galdur – og þá höfum við hér fjölmenningarsamfélag frá byrjun. Þessi fjölmenning kemst í sérstakan blóma á 13. og 14. öld þegar renna saman í einkennilega ramma blöndu ólíkir menningarstraumar frá kristnum lærdómi, keltneskum sagnaarfi, norrænni heiðni og suðrænum riddarabókmenntum – og guðmávita hverju fleiru. Og til urðu heimsbókmenntir hér á hjara veraldar.
En ekki bara það: hér þróaðist sérstakt fyrirkomulag í stjórnskipun sem líktist því sem keltar höfðu víða, ekki bara með norræna þinginu heldur ekki síður með goðafyrirkomulaginu, þar sem bændur fylgdu tilteknum goða sem í staðinn tryggði þeim visst öryggi gagnvart ofríki annarra höfðingja. Ýmislegt bendir til þess að þetta goðafyrirkomulag hafi aldrei alveg lagst af hér á landi, og lengi vel hafi goðarnir verið fyrstu þingmenn kjördæmanna hverju sinni, en í seinni tíð hafi goðorðið fremur færst á hendur stórútgerðarmönnunum sem hafa nú öll ráð fólks í hendi sér, og veita fólki af örlæti sínu vinnu við úrvinnslu þess sjávarafla sem í orði kveðnu á að heita sameign þjóðarinnar – og halda fólkinu dýrlegar flugeldasýningar þegar vel liggur á þeim.
Lífið er félagsskapur
Þjóð er opið kerfi, ekki lokað. Þjóð byrjar hvergi og endar hvergi; það er ekki hægt að drepa fingri einhvers staðar og segja: hérna hófst þetta; þarna lýkur því. Það er heldur ekki hægt að segja til um það með fullri vissu hverjir séu Íslendingar og hverjir ekki þó við vitum það nokkurn veginn; það eru ekki til neinir „sannir Íslendingar“. Íslendingar eru eiginlega bara hver sá sem vill líta á sig sem slíkan, býr hér og á hér líf og tilveru og samfélag við annað fólk, festir hér rætur. Og þarf ekki einu sinni að búa hér, eða hvað um Indjánann sem Einar Ólafur og Haraldur Bessason hittu á slóðum Vesturíslendinga í Manitoba og sagðist vera Skagfirðingur á syngjandi norðlensku, og hafði þá alist upp meðal skagfirskra vesturfara. Auðvitað var hann Skagfirðingur …
Þjóð er lífræn heild í sífelldri mótun og endurnýjun, breytist með hverjum nýjum einstaklingi sem við hana bætist og bætir þá einhverju við menningu hennar, ekki með því að útrýma því sem fyrir var, því að menning er ekki með takmarkað hillupláss, frekar en mannsheilinn – hún getur þanist út endalaust eins og alheimurinn, því að hún er ekki síst til í sameiginlegu minni þeirra sem henni tilheyra. Og menning er ekki átakasvæði – ekki keppni eða raunveruleikaþáttur með útsláttarfyrirkomulagi eins og trumpisminn vill innræta okkur. Lífið er ekki þannig. „Lífið er félagsskapur,“ eins og Guðmundur Páll sagði. Menningin er samfarir.
Þó að einhverjir landsmenn tali ensku eða pólsku í sinn hóp er það í sjálfu sér ekki ógnun við íslensku, frekar en skagfirski Indjáninn var ógn við kanadíska menningu; eina ógnin við íslenskuna felst í því að íslenskumælandi fólk hætti sjálft að tala sitt tungumál, hætti að virða það, nota það, þykja vænt um það.
Hitt er svo annað mál að sú þjóð sem nú gengur um götur með heimstorgin í lófanum á símaskjá, er ekki sama fólk og það sem reri fram í gráðið á kvöldvökum í baðstofunum á fyrri öldum eftir langan vinnudag og sinnti tóvinnu. Eru þá Íslendingar hættir að vera Íslendingar? Nei – því að vitundin um líf fólks hér á fyrri öldum býr enn í fyrrnefndu sameiginlegu minni sem ræktað er við eldhúsborðin, í fermingarveislunum, í bókunum; sögurnar, tilsvörin, þjóðhættirnir, samhengið er enn órofið og þó að það rofni einn góðan veðurdag halda Íslendingar áfram að vera Íslendingar, hafi þeir á því áhuga.
Fullveldi táknar hins vegar annað fyrir einangrað sveitasamfélag með fábrotinn sjálfsþurftarbúskap og stopular samgöngur við heiminn en opið og dýnamískt fjölmenningarsamfélag, sítengt umheiminum í samskiptum og viðskiptum.
Samfélagsháttunum var umbylt á 20. öldinni á Íslandi með vélvæðingu, þéttbýlismyndun, peningum; með vissri léttúð má segja að Íslendingar hafi ekki uppgötvað hjólið fyrr en Heimastjórnarárið 1904 þegar fyrsti bíllinn kom til landsins – voru kannski of uppteknir við að hugsa um kindur. Þjóðfélagshættir gjörbreyttust, mestu þjóðflutningar í sögu þjóðarinnar áttu sér stað; loksins myndaðist þéttbýli við sjávarsíðuna sem fryst hafði verið alveg frá Piningsdómi árið 1490, þar sem bönnuð var veturseta erlendra kaupmanna og íslenskum stórbændum þannig tryggður aðgangur að ódýru vinnuafli hjúa með ströngum skilyrðum um lágmarksstærð búa og banni við lausamennsku. Furðu hátt hlutfall Íslendinga varð ófrjáls vinnuhjú, allur fjöldinn var eignalaust fólk í fátæktarfjötrum jafnvel þótt sumir næðu að hokra á eigin koti og vera sjálfs sín, eins og það var kallað. Af þessu fólki erum við komin.
Hvaðeina sem heimsborg hentar
Langamma mín Ólöf Helgadóttir, ekkja frá Skógargerði í Fellum á Fljótsdalshéraði, var komin úr sveitinni til Reykjavíkur árið 1918 – fullveldisárið – og bjó þar ásamt Margréti dóttur sinni. Hún arkaði í peysufötum um göturnar sem nú eru undirlagðar af túristum í leit að lundum og húi. Hún dó árið 1919, varð fyrir bíl, fyrst kvenna á Íslandi. Ótímabær og hörmuleg örlög hennar eru skýr vitnisburður um harkalegan árekstur sveitasamfélagsins og þéttbýlismyndunar en minna okkur líka á að Íslandssagan er ekki alveg jafn einföld og við viljum stundum vera láta. Fullveldisárið 1918 var hér vísir að borg og úrval í verslunum á matvöru var miklu betra en það átti seinna eftir að vera, þegar haftaflokkarnir, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn – Tvíflokkurinn – tók hér öll völd.
Oft er talað eins og súrmetis-miðaldir hafi staðið hér á landi alveg fram að komu ameríska hersins sem hafi kippt okkur óþyrmilega inn í nútímann, með þægindum sínum, skarkala, tyggjói, velsæld og peningum. En sagan er ekki alveg þannig. Þó henni vindi fram með rykkjum stundum þá eiga hlutirnir sér yfirleitt aðdraganda. Þessi Reykjavíkurþróun var löngu hafin þegar Kaninn kom. Nokkrum árum eftir að langamma varð fyrir óhræsis bílnum skrifaði ungur oflátungur úr Mosfellsdal sem hafði þvælst um alla Evrópu að ná sér í nútíma, Halldór Kiljan Laxness að Reykjavík hefði „í skjótri svipan eignast hvaðeina sem heimsborg hentar, ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma.“ Mánasteinn, hin magnaða skáldsaga Sjóns um Reykjavíkurlífið árið 1918, minnir líka á að hér var mikil bíómenning þá þegar komin, mannlíf á götunum, vísir að borgarmenningu og auðvitað sá hómósexúalismi sem Halldór fagnar sérstaklega sem vitnisburði um heimsborgarmenningu.
Það er ein af ráðgátum Evrópusögunnar hversu lengi Íslendingar héldu í þá hugmynd að þetta land væri vel til landbúnaðar fallið. Grundvöllur þjóðfélagsbreytinga – framfaranna – var vélvæðing í sjávarútvegi – vélbátaútgerðin sem hófst hér á síðustu áratugum 19. aldar. Fyrsti íslenski togarinn, Jón forseti, kom hingað 1908, en fram að því höfðu landsmenn horft upp á enska togara moka fiski upp við landsteinana. Þetta var undir lok Heimastjórnarskeiðsins, sem var fyrsta geggjaða góðærið hér á landi og bændahöfðingjunum hélst ekki lengur uppi að halda allri alþýðu manna í hokri og örbirgð. Fyrsti ráðherrann kom 1904, Hannes Hafstein, ágætt skáld, frjálslyndur vinstri maður og glæsimenni. Ómælt fé streymdi inn í landið á þessum árum með bankastarfsemi, og rataði í útvalda staði, eins og tíðkast hjá nýfrjálsum nýlendum með innlenda forréttindastétt – sín sérstöku goðorð – og einhvern veginn sýnist manni að samfellt partí hafi geisað þessi fjögur ár hjá höfðingjunum í Reykjavík, svipað eins og hjá útrásargosunum hundrað árum síðar ... Það heyrðist meira að segja talað um að sérlega glatt hefði verið á hjalla þegar „hvíta duftið“ var haft um hönd …
Tækniframfarir í sjávarútvegi og afnám vistarbandsins undir lok 19. aldarinnar sköpuðu lífskjarabyltingu. En við megum aldrei gleyma því að forsenda þeirrar byltingar er dugnaður og ósérhlífni þess eignalausa fólks sem lagði mikið erfiði á sig til þess að skapa börnum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum – já okkur – mannsæmandi kjör. Þegar verkalýðshreyfingin virkjaði samtakamáttinn varð til ógurlegt afl, sem magnaðist líka af óttanum við útbreiðslu byltingarinnar í Rússlandi. Það tókst að ná fram verulegum lífskjarabótum sem ekki voru bara undir rausnarskap goðanna komnar, hærri laun, betri aðbúnað á vinnustöðum, boðlegan vinnutíma, tryggingar, betra húsnæði. En svo sækir í sama far og aftur þarf að sækja hér fram til að koma á réttlátu kerfi sem gerir öllum kleift að sinna þeirri grunnþörf að koma sér upp þaki yfir höfuðið án þess að vera hneppt í ævilanga ánauð.
Sú velmegun sem þrátt fyrir allt hefur ríkt hér á landi síðustu áratugi er ekki bandaríska hernum að þakka heldur verkalýðshreyfingunni, baráttu og samtakamætti. Jöfnuður væri hér hins vegar meiri og lífskjör betri hefði pólitískur styrkur hreyfingarinnar verið meiri, klofningurinn minni.
Það voraði illa 1918
Árið 1918 er þarna í þjóðarsögunni en það lýsir ekki skært og tignarlega heldur er týran dauf frá því. Þetta er mótsagnakennt ár. Það kallar fram margræðar kenndir sem vegast á; sorg, auðmýkt og stolt, jafnvel ráðleysi í alls konar hlutföllum.
Kannski er þetta ástæðan fyrir því að við gerum alla jafnan heldur lítið með þessi gríðarlegu tímamót í Íslandssögunni. Árið er okkur áminning um vald og takmarkanir þess: minnir okkur á það sem er í okkar valdi og utan þess. Við fengum fullveldið, en urðum fjarri því fullvalda yfir aðstæðum okkar. Frostaveturinn mikli skall af fullri hörku á landsmönnum, Skerjafjörðinn lagði fyrir sunnan og Pollinn á Akureyri fyrir norðan, en Vestfirðir og Húnaflói fylltust af hafís. Daginn sem fullveldið var samþykkt barst Spænska veikin til landsins með danska skipinu Botníu eða bandaríska skipinu Willemoes. Tveir þriðju íbúa Reykjavíkur lögðust í rúmið; nærri fimmhundruð manns létust af völdum inflúensunnar áður en yfir lauk, um helmingur í Reykjavík. Óvætturin Katla gaus. Öllum tegundum af hallæri var dembt á þjóðina á einu ári. Engu var líkara en að sjálft landið, gjörvöll náttúran, berðist um á hæl og hnakka og beitti öllum ráðum við að reyna að sannfæra landsmenn um að þetta myndi aldrei geta gengið, þið skuluð ekki halda að þið getið orðið sjálfstætt fólk.
Þetta hafðist nú samt og eftir á að hyggja varð það þjóðinni til mikillar gæfu að losna undan afskiptum og íhlutun danskra stjórnvalda, sem stundum vildu vel en höfðu í rauninni takmarkaðan skilning á staðháttum hér, eins og dæmin frá Innréttingunum og til Milljónafélagsins sýna. Ein þjóð á aldrei að vera undir eina aðra þjóð sett. Það er grundvallaratriði.
Við deilum hins vegar fullveldi okkar með öðrum jafnréttháum ríkjum. Þjóðir heimsins eru í sífellu að afsala sér hluta af fullveldi sínu við gerð margvíslegra sáttmála og úrlausn alls konar mála, ekki síst umhverfismála þar sem engin landamæri eru, ekki einu sinni hjá þjóð sem býr úti í ballarhafi. Jörðin er bara ein og þrautpínd af rányrkju kapítalismans og ef svo heldur fram sem horfir mun maðurinn eyða sér og öllu lífi fyrr en varir með neysluháttum sínum, skammsýni, græðgi og hagvaxtargrillum.
En það er stórt orð, hákot. Og því stærri sem orðin eru þeim mun rýrari vill merking þeirra verða. Orð eins og „fullveldi“ vísar á fyrirkomulag sem hvorki er mögulegt né æskilegt. Ætli það ríki sem komst næst því að mega heita „fullvalda“ hafi ekki verið Kambódía í tíð ógnarstjórnar Rauðra kmera?
Hálfveldið Ísland
Við tölum ekki um hálfveldi. Samt kynni það orð að lýsa stöðu íslenskt samfélags og stjórnkerfis betur en hið steigurláta orð, fullveldi, þegar kemur að setningu laga og reglugerða um það hvernig háttað er umgjörð mála í samfélaginu. Þannig þurfa Íslendingar að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins, án þess að hafa haft nokkuð um þær að segja nema að undangengnu málamyndasamráði. Oftast eru þetta fyrirtaks mál. Almenningur hefur fengið margvíslegar réttarbætur með þessu fyrirkomulagi, sem hinn íhaldssami tvíflokkur sem stjórnað hefur landinu meira og minna frá árinu 1904 hefði aldrei samþykkt annars, nema þá að undangengnum verkföllum. Þetta eru umhverfismál og neytendamál og margvísleg réttindamál almennings og minnihlutahópa – nú síðast ágæt persónuverndarlög, þar sem umræðan hér á landi snerist helst um það hvílíkt vesen þeim fylgdi fyrir stofnanir og fyrirtæki, en færri höfðu orð á þeim miklu réttarbótum sem lögunum fylgja fyrir almenning. Tvíflokknum virðist þykja þetta hálfveldi prýðilegt, enda er aðgangur sjávarútvegsfyrirtækjanna að innri markaði Evrópusambandsins tryggður, sem er aðalatriðið, um leið og valdið yfir gjaldmiðlinum er það líka, sem hentar auðvitað bara hluta af fyrirtækjunum í landinu – þeim hluta sem ræður ferðinni; goðunum. Kannski treysta menn á að lögum og reglugerðum verði slælega framfylgt hér norður í ballarhafi – eins og löngum fyrr á öldum.
Þetta voru merkileg tímamót, árið 1918; við vorum ekki lengur dönsk nýlenda, og þó að farið sé að fenna yfir þær tilfinningar sem þá losnuðu úr læðingi megum við ekki gleyma því alveg að það er illt hlutskipti fyrir þjóð að lúta annarri þjóð. En manni finnst eins og það vanti eitthvað. Manni finnst eins og þetta gæti verið svo miklu betra. Manni finnst eins og Ísland sé ekki alveg heilt – að hér sé jafnvel nokkurs konar hálfveldi. Manni finnst eins og við deilum ekki byrðunum og gæðunum eins og við ættum að gera og að þjóðin fái ekki það sem henni ber fyrir auðlindir sínar og fyrir vikið sé hér meira um flugeldasýningar en spítalarekstur, meira um bónusa og fjárglæfra en skólarekstur, meira um forstjórahækkanir en sanngjörn ljósmæðralaun.
Manni finnst eins og það hafi ekki alveg náðst að skapa hér það góða samfélag sem öll skilyrði eru fyrir að búa til – mannafli, þekkingarstig, tækni, menning, birtan og fjöllin, orkan í loftinu og blessað rokið.