Kominn tími til að hugsa út fyrir boxið og byrja að framkvæma

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í Reykjavík segir ófremdarástand ríkja í málefnum heimilislausra í borginni. Hún segir þurfa að setja húsnæðismálin í forgang fyrir alvöru og byrja að framkvæma.

Auglýsing

Málefni heimilislausra hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og var einnig eitt aðalkosningamál Flokks fólksins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga. Að vera heimilislaus er án efa eitt það erfiðasta í lífi sérhvers einstaklings og fjölskyldu. Heimilislausir er fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á öllum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað heimili. Sumir heimilislausir glíma við veikindi eða hömlun af einhverju tagi. Þetta er fólk sem hefur orðið fyrir slysi eða áföllum, eru öryrkjar eða með skerta starfsorku sem hefur valdið þeim ýmis konar erfiðleikum og dregið úr möguleikum þeirra að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Ætla má að langflestir þeirra sem eru heimilislausir séu það vegna þess að þeir hafa ekki efni á að leigja húsnæði í Reykjavík þar sem leiguverð fyrir meðalstóra íbúð er jafnvel 250.000 krónur á mánuði. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og margir þeir sem leigja hjá Félagsbústöðum kvarta auk þess yfir að húsnæðinu sé ekki haldið nægjanlega við. Sumt af húsnæði Félagsbústaða er heilsuspillandi. Hjá Félagsbústöðum hefur leiga jafnframt hækkað mikið undanfarið og er að sliga marga leigjendur.

Flokkur fólksins hefur lagt fram tvær tillögur sem varða Félagsbústaði en eins og kunnugt er um að ræða fyrirtæki sem heyrir undir B-hluta borgarinnar. Fyrri tillagan er að borgarstjórn samþykki að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Þessari tillögu var vísað í borgarráð þar sem henni var síðan vísað til umsagnar hjá fjármálastjóra og innri endurskoðanda. Seinni tillagan er að borgarstjórn samþykki að gerð verði ítarleg úttekt á biðlista Félagsbústaða m.a. hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar og hverjar eru aðstæður umsækjenda? Hve langur er biðtíminn og hve margir hafa beðið lengst? Hér er um að ræða brot af þeim upplýsingum sem óskað hefur verið eftir er varðar biðlista Félagsbústaða.

Auglýsing

Heimilislausir búa margir hverjir upp á náð og miskunn hjá  öðrum, ýmist vinum eða ættingjum eða hírast í ósamþykktu iðnaðarhúsi sem ekki er hægt að kalla mannabústað. Einn hluti hóps heimilislausra er utangarðsfólk, fólk sem glímir sumt hvert við djúpstæðan fíknivanda og geðræn veikindi.  Þessi hópur þarf líka að eiga einhvers staðar heima, hafa stað fyrir sig. Enn aðrir eru þeir sem kjósa að búa í húsbílum sínum en hafa ekki fengið varanlega staðsetningu fyrir húsbílinn nærri grunnþjónustu.

Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni. Það er víða verið að byggja alls kyns húsnæði sem selt verður fyrir upphæðir sem þessum hópi er fyrirmunað að ráða við að greiða. Byggja þarf ódýrara og hagkvæmara, hraðar og markvissara og alls staðar sem hægt er að byggja í Reykjavík. Óhagnaðardrifin leigufélög þurfa að verða fleiri. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að lífeyrissjóðir fái lagaheimild til að setja á laggirnar óhagnaðardrifin leigufélög. Hjá lífeyrissjóðunum er gríðarmikið fjármagn sem nýta má í þágu fólksins sem greiðir í sjóðina.

Í viðtali við verkefnastjóra Kísilverksmiðjunnar á Bíldudal í morgunútvarpinu í vikunni sagði hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi sem fullbúin kosta 16 milljónir. Hér er komin hugmynd sem vel mætti skoða fyrir Reykjavík og víðar. Fram til þessa hefur lóðarverð verið hátt og einnig byggingarkostnaður. Þeir sem hafa helst byggt hafa gert það í hagnaðarskyni enda eigendur gjarnan fjárfestingabankar og önnur fjárfestingarfyrirtæki.

Af hverju getur borgin ekki skoðað lausnir af fjölbreyttari toga? Vandi heimilislausra og annarra sem búa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum mun aðeins halda áfram að vaxa verði ekki farið að grípa til róttækra neyðaraðgerða enda ríkir hér neyðarástand í þessum málum.  Það þarf að setja húsnæðismálin í forgang fyrir alvöru og byrja að framkvæma. Flokkur fólksins í borginni hefur óskað eftir að málefni þessa hóps verði sett á dagskrá á næsta fundi borgarráðs 19. júlí. Það er kominn tími  til að fara að hugsa út fyrir boxið í þessum málum og framkvæma.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Fátækleg umfjöllun – Stefna Flokks fólksins í umhverfismálum
Kjarninn 20. september 2021
Meiri líkur en minni á því að hægt verði að mynda miðjustjórn sem teygir sig til vinstri
Þrjár gerðir fjögurra flokka stjórna sem innihalda miðju- og vinstriflokka mælast með meiri líkur á að geta orðið til en sitjandi ríkisstjórn hefur á því að sitja áfram.
Kjarninn 20. september 2021
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar