Ég vil byrja á að þakka fyrir tálmunarfrumvarpið sem lagt var fram á hinu háa Alþingi Íslendinga. Frumvarpið er nauðsynlegt í þágu barna. Frumvarpið er nauðsynlegt til að sporna gegn brotum á börnum. Frumvarpið er nauðsynlegt til að lágmarka ofbeldið sem lögheimilisforeldri beitir börn sín með tálmun. Frumvarpið verndar mannréttindi barna sem geta ekki talað sínu máli og vilja eiga samvistir við báða foreldra sína. Frumvarpið tryggir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem við erum aðilar að, sé virtur. Frumvarpið er í alla staði lagað að þörfum og rétti barna. Frumvarið á fullan rétt á sér og því skora ég á ykkur að leggja það fram að nýju.
Margir þingmenn sem hafa barið sér á brjóst og segjast bera hag barna fyrir brjósti skiptu allt í einu um skoðun á meðan frumvarpið var til umræðu. Undir umræðunni átti ekki að hugsa um hag barna, heldur mæðra, því þingmenn vita að þær eru í meirihluta þegar kemur að tálmunum. Réttur barna að engu hafður. Vernda á ofbeldi lögheimilisforeldris eins og bersýnilega kom fram í umræðunni hjá of mörgum þingmönnum. Standa vörð um ofbeldi gagnvart barni er einkunnarorð margra þingmanna þegar kom að umræðinni um tálmunarfrumvarpið. Þingmenn horfðu ekki kynlaust á brot lögheimilisforeldris gagnvart réttindum barna.
Við brot á lögum eiga að vera viðurlög. Eins og þú sagðir Brynjar, í einni ræðu þinni, þá værir þú tilbúinn að breyta fangelsisvist fyrir tálmun í forsjársviptingu eins og Danir gera. Styð ykkur heilshugar í því sem þið teljið réttast í þessum málaflokki, umfram allt, það verður að gera tálmun á umgengni refsiverða. Réttur barna, líf og velverð þeirra er í húfi.
Á síðum blaða og miðla hefur margt og mikið verið skrifað um tálmun og aðskilnað barna frá foreldri sínu. Afleiðingin getur orðið skelfileg. Bitnar á uppvexti, skólagöngu og andlegri líðan barna. Allir eru sammála um að skilnaður foreldra á ekki að vera mál barna. Hvað þá að foreldri geti beitt tálmun án afleiðinga. Og enn síður að börn séu notuð sem vopn í valdabaráttu.
Hér rifja ég upp skrif þingmanns - Helga Vala Helgadóttir skrifar 3.4.2017:
„Á hverjum degi á sér stað ofbeldi gegn börnum hér á landi. Ofbeldið er framið af foreldri sem ekki vill leyfa barninu að eiga í samskiptum við hitt foreldrið undir því yfirskini að barninu verði meint af samskiptunum. Hef ég í mínu starfi heyrt fjölmargar útgáfur af ástæðu og umfangi tjónsins sem kann að verða á sálu barns fái það að njóta samvista við báða foreldra sína. Nú skal tekið fram að einstaka sinnum er hætta á að barn lendi í óviðeigandi aðstæðum í návist foreldris en það er blessunarlega algjör undantekning.“
Brynjar eins og þú veist nýta dómarar ekki þann rétt að dæma lögheimili eða forsjá af foreldri sem beitt hefur tálmun. Þegar forsjárdómar eru lesnir má sjá að dómarar gera ekkert með tálmanir. Oftar en ekki verðlauna dómarar það foreldri sem beitir tálmun. Gersamlega óviðunandi. Börnin blæða.
Hér með skora ég á ykkur, Brynjar og Helga, að leggja frumvarpið fram að nýju og halda málinu til streitu þar til réttur barna verður settur í fyrsta sæti þegar kemur að tálmun. Í svona málum eiga flokkadrættir ekki að eiga sér stað, sálarheill barna er í húfi.
Þingmenn sem segja sig berjast fyrir réttindum barna ættu að kynna sér málaflokkinn mjög vel áður en þeir vernda ofbeldið sem tálmun er. Of margir þingmenn hafa nú þegar fallið í þá gryfju. Endilega komið ykkur upp úr meðvirkninni sem þið hafið með lögheimilisforeldinu, sem beitir barn ofbeldi, og hugsið um hag barnanna.
Virðingarfyllst,
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari, móðir og amma.