Það er sannarlega alvarlegt að kjaradeila ljósmæðra standi enn óleyst. Verðandi foreldrar hafa áhyggjur af öryggi og umönnun ófæddra barna og við flest höfum áhyggjur af óleystum vanda heilbrigðiskerfisins. Deilan sýnir einnig greinilega í hvers konar viðvarandi vanda við verðum ef við bætum ekki kjör kvennastétta sérstaklega og tökum tillit til beggja kynja á vinnumarkaði.
Það þarf pólitískan vilja og kjark til að leysa kjaradeilu ljósmæðra og það þarf pólitískan vilja og kjark til að bæta kjör kvennastétta. Munurinn á heildarlaunum kvenna og karla mælist nú rúm 20%. Lífeyrisgreiðslur til kvenna eru þar af leiðandi lægri en til karla. Launamisréttið fylgir konum alla leið.
Þjóðin er að eldast og fátækum gömlum konum fjölgar. Fátækt er jafn slæm hvort sem það er karl eða kona sem býr við fátækt. En samt sem áður er ekki hægt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur frá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þess vegna eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Þar að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Þessu öllu getum við breytt.
Vinnumarkaðurinn er kynskiptur. Stærstu kvennastéttirnar starfa hjá ríki eða sveitarfélögum. Þeir vinnuveitendur geta ákveðið að útrýma kynbundnum launamun alveg eins og það er ákvörðun þeirra að viðhalda honum.
Vítahringur rofinn
Hvað getum við gert til að eyða kynbundnum launamun og koma í veg fyrir að fátækum gömlum konum fari enn fjölgandi á Íslandi? Fyrst og fremst verða stjórnmálamenn að sýna vilja og kjark og þora að taka ákvarðanir sem útrýma kynbundnum launamun. Stytting vinnuvikunnar, að brjóta glerþakið á vinnumarkaði, lenging fæðingarorlofs í eitt ár og að tryggt sé að leikskólar geti tekið við börnum að fæðingarorlofi loknu fram að grunnskólagöngu og barnabætur sem munar um eru allt mikilvæg skref sem taka þarf.
Ef ekkert af þessu er gert verðum við föst í sama farinu og sama sagan mun endurtaka sig um ókomin ár. Allt eru þetta atriði og aðgerðir sem stuðla að auknu jafnrétti og öll eru þau framkvæmanleg. Það þarf bara viljann til að framkvæma. Það er hægt að útrýma kynbundnum launamun.
Til þess þarf pólitískan vilja og kjark!