Ungir jafnaðarmenn hafa þann sið að safnast saman 22. júlí, til að minnast þeirra sem féllu í hryðjuverkaárásinni í Noregi á þessum degi fyrir 7 árum. Systursamtök Ungra jafnaðarmanna í Noregi, AUF, hafa þurft, nú þegar nokkur ár eru liðin frá atburðinum, að standa í nokkrum umræðum um hvernig beri að minnast þessara voðaverka og fórnarlamba þeirra. Sjálfsagt er ekkert eitt hárrétt svar við því flókna og viðkvæma verkefni, en hvernig AUF hefur höndlað málin hefur verið til fyrirmyndar. Hægri stjórnin sem setið hefur í Noregi síðustu ár hefur vísvitandi reynt að sveigja orðræðuna um 22. júlí á þann veg að um hafi verið að ræða árás á Noreg; allt norskt samfélag. Og þó að það sé auðvitað að vissu leyti alveg rétt, þá skautar það yfir þá staðreynd, þann yfirlýsta ískalda sannleik sem fenginn er af vörum sjálfs morðingjans, að árásin var sérhæfðari en svo. Þetta var árás á fjölmenningu, á frjálslyndi og á jafnrétti og mannréttindi allra óháð uppruna. Þetta var árás á Verkamannaflokkinn og ríkisstjórn hans. Þetta var árás á unga jafnaðarmenn. Þessu hafa AUF reynt að halda til haga án þess að gera sér pólitískan mat úr þessum hræðilegu atburðum. Ekkert þeirra 77 sem létust óskuðu eftir því að verða að píslarvottum fyrir málstaðinn.
Þó er óhugsandi að minnast og heiðra fórnarlömb árásarinnar, án þess að halda á lofti þeim sjónarmiðum sem reynt var að ráðast á. Víða í heiminum vaxa öfgafullum þjóðernisöflum ásmegin, og pólitíska strategían um að skipta fólki alltaf upp í „við“ og „hin“, sem skildi heiminn eftir blóði drifinn um miðja síðustu öld, er núna hispurslaust nýtt meðal lýðskrumara til að spila inn á óöryggi fólks. Það er því mikilvægara en það hefur lengi verið, að setja í öndvegi þau gildi sem reynt var að skjóta í kaf í Osló og Útey fyrir sjö árum, þ.e. jöfnuð, frið, mannréttindi, femínisma, frjálslyndi og fjölmenningu.
Þannig má vonandi koma í veg fyrir að 22. júlí 2011 endurtaki sig.
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson
Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna