Það er ljóst að stórkostleg mistök voru gerð við undirbúning hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum þann 18. júlí sl. Ábyrgðin á þessu klúðri liggur fyrst og fremst hjá Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis, en hann virðist hafa misst sjónar á eðli og tilgangi hátíðarfunda af þessu taginu. Hátíðarfundir Alþings á Þingvöllum eru fyrst og fremst táknrænir atburðir, ætlað að efla samstöðu og undirstrika það sem þjóðin á sameiginlegt. Þingvellir eru þjóðartákn, enginn á Þingvelli fremur en annar. Staðsetningin gerir því sérstakar kröfur til fundarins. Til þess að táknrænir hátíðarfundir af þessu taginu geti farið fram þarf því að tryggja samstöðu og útiloka átök. Í hugum margra verða slíkir fundir því yfirborðskenndir og jafnvel innihaldslausir, vettvangur hátíðarræðna og samþykktar tillagna sem allir samþykkja einum rómi. En þetta getur varla verið með neinum öðrum hætti: deilur og umræður um tillögur, flutningur breytingatillagna, atkvæðagreiðslur þar sem þingmenn gera grein fyrir atkvæði sínu og umræður um fundarstjórn forseta eiga augljóslega ekki við á Þingvöllum. Hátíðarfundir standa því og falla með góðum undirbúningi, samráði og samningum. Forseti Alþingis, eðli málsins samkvæmt, ber ábyrgð á því að þessi undirbúningur sé í lagi. Undir þessari ábyrgð stóð Steingrímur J. Sigfússon ekki og raunar bendir allt til að einstrengislegar hugmyndir hans um fundinn séu helsta orsök þess að upp úr sauð.
Steingrímur og aðrir skipuleggjendur fundarins fengu þá flugu í höfuðið að aðkoma danska þingsins væri nauðsynleg á hátíðarfundinum. Því væri eðlilegt að forseti danska þingsins ávarpaði hátíðarfundinn. En þetta er furðuleg hugmynd sem ekki styðst við neinar hefðir. Ávarp forseta danska þingsins var í raun þvert á allar venjur sem gilt hafa um hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum. Sjálfsagt var bjóða forseta þjóðþinga Norðurlandanna að vera viðstaddir, en engin þörf var á ávarpi. Steingrími var fullljóst hversu umdeildur stjórnmálamaður forseti danska þingsins er, honum hlaut að vera ljóst að ávarp frá henni myndi verða tilefni pólitískra átaka og gagnrýni innan þings og utan. Þegar síðan upp úr sauð, harmar Steingrímur að forseta danska þingsins sé ekki sýnd full virðing og segist „vona að um minnihlutasjónarmið sé að ræða“. Steingrímur virðist ekki átta sig á því að án þess að fullt tillit sé tekið til minnihlutasjónarmiða, verða engir hátíðarfundir haldnir á Þingvöllum. Ef menn skilja þetta ekki, eiga menn ekki að koma nálægt skipulagi slíkra funda. Um leið og Steingrímur opinberaði harm sinn, birtist Pia Kjærsgaard í fjölmiðlum og minnti fólk á að stjórnmálamaðurinn og þingforsetinn eru sami einstaklingurinn. Á þessum einstaklingi hafa þingmenn ólíkar skoðanir eins og gengur, en það er ekki hlutverk Steingríms J. Sigfússonar að lesa þingmönnum pistilinn um það hvað séu réttar skoðanir í því samhengi. Hlutverk Steingríms var að taka tillit til þessara ólíku skoðana og tryggja sæmilega sátt. Þetta reyndist honum ofviða.
Steingrímur J. Sigfússon bauð forseta danska þingsins að flytja ávarp á Þingvöllum og þykist nú alveg hissa á viðbrögðunum. Hann hefði allt eins getað flutt tillögu um afnám kvótakerfisins og verið alveg hissa á því að órói færðist yfir þingheim. Einn þingflokkur mætti ekki í mótmælaskyni, einn þingmaður sat ekki undir ræðu danska þingforsetans, fjölmargir þingmenn mættu með dönsk barmmerki og auglýstu þau sérstaklega á samfélagsmiðum og einn þingmaður fann sig knúinn til að flytja hluta af ræðu sinni á dönsku. Og í kjölfarið var allt eftir uppskriftinni: þingmenn gagnrýna hver annan með dylgjum og ásökunum. Ef að líkum lætur eru þessar deilur rétt að byrja. Steingrímur J. hefur hingað til ekki látið gagnrýnendur eiga neitt inni hjá sér.
Líklega fara þessar deilur með hátíðarfundi á Þingvöllum á svipaðan hátt og deilur fóru með þjóðargrafreitinn á Þingvöllum. Táknrænir hátíðarfundir þola ekki deilur af þessu taginu, þeir flytjast frá hinu táknræna og sameiginlega yfir á svið hversdagslegra stjórnmála þar sem deilur eru sjálfsagðar og eðlilegar. Forseti Alþingis taldi mikilvægara að bukta sig fyrir dönskum embættismanni á Þingvöllum en tryggja sátt og samstöðu eigin þingmanna á 100 ára afmæli fullveldisins. Hvort þessi uppákoma er harmræn eða spaugileg skal ósagt látið, en það er sannarlega eitthvað síð-nýlendulegt við hana.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.