Húsnæðiskrísan í borginni á sér margar birtingarmyndir. Sífellt fleiri flytja í nágrannasveitarfélögin úr Reykjavík og er metfjölgun í Reykjanesbæ og í Árborg til marks um það. Fasteignaverð hefur tvöfaldast og var um tíma sett heimsmet í verðhækkunum á síðasta kjörtímabili. Leiguverð hefur hækkað um 100% og kostar nú hátt í 300 þúsund að leigja blokkaríbúð í Reykjavík. Æ hærra hlutfall ungs fólks er í foreldrahúsum samkvæmt tölum frá Íbúðalánasjóði. Og svo eru það heimilislausir, en þeim hefur fjölgað um 95% á stuttum tíma. Það er ólíðandi fyrir okkar að sjá þessa miklu fjölgun fólks sem býr við algert óöryggi þeirra sem ekki eiga skjól. Umboðsmaður Alþingis hefur fundið að starfsháttum borgarinnar í húsnæðismálum og biðlisti Félagsbústaða er búinn að lengjast úr hófi.
Það er eitthvað mikið að hjá borginni
Ástandið er ójafnvægi þar sem talsvert er byggt af lúxusíbúðum en nær ekkert af hagstæðum einingum. Margboðaðar leiguíbúðir hafa látið á sér standa enda leggur borgin 45 þúsund kr. á hvern m2 þessara íbúða. Það gerir 4.5 milljónir á 100m2 íbúð. Þetta veldur því að dæmið gengur ekki upp þar sem leigan er hundruðum þúsunda hærri á ári vegna þessa gjalds borgarinnar. Á sama tíma hefur IKEA byggt íbúðir fyrir starfsmenn sína í Garðabæ og boðar mun lægri leigu. Það er eitthvað mikið að hjá borginni. Allur samanburður sýnir það. Og tölurnar sanna það.
Auglýsing
Stjórnarandstaðan boðar breytingar
Til að bregðast við nýjum veruleika í húsnæðismálum fór stjórnarandstaðan í borginni fram á aukafund í borgarráði þar sem hún lagði fram tillögur að lausnum. Það er kominn tími til að borgarstjórn taki þessi mál alvarlega. Það er von okkar að þeir sem standa að meirihlutasamstarfi í Reykjavík taki tillögum okkar vel.
Á forsíðu „meirihlutasáttmálans“ stendur: „Við eigum öll að geta fundið okkur stað í tilverunni í Reykjavík“. Sú hefur ekki verið raunin og þess vegna hafa fjölmargir flutt burt. Æ fleiri búið í foreldrahúsum og húsnæðislausum eru tvöfalt fleiri en áður. Þetta gerist í samfellda mesta uppgangstíma sem við höfum þekkt. Þessu þarf að linna. Við boðum breytingar. Vonandi verður hlustað á þann boðskap. Orð og nefndir hafa engu skilað. Nú þarf efndir.