Pia Kjærsgaard virðist aldrei efast um skoðanir sínar. Hún hefur skýra sýn á heiminn og finnur auðveldar lausnir á flóknum vandamálum. Sama gildir um skoðanasystkini hennar víða um heim, svo sem Donald Trump og Marine Le Pen. Einfaldar lausnir á flóknum vandamálum, einföld svör við margslungnum spurningum. Deilurnar sem hafa sprottið upp í kjölfar heimsóknar hennar til Íslands sýna þetta ágætlega. Pia Kjærsgaard skrifaði nýlega í Information:
„I begyndelesen handlede det mest om en håndfuld anarkistiske medlemmer fra Piratpartiet samt en enkelt socialdemokrat, der på grund af min person forlod stedet ved Thingvellir, da jeg på vegna af Folketinget skulle tale i anledningen af 100-året for den islandske selvstændighed.“
Þetta er mikil einföldun. Viðbrögð þingmanna Pírata (að kalla þá anarkista er dapurlega ódýr brella) og þingmanns Socialdemokrat voru einungis toppurinn á ísjakanum.
Dagana á undan hafði væntanleg koma Piu Kjærsgaard, sem var heiðursgestur Alþingishátíðarinnar, valdið talsverðum deilum í íslenska samfélaginu, og voru viðbrögð þingmanna senn hluti og beint framhald af þeim. En heimsókn Kjærsgaard og deilurnar sem henni fylgdu sýndu þó fyrst og fremst tvennt. Það fyrra snýr nær eingöngu að Íslandi, hið síðara er hinsvegar mun stærra, þar er heimurinn allur undir.
Ekkert til sem heitir frípassi
Stutt og laggott: að Alþingi Íslendinga hafi ákveðið að bjóða forseta danska þjóðþingsins, Piu Kjærsgaard, að vera heiðursgestur og ræðumaður á 100 ára fullveldishátíðinni, lýsir í besta falli ævintýralegu taktleysi, í versta falli sláandi andvaraleysi. Sú ákvörðun hefði þó hugsanlega ekki átt að koma mjög á óvart.
Við Íslendingar virðumst nefnilega stundum líta svo á, að við séum á einhverskonar frípassa. Að þar sem við erum svo smá og fá, sæt og langt í burtu, þurfum við ekki að taka afstöðu í málefnum heimsins. Við erum krútt sem berum enga ábyrgð. Erum á frípassa, og þar með í fínu lagi að fá danskan stjórnmálamann með afar umdeildar skoðanir, til að halda hátíðarræðu á Þingvöllum – táknrænasta stað Íslands.
Stjórnmálamann sem talar fyrir einsleitni, álítur sína menningu fremri, betri en menningu annarra, og leggur áherslu á að halda henni hreinni. Einhvern tímann hefðu slíkar skoðanir verið kenndar við rasisma. Áköf viðbrögð almennings hér á Íslandi, reiði, depurð og skömm yfir þessari ákvörðun gefur manni þá veiku von, að við séum að átta okkur á því að það sem hér er sagt og gert, sé ósjálfrátt hluti af umræðu heimsins.
Að þótt Alþingi okkar virðist ennþá statt einhvers staðar í kringum 1970, þá sé almenningur að átta sig á því að það er ekkert til sem heitir frípassi – allir beri ábyrgð á jörðinni, hvar sem þeir búa. Og að sú ábyrgð sé mikil, því dökk ský hrannast nú yfir heiminum. Eða með orðum Dylans: It´s not dark yet, but it´s getting there.
Hatur eða þrá eftir mannúð?
Í sæmilega óbrjáluðum heimi ætti það ekki að skapa neinn óróa eða deilur að bjóða forseta Danska þjóðþingsins að halda ræðu á hátíðarstund á Íslandi. Saga þessara tveggja þjóða var lengi samtvinnuð, Kaupmannahöfn höfuðborg Íslands í aldir, götur hennar og hús geyma hluta af sögu landsins.
En við lifum ekki lengur í óbrjáluðum heimi. Við lifum tíma þar sem manneskja á borð við Piu Kjærsgaard er forseti Danska þingsins, og þar með fulltrúi þess út á við – hún er það andlit danska þingsins sem snýr að heiminum. Sem þýðir að skoðanir hennar eru ekki lengur taldar „ekstrem“, heldur eðlilegur hluti af umræðunni. Og hún er heiðursgestur Íslenska Alþingis á sama tíma og Steve Bannon, maðurinn sem kom Trump til valda, fer um Evrópu til að sameina hægrisinnaða popúlista í eina blokk, með það markmið að yfirtaka Evrópusambandið.
Í hinum danska hversdegi virðist deilan í kringum heimsókn Piu Kjærsgaard til Íslands sjálfsagt heldur ómerkileg. Kjarni deilunnar er hinsvegar sá að danska þingið hefur verðlaunað manneskju sem, eins og Trump, eins og Marine Le Pe, stendur fyrir mannfjandsamlegar skoðanir. Það var klaufalegt dómgreindarleysi hjá forseta hins íslenska Alþingis að bjóða henni hingað, viðkomandi ætti að biðjast afsökunar, standa upp úr stól sínum og hleypa öðrum að.
Ég held hinsvegar að sterk viðbrögð Íslendinga við heimsókn Piu Kjærsgaard hafi sumpart stafað af því að við höfðum einfaldlega ekki gert okkur í hugarlund að stjórnmálamaður með hennar skoðanir gæti orðið andlit danska þingsins út á við. Steven Bannon er að safna liði. Hann er að sameina þá sem boða einföld svör við flóknum, margslungnum málum samtímans. Við sjáum það hjá Trump, við sjáum það í sögu fasismans á fjórða áratug síðustu aldar, að slík svör hafa ætíð í för með sér harkalega mismunun, einangrunarhyggju, grimmara samfélag. Að Pia Kjærsgaard geti verið fulltrúi Danska þingsins, að forsætisráðherra Ítalíu er aðdáandi Pútíns og samstíga Tump í mörgum málum, að Pólland, Austurríki, Ungverjaland séu á hraðri leið frá lýðræðinu inn í dimman faðm fasismans …
Þegar allt kemur til alls snúast deilurnar um heimsókn Kjærsgaard til Íslands um þessa spurningu hér: Eigum við að samþykkja það baráttulaust að fasisminn fari nú um hinn vestræna heim, falinn bakvið við grímu lýðræðis, og boði framtíð þar sem hatur og óþol á skoðunum annarra komi í stað samræðu og þrá eftir mannúð?