„Hvernig stendur á því að þeir sem tala mest um umburðarlyndi hafa minnst umburðarlyndi fyrir því þegar ég tala um umburðarlyndi þeirra sem stórhættulega samfélagsplágu?“
Ég veit. Þetta er svo ógeðslega heimskuleg spurning að mann verkjar í eistun af pirringi við að leggjast svo lágt að svara henni. En ef við látum okkur hafa það og „tökum umræðuna“ koma áhugaverðir hlutir í ljós. Til dæmis það að orðið umburðarlyndi er málamiðlun. Þess vegna er það nógu aulalegt til að snúa upp í svona mótsögn. Að umbera eitthvað þýðir bara að láta það ekki pirra sig. Þess vegna dugir það ekki sem samfélagsgildi. Eitt og sér er umburðarlyndi gagnslaust. Og hvers konar innblástur er í svoleiðis orði? Rétt eins og myrkur er skortur á ljósi en umburðarlyndi fjarvera geðvonsku. Prófum þetta sem slagorð:
Frelsi! Jafnrétti! Bræðralag! Geðvonskuleysi!
Hvernig var? Fékk einhver fiðring í magann? Tár á hvarm? Nei. Enginn er að fara að leggja lífið (eða svo mikið sem eftirmiðdag) í sölurnar fyrir umburðarlyndi. Þess vegna er þetta hugtak kennt við vel stætt fólk sem þarf ekki að standa í mánaðarlegri lífsbaráttu; ekki vegna þess að það sé eina fólkið sem prédikar umburðarlyndi heldur vegna þess að umburðarlyndi eitt og sér ristir grunnt.
Hvað slekkur ótta?
Þeir sem bera í hjarta sér martröð um einhvers konar útlendingaplágu eða íslamsvæðingu eða hvítt þjóðarmorð —eða hvað sem þeir kalla heiladrauga sína— líta á kall „góða fólksins” eftir umburðarlyndi sem aulalegt tilsvar. Og þeir hafa að hluta til rétt fyrir sér. Umburðarlyndi er of kalt og vélrænt til að sefa tilvistarhræðslu kynþáttahyggjunnar. Til þess þurfum við mikið kraftmeira og róttækara hugtak:
Frelsi! Jafnrétti! Bræðralag! Kærleikur!
Já, ég ætla enn eina ferðina að tala um kærleika. Ég skal reyna að endurtaka mig sem minnst.
Ég hef tekið eftir því að ég er alls ekki eina Gutmenschið sem er kominn með upp í kok á því að vera settur í þá stöðu að verja mörghundruð ára gamla eingyðistrú eins og íslam. Ég held að flestir sem eru á sömu blaðsíðu og ég í pólitík hljóti að vera sammála um að hið heimskulegasta sem við gætum gert eftir aldaraðir undir hefðarbákni (sem er enn með tákn sitt brennimerkt á þjóðfána okkar) væri að stökkva í fangið á öðrum slíkum sið. Enda stingur ekkert okkar upp á því. Ég hef aldrei á ævi minni varið íslam. Fyrir mér mega öll skipulögð trúarbrögð víkja fyrir dýpri skilningi á þeim eilífa friði sem hver einasta lífvera fær í vöggugjöf. Íslamstrú er enginn faktor í lífi annarra en þeirra sem játa hana. Að vera hræddur við íslam er eins og að fela sig undir sófanum þegar Keyser Söze er í sjónvarpinu.
Múslimar eru hins vegar fólk. Og fólk ber að verja. Tilhneiging okkar til að elska fólk er það sem gerir okkur að fólki.
Útvíkkun kærleikans
Sum okkar hafa lent í því að vinur okkar hefur fundið Guð. Eða Jesús. Eða Crossfit. Hann er voða upprifinn og segir að við verðum að prófa þetta. Að honum hafi aldrei liðið eins vel. Og þar sem hann er vinur manns þá samgleðst maður honum þrátt fyrir að finnast þetta óttalegt prump. „Fínt,“ hugsar maður, „á meðan hann er glaður þá er ég sáttur.“ Við viljum að fólkinu sem okkur þykir vænt um líði vel. Og þá gildir einu hvort það er skýjaguð, eyðimerkurprédikari eða helköttaður einkaþjálfari sem kemur þeirri vellíðan í kring eða eitthvað sem okkur þykir verðugara, hvað sem það annars er. Af því að skoðanir okkar eru alltaf í öðru sæti. Kærleikurinn í því fyrsta.
Fyrirlesari úr fornöld komst vel að orði um kærleikann: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.“ Stolt og metingur á aldrei samleið með kærleikanum af því að hann „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.” Þess vegna leyfir maður vini sínum að komast að því á eigin tíma hvort þetta er hentugur lífsstíll til lengdar eða bara tímabundið daður við glansandi frelsaragínu.
Skoðanir koma og fara en „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ Kærleikurinn er í raun ekki tilfinning eða ferli heldur rými þar sem allt slíkt getur átt sér stað. Ómissandi lífsskilyrði fyrir mannskepnuna. Hann er alltaf skilyrðislaus. Ekki er hægt að selja hann eða skiptast á sneiðum af honum. Bara gefa hann eins og maður eigi endalaust magn af honum, af því að hann er botnlaus auðlind. Sá sem þiggur hann finnst hann vera meðtekinn og sá sem auðsýnir hann sleppur við að þurfa að ganga um veröldina með herptan afturenda í leit að móðgunum og rifrildatilefnum. Kærleikurinn er innsti kjarni mennsku okkar. Dýpsta jáið.
Og nú þurfum við að dusta af honum rykið. Hætta að vera hrædd um að hljóma of hippaleg.
Hismi og hveiti
Um nokkurt skeið hefur okkur verið uppálagt að forðast þessi risastóru kosmísku hugtök sem bera með sér fnyk trúarbragða og ég er sammála því upp að vissu marki. Orð eins og guð, synd og frelsun eru orðin hér um bil ónothæf vegna aldalangrar misnotkunar. En ef við köstum kærleikanum á sorphauginn með þeim þá stöndum við vopnlaus frammi fyrir hættulegustu ógnum sem við stöndum frammi fyrir. Og staðgenglar eins og umburðarlyndi hafa hvergi nærri sama burðarþol. Maður getur elskað fólk eilíflega. Maður getur hins vegar ekki umborið fólk nema rétt á meðan þolinmæði manns endist.
Að skipta kærleika út fyrir umburðarlyndi er eins og að skipta útveggjum út fyrir þakplötur. Einar og sér eru þakplötur gagnslausar. Umburðarlyndi okkar þarf að byggja á kærleika. Við þurfum að láta kærleikann flæða óhindrað til allra á þessum hnetti okkar. Það þýðir ekki að við látum bjóða okkur hvað sem er. Kærleikurinn er ekki bara dýpsta jáið okkar heldur líka langsterkasta neiið. Hann knýr okkur bæði til að umvefja fólk og standa stöðug gegn ofbeldi og hatri. Hann síar hismið frá hveitinu; formið frá innihaldinu.
Höfuðklútur er fatnaður. Kannski skapa fötin manninn og það er toppur að vera í teinóttu en þeir sem býsnast yfir trúarlegum klæðnaði annarra eru að slást við eigin dillur. Sömu máli gildir um byggingu tilbeiðsluhúsa og menningarmiðstöðva múslima. Þeir sem láta slíkt fara í taugarnar á sér hafa sett hvunndagsblaður ofar kærleikanum og þurfa ekki annað en að vakna til meðvitundar.
Sameinumst, hjálpum þeim.
Og bjóðum þeim að ávarpa þingheim þegar þau eru komin til fullrar meðvitundar en ekki fyrr.