Fyrir 11 árum stærðum við Íslendingar okkur óspart af öflugum hlutabréfamarkaði. Mælikvarðinn var mikil hækkun hlutabréfaverðs, en frá ársbyrjun 2004 og þar til um mitt sumar 2007 hafði Úrvalsvísitalan hækkað um tæplega 330%. Ávöxtun annarra þjóða fölnaði í samanburði. Hækkanirnar byggðu á útsjónarsemi íslenskra útrásarvíkinga, sem fóru eins og eldur í sinu um gjörvalla Evrópu og keyptu eignir á uppsprengdu verði, með lántökur að vopni. Allir fögnuðu snilli þeirra. Framhaldið þekkja væntanlega flestir lesendur. Hér varð hrun.
Lærdómurinn sem margir drógu af hruninu var að hér ætti aldrei aftur að vera starfræktur hlutabréfamarkaður. Helst ekki bankar heldur. Í stað þess að fjármagna sig á hlutabréfamarkaði eða fá lán í banka ættu fyrirtæki að fá lán erlendis frá. Nei annars, erlend lán reyndust ekki vel. Frekar ættu þau að flytja starfsemi sína til útlanda. Stöndug rekstrarfyrirtæki geta haldið sínu striki og fjármagnað rekstur sinn með hárri verðlagningu. Fjárfestingar eru óþarfi. Nýsköpunarfyrirtæki líka. Ríkið sér svo um rest.
Við erum vonandi flest farin að átta okkur á því að þetta er framtíðarsýn sem gengur ekki upp til lengdar. Við eigum auðvitað að læra af reynslunni, ekki stjórnast af henni. Skilvirkir fjármálamarkaðir, sem einkennast ekki síst af virkum hlutabréfamarkaði, styðja við hagvöxt. Með öflugum hlutabréfamarkaði er fyrirtækjum gert kleift að sækja sér áhættufjármagn í krafti gagnsæis og jafnræðis meðal fjárfesta, til þess að fjármagna spennandi verkefni, nýsköpun og skapa þar með störf og vöxt í efnahagslífinu. Aðgangur að slíku fjármagni getur skipt smærri fyrirtæki sérstaklega miklu máli.
Íslenskur hlutabréfamarkaður er í reynd talsvert öflugri í dag en hann var fyrir hrun. Hann er öflugri í þeim skilningi að hækkanir á hlutabréfaverði yfir lengri tímabil hafa verið hóflegar og skoðanaskipti hafa verið virk. Sum félög hafa hækkað, önnur lækkað, en almennt hafa fjárfestar notið ágætrar ávöxtunar frá hruni. Hann er öflugri í þeim skilningi að eftirlit hefur verið eflt á öllum vígstöðum og aðhald fjölmiðla og almennings er meira. Gagnsæi og uppbyggilegt aðhald er einmitt lykilatriði í viðvarandi velgengni hlutabréfamarkaða.
Fyrirtækin á markaði eru ekki hlaðin jafn miklum skuldum, eignarhald þeirra er að mörgu leyti heilbrigðara og talsvert minna er um skuldsett hlutabréfakaup. Með skráningu að vopni hafa íslensk félög náð að lækka fjármögnunarkostnað sinn, fjármagna yfirtökur og sækja á erlend mið með góðum árangri á síðastliðnum árum.
Þá hefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn einnig reynst nokkuð öflugur viðskiptavettvangur. Þannig var miðgildi veltuhraða (ársvelta / heildarstærð félags) smærri félaga á Nasdaq Iceland á fyrri helmingi ársins 2018 um 116%, sem er talsvert hærra en á hinum kauphöllum Nasdaq Nordic, þar sem miðgildi veltuhraða var á bilinu 14 – 29%. Sömu sögu er að segja af millistórum félögum, en miðgildið hér á landi var 82% í samanburði við 18 – 35% á hinum mörkuðunum. Veltuhraði stóru félaganna tveggja, þ.e. Arion banka hf. og Marel hf., var aftur á móti um 27%, í samanburði við miðgildið 55 – 60% í hinum kauphöllunum. Sá munur skýrist að stærstu leyti af lágum veltuhraða Arion banka hf. á íslenska markaðnum, en tvískráning bankans á Íslandi og í Stokkhólmi skekkir að vissu leyti útreikninga á veltuhraða. Að því undanskildu virðist að jafnaði vera meiri velta með félög á íslenska hlutabréfamarkaðnum heldur en öðrum norrænum mörkuðum, sem þó þykja nokkuð virkir. Er þetta í ákveðinni þversögn við ítrekaða umfjöllun um ládeyðu á íslenska markaðnum.
Heilt á litið má því segja að nokkuð vel hafi tekist við enduruppbyggingu íslensks hlutabréfamarkaðar eftir hrun, þó hún hafi eðli málsins samkvæmt tekið nokkurn tíma. Þó margt sé enn óunnið stendur eftir traustari vettvangur sem er til þess fallinn að hjálpa skráðum félögum að ná markmiðum sínum og styðja við hagvöxt og atvinnusköpun.