Enginn efast um að umtalsverðir fjármunir komu sem leiðrétting á kjörum eldri borgara í ársbyrjun 2017. Ekki veitti af eftir þá miklu kjaraskerðingu sem eftirlaunafólk þurfti að taka á sig eftir hrun fjármálamarkaðsins í október 2008.
Afnám frítekjumarka
Hitt er gagnrýnisvert að við endurskoðun laga um almannatryggingar var lagt til að fella niður öll frítekjumörk og skerða lífeyri, laun og vaxtatekjur strax um 45% gagnvart eftirlaunum almannatrygginga.
Ég tel að sú aðgerð hafi verið mikil mistök. Ég er ekki einn um þá skoðun. Margir fyrrverandi forystumenn innan verkalýðshreyfingarinnar eru sama sinnis, auk forystusveitar
Landssambands eldri borgara, LEB, og fjölmennasta félagsins innan LEB, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Fjölmenn mótmæli og ályktanir félaga eldri borgara um land allt í þá veru segja sína sögu.
Óréttlæti gagnvart eldra fólki
Eldri borgurum finnst það óréttlátt að fyrir hverja eitt hundrað þúsund krónur sem það ávinnur sér í lífeyrissjóði lækki lífeyrir almannatrygginga um 45 þúsund krónur, auk þess sem sú skerðing grefur undan tiltrú almennings í garð lífeyrissjóðanna.
Eldra fólki finnst það líka óréttlátt að réttindi þess í samtryggingarsjóði skuli meðhöndlað með þessari miklu skerðingu á sama tíma og skylduiðgjald í séreign og þar með réttindi sem þeim fylgja taka engar skerðingar. Það veikir samtrygginguna í samanburði við séreignarhugsunina sem er afleitt, ósanngjarnt og vitlaust og væntanlega ólöglegt.
Eldra fólki finnst það líka óréttlátt að 45% skerðing skuli koma ofan á vaxtatekjur, auk 22% fjármagnstekjuskatts, sem gerir eldra fólki ókleift að eiga sparnað sem helst á við verðbólguna, heldur þurfi sá sparnaður að sæta neikvæðum raunvöxtum.
Eldra fólki finnst það líka ósanngjarnt að geta ekki unnið launaða vinnu á efri árum nema að verða fyrir miklum skerðingum í almannatryggingakerfinu. Það dregur úr vilja eldri borgara að vinna úti og hrekur það frá vinnumarkaðnum að ósekju.
Því skal haldið til haga að þrátt fyrir örlitla hækkun frítekjumarkanna eru þau enn skammarlega lág og skipta litlu máli.
Virðing og réttlæti
Þegar öllu er á botninn hvolft fjalla kjör eldri borgara hins vegar ekki bara um krónur og aura, heldur fyrst og fremst um virðingu og réttlæti og að það sé litið á eldra fólk sem hverja aðra nýta þjóðfélagsþegna.
Hinar miklu tekjutengingar í almannatryggingakerfinu eru hins vegar bæði auðmýkjandi, óréttlátar og óviðeigandi gagnvart eldri borgurum.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða og situr nú í kjaranefnd Landssambands eldri borgara.