Kæri tölvunarfræðinýnemi. Til hamingju með að hefja þennan áfanga í lífinu þínu. Þetta er vissulega stórt skref inn í framtíðina, líkt og ófáar eldri frænkur hafa sagt þér. Sú sem stýrir tölvum stýrir framtíðinni. Í tímunum með þér verða þónokkrir forritunarguðir (í minni reynslu eru þeir yfirleitt strákar) sem munu líta út fyrir að vera hálfir menn og hálfar tölvur. Í því sambandi vil ég leggja þér eitt ráð: Láttu ekki blekkja þig. Ekki halda að vegna þess að sígjammandi gaurinn fyrir aftan þig „hefur sko alveg kóðað servera“ þá eigir þú ekki erindi í þetta nám.
Dreifingin í tölvunarfræði er víð, til er fólk sem hefur forritað frá því þau voru börn en langflestir, þ.m.t. ég, höfðu varla komið í snertingu við neinn bakenda fyrir fyrsta fyrirlesturinn. Það eru um 250 manns með þér í tilteknum áfanga. Að öllu gefnu eru 20 strákar sem kunna að forrita afskaplega vel. Þeir eru háværir, spyrja leiðinlegra spurninga og passa að allir taki eftir sér. Ekki pæla neitt í þeim. Bókstaflega tugir annarra eru með þér í tíma sem vita minna en þú. Langflestir eru á pari við þig en þú tekur ekki eftir því, því fæstir þora að tjá sig í tíma eða spyrja spurninga af ótta. Öllum finnst þau vera verst í bekknum, að falla, vita ekkert, eiga að hætta. Eina sem þú átt að hætta er að hugsa þannig. Háskólanám er til þess að læra af, enginn myndi gera ráð fyrir að þú gætir framkvæmt hjartaþræðingu á fyrsta degi í læknisfræði. Mættu á fyrirlestra, veittu námsefninu athygli, skilaðu verkefnum og gerðu þitt besta. Þrjú ár líða hratt og áður en þú veist af verður þú Senior Software Engineer í risafyrirtæki eða jafnvel búin að stofna þitt eigið fyrirtæki og sigra heiminn. Ekki láta nokkra gaura koma í veg fyrir það.
Hugurinn ber þig aðeins hálfa leið, rassinn restina. Sestu, kóðaðu og taktu fram úr þessum sígjammandi gaurum.
Höfundur er 2. árs nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík.