Sölusíður á netinu selja gistingu hér á landi án þess aðskila virðisaukaskatti eða gistináttagjaldi. Airbnb er þar lang umsvifamest, en fjöldi annarra sölusíðna eru drjúgar. Sumar þeirra eru skráðar hér á landi og aðrar erlendis.
Hvernig stendur á því að þessir söluaðilar komist upp með að innheimta ekki rétta skatta og gjöld af þjónustu sem veitt er á Íslandi? Skattskyldan sem slík fer ekkert fer á milli mála. Sölusíðurnar eru seljendur þjónustunnar, ekki viðkomandi íbúðar- eða húseigandi. Samt komast þær að mestu hjá því að innheimta og skila 11% virðisaukaskatti af seldri gistingu, svo og gistináttagjald.
Hvers vegna sækja yfirvöld ekki þann rúma milljarð sem þessar sölusíður ættu með réttu að skila í stað þess að reyna endalaust að leggja nýja skatta eða gjöld á ferðaþjónustuna?
Íslenskt skattaskjól
Er skýringin hugsanlega sú að áhrifamiklir einstaklingar þvælist fyrir? Fólk sem hefur sjálft tekjur af þessari skattfrjálsu útleigu? Eigendur íbúðanna skipta jú þúsundum og þá er að finna um allt þjóðfélagið, innan sem utan stjórnkerfisins. Þeirra hagur er að virðisaukaskattur eða gistináttagjald bætist ekki við reikninginn sem ferðamaðurinn greiðir, því búðareigandinn ber þá minna úr býtum.
Síðan hvenær lætur ríkisvaldið milljarða króna tekjumöguleika fram hjá sér fara? Hverjir standa á bremsunni til að skapa sér prívat skattaskjól?
Það er ekkert mál að skikka Airbnb, Booking, Viator, Expedia, Travelocity, RentinReykjavik og aðra til að standa skil á fullum sköttum og gjöldum af seldri þjónustu. Þetta er ekkert snúnara en að láta okkur hin borga skatta.
Hefur ekkert með 2 mkr. mörkin að gera
Til að forðast misskilning er rétt að benda á að þó ekki þurfi að innheimta - og þar með að skila virðisaukaskatti og gistináttagjaldi af sölu gistingar undir 2 milljónum króna á ári, þá hefur það ekkert að gera með milljarða króna sölu Airbnb eða annarra sölufyrirtækja á netinu. Tveggja milljóna markið er sett til hagræðis fyrir skattyfirvöld annars vegar og umsvifalítils reksturs einstaklinga hins vegar. En að sjálfsögðu eiga fyrirtæki á borð við Airbnb að skila sköttum og gjöldum af allri sölu söluveltu, enda með töluvert hærri veltu en tvær milljónir á ári.
Höfundur er stjórnarformaður Gray Line.