Krónan okkar er dýr gjaldmiðill. Því verður ekki neitað. Vextirnir eru tvö til þrefalt hærri en hjá nágrannalöndum okkar og að auki er krónan bæði sveiflugjörn og fallvölt. Miðað við skuldir íslenskra heimila má áætla að fjögurra manna fjölskylda greiði um 100 þúsund krónur á mánuði í viðbótarvexti vegna krónunnar. Til að standa undir þeim kostnaði þarf þessi fjölskylda að þéna tæpar 200 þúsund krónum meira á mánuði. Það væri góð kjarabót fyrir þessar fjölskyldur ef við gætum skipt út krónunni.
En það er ekki mikill áhugi á slíkum breytingum á stjórnarheimilinu. Jafnvel þó róttækur sósíalisti sitji við borðsendann. Krónan okkar er þar því miður í miklu uppáhaldi. Þar þykir hún öllum öðrum myntum fremri, í það minnsta ef marka má yfirlýsingar stjórnarliða á tyllidögum. Hjá íhaldssamari þingmönnum þjóðarinnar má alls ekki draga kosti krónunnar í efa. Að efast um ágæti hennar virðist þar á bæ á pari við að efast um fegurð íslenskrar náttúru eða yfirburðar bragðgæði íslensks vatns og lambakjöts.
Sumir leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafa reyndar villst af leið og leyft sér að efast um ágæti krónunnar á stundum, en snarlega verið kippt inn á réttar brautir á ný af sér reyndari og skynsamari mönnum.
Eins og hamstur á hjóli
Það sem helst virðist vera talið krónunni okkar til tekna er mikill sveigjanleiki hennar þegar í óefni er komið. Á mannamáli heitir það geta hennar til að falla þegar við höfum klúðrað stjórn efnahagsmála. Þessi hæfileiki krónunnar er mikið aðdáunarefni hjá mörgum stjórnmálamönnum og skyldi engan undra. Fallhæfileiki krónunnar léttir nefnilega af okkur stjórnmálamönnum ábyrgðinni á því að þurfa að stýra ríkisfjármálum af ábyrgð. Það er auðvitað hundleiðinleg ábyrgð. Slíkri ábyrgð fylgir nefnilega að þurfa að halda aftur af sér í yfirlýsingagleði þegar vel árar. Að lofa ekki stórauknum ríkisútgjöldum á báða bóga þegar þörf er á efnahagslegu aðhaldi.
Einhverra hluta vegna teljum við lögmál hagfræðinnar ekki eiga við um okkur. Aðstæður hér séu svo sérstakar. Sjálfsagt yrði sá litinn hornauga sem teldi þyngdarlögmálið ekki eiga við hér á hjara veraldar. En þegar málsmetandi stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar blása á almenna skynsemi í efnahagsmálum sem allar þjóðir í kringum okkur hafa tamið sér af biturri reynslu, er líkt og ekkert sé sjálfsagðara.
Frá Þjóðarsátt höfum við hækkað laun hér á landi margfalt á við nágranna okkar á Norðurlöndunum og aukið útgjöld hins opinbera líkt og enginn sé morgundagurinn. Við erum samt ekkert ríkari en nágrannar okkar eða með betra velferðarkerfi enda hefur krónan helmingast að verðgildi á sama tímabili. Raunar höfum við endurtekið þessa vitleysu nær stöðugt allan fullveldistímann. Sú staða sem nú er uppi hefur endurtekið sig á u.þ.b. 10 ára fresti síðastliðin 100 ár.
Við höfum hins vegar uppskorið margfalt hærri vextir, hærri verðbólgu og mun óstöðugari gjaldmiðill. Þetta er ein helsta ástæða þess hversu dýrt er að búa hér. Við borgum fyrir allt ábyrgðarleysið. Við þurfum fyrir vikið að vinna lengur, fyrir krónuna. En að vinna fyrir krónuna minnir stundum á hamstur á hjóli. Það er alveg sama hversu hratt er hlaupið, við stöndum samt í stað.
Það er nefnilega svo gott að hafa falleiginleika krónunnar við slíkar aðstæður. Þegar í vanda er komið þá fellur krónan samviskusamlega og réttir af hagstjórnarmistök undangenginna ára. Slíkt fall er auðvitað eins og hverjar aðrar náttúruhamfarir. Engum er um að kenna en auðvitað nauðsynlegt að hefjast handa þá þegar við endurreisn hagkerfisins, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins – með auknum útgjöldum en ekki hvað? Krónurnar sem settar voru í það í gær eru talsvert verðminni í dag.
En hvað má fallgetan kosta?
Stuðningsmenn krónunnar tala hins vegar af minni ástríðu um kostnað hennar. Hvað kostar krónan? Eða kannski væri réttara að spyrja hvað má hún eiginlega kosta okkur?
Fyrst ber þar auðvitað að nefna vaxtarstigið sem fylgir krónunni. Vextir hér á landi eru að jafnaði 4-5% hærri en í helstu nágrannalöndum okkar. Heimilin skulda innlendu fjármálakerfi um 2 þúsund milljarða króna og 5% hærri vextir þýða því um 100 milljarða hærri vaxtagjöld heimilanna en ella. Það samsvarar tæpum þrjú hundruð þúsund krónur á mann á ári eða ef við viljum taka þessa talnaleikfimi lengra, um 100 þúsund krónur á mánuði fyrir 4 manna fjölskyldu. Þessi fjölskylda þarf því um 180 þúsund aukalega í laun á mánuði til að borga „krónureikninginn“ sinn, samanborið t.d. við danska eða sænska fjölskyldu.
Í öðru lagi mætti nefna vöruverð. Fyrirtækin í landinu skulda um 1.200 milljarða eða svo í krónum og viðbótar vaxtakostnaður þeirra á hverju ári því um 60 milljarðar króna. Sá reikningur endar auðvitað að stærstum hluta hjá okkur neytendum í formi hærra vöruverðs. Það er ekki ólíklegt að við borgum í það minnsta 3-5% hærra vöruverð bara vegna vaxtakostnaðar krónunnar. Ekki er óvarlegt að áætla þann kostnað talsvert hærri sökum mikilla sveiflna á gengi krónunnar sem aftur leiðir til hærri meðalálagningar verslunar en ella, vegna áhættunnar sem þessum sveiflum fylgir.
Ábyrgðarleysið er kostnaðarsamt
Stærsti kostnaðarliðurinn er hins vegar án efa það ábyrgðarleysi sem krónan veldur á endanum hjá okkur stjórnmálamönnum. Við getum eytt um efni fram vitandi að krónan kemur okkur á endanum til bjargar. Þetta reddast allt saman. Það sama má segja um forystu verkalýðshreyfingarinnar. Af hverju að vera að í takti við önnur Norðurlönd með aðeins 3-4% kauphækkun á ári, þegar hægt er að lofa svo miklu meira. Það er auðvelt að blása á skynsemishjal misvitra hagfræðinga eða samanburð við nágranna okkar á hinum Norðurlöndunum vitandi það að þetta reddast allt að lokum. Krónan fellur, eins og hún hefur gert hér á landi samviskusamlega á u.þ.b. 10 ára fresti allan fullveldistímann.
Og eftir fallið hefst leikurinn að nýju með kapphlaupi stjórnmálamanna og verkalýðsforkólfa um hver bjóði best. Og eftir situr almenningur með kostnaðinn af öllu saman.
Er ekki nóg komið? Á þjóðin ekki betra skilið?
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.