Fyrir Alþingi liggur að taka afstöðu til þriðja orkupakka ESB. Umræða um málið hefur varið vaxandi og ekki vonum fyrr, en Ísland er eina land EES sem á eftir að staðfesta málið. Fyrr en öll EES-löndin hafa gert það, tekur tilskipunin ekki gildi á því svæði. Eins og heitið ber í sér er hér um þriðju tilskipunina/orkupakkann að ræða, en Ísland hefur staðfest hinar tvær. Fyrsti orkupakkinn var til umfjöllunar 1996-2000 og annar 2003-2009. Í ljósi umræðunnar nú er ekki úr vegi að beina sjónum aðeins að sögunni, því nokkuð hefur borið á því að varúðarorð við þriðja pakkanum eigi frekar við um hina tvo.
Undirbúningur innleiðingar raforkutilskipunar ESB hófst í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem settist að völdum árið 1995 undir forsæti Davíðs Oddssonar, eins og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra skýrði frá í grein í Morgunblaðinu 2002. Hún lagði síðar m.a. fram frumvarp að nýjum raforkulögum, sem voru fyrst lögð fram til kynningar á þinginu 2000-2001. Þar var skýrt kveðið á um aðgreiningar á milli vinnslu og dreifingar og í kjölfarið þurft orkufyrirtækin að gera viðeigandi breytingar á starfsemi sinni, sbr. uppskipti HS í HS orku og HS veitur. Valgerður útskýrði nauðsyn þess í grein umræddri grein.
„Flutningastarfsemi og raforkudreifing er almennt talin náttúruleg einokunarstarfsemi og rekstur slíkrar starfsemi verður því háður opinberu eftirliti í verðlagningu á þjónustu. Nú er hins vegar almennt talið meðal flestra þjóða heims að vinnsla og sala raforku sé samkeppnisstarfsemi, sem lúti öðrum lögmálum en flutningur og dreifing.“
Vinstrihreyfingin – grænt framboð varaði alla tíð við innleiðingu tilskipananna. Kom þar ýmislegt til, sem einfaldast er að draga saman í tilvitnun í greinargerð með breytingartillögu Steingríms J. Sigfússonar um breytingu á raforkulögum árið 2003:
„Raforkutilskipunin á engan veginn við um íslenskar aðstæður þar sem hér er einangraður orkumarkaður, landfræðilegar aðstæður gerólíkar því sem gerist á meginlandi Evrópu auk þess sem margir fleiri þættir svo sem af félagslegum, sögulegum og umhverfislegum toga gera það að verkum að Íslendingar þurfa að hafa fullt sjálfstæði til að velja sínar eigin leiðir í þessum efnum. Markaðs- og einkavæðing raforkugeirans hefur gefist vægast sagt misjafnlega víða erlendis þar sem slíkt hefur verið reynt.“
Ýmsir urðu til að hallmæla þessum skoðunum Vinstri grænna, þær þóttu hallærislegar og gamaldags. Hafa verður þó í huga að á þessum árum var vinsælt að afskrifa málflutning Vinstri grænna sem fúll-á-móti nöldur í fólki sem lifði í draumaheimi, vildi vernda náttúru landsins gegn stórvirkjunum (eins og við Kárahnjúka) og byggja frekar upp í ferðaþjónustu. En það er nú önnur saga.
Varúðarorð Vinstri grænna við raforkutilskipuninni snerust sum sé að miklu leyti um markaðsvæðingu kerfisins – áhyggjurnar sneru að því að hún gæti takmarkað möguleika til að nýta orkuauðlindir landsins á samfélagslega mikilvægan máta – og yfirráðum yfir auðlindunum – sem væri nauðsynlegt í sama skyni.
Nú er við hæfi að beina sjónum að þriðja orkupakkanum, því um nákvæmlega þetta snýst gagnrýni margra á hann, ekki síst yfirráð yfir auðlindunum. En hvað felst í pakkanum?
Í grunninn snýr hann að flutning og sölu raforku á milli landa og þar er m.a. kveðið á um sérstaka stofnun, ACER, sem hafi valdheimildir til að úrskurða í deilum varðandi orkusölu á milli landa. Augljóslega snertir það Íslandi lítið, þar sem orkumarkaðurinn er einangraður, en komi til lagningar sæstrengs gegnir allt öðru máli. Þar sem valdaframsali eru settar skorður í stjórnarskránni, hefur verið fundin sú lausn að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, muni úrskurða í mögulegum málum er tengjast Íslandi. Þá felur innleiðing hans í sér ýmsar takmarkanir á undanþágum fyrir lítil og einangruð svæði og breytingar á starfsemi Orkustofnunar, þar sem stofna þarf sjálfstætt raforkueftirlit með víðtækari skyldur og eftirlitsheimildir.
Raforkutilskipanir ESB hafa gjörbreytt raforkumarkaði hérlendis. Sumt hefur verið til góðs, annað miður. Kostnaður við ólíka þætti kerfisins er t.d. skýrari eftir uppskiptingu og markaðsvæðingin hefur skilað hærra verði til Landsvirkjunar og því meiri arðgreiðslum í ríkissjóð, þó henni fylgi einnig ýmsir gallar.
Sjálfur hef ég þá einföldu sýn á orkubúskap Íslendinga að hann eigi fyrst og fremst að nýta til að byggja upp grænt samfélag. Standi eitthvað í regluverkinu gegn því, til dæmis markaðsvæðingin með sinni kröfu um hærra verð, þá þurfi að leita leiða til að breyta reglunum. Eftir stendur hins vegar spurningin um hvers vegna Ísland, með sitt lokaða orkukerfi á eyju í Atlantshafi, er aðili að innri orkumarkaði Evrópuríkja sem tengjast þvert á landamæri, enda er það beinlínis stefna ESB að ákveðin hluti orkubúskapar hvers ríkis sé innflutt orka.
Þar hygg ég að hundurinn liggi grafinn þegar að andstöðu við þriðja orkupakkann kemur; ansi mörgum finnst sem Ísland sigli hraðbyri í enn frekara samstarf sem á endanum feli í sér að það missi yfirráð yfir orkuauðlindum. Að einhverju leyti eru það tilfinningarök, en þau ber ekki að vanmeta og gera lítið úr.
Það hefur verið lærdómsríkt að sjá ýmsa þá sem stóðu að innleiðingum fyrri raforkutilskipana ESB vara við þeirri þriðju með rökum sem í raun áttu við þær tvær fyrri. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, sem gerðu Ísland að hluta af innri orkumarkaði ESB, hafa nú til dæmis mótmælt þriðja orkupakkanum. Það er gott að umræðan um yfirráð yfir auðlindunum er kviknuð á þeim bæjum.
Verra er hins vegar að svo virðist sem æ fleiri séu tilbúnir að benda á þriðja orkupakkann sem mögulega ástæðu þess að Ísland segi sig úr EES-samstarfinu. Það er stórhættuleg þróun sem ber að vara við. Það er reyndar dálítið í tísku að agnúast út í EES-samninginn þessi dægrin, en að mínu viti þarf að gera skýran greinarmun á ávinningum samningsins annars vegar og framkvæmd hans hins vegar, en þar má ýmislegt laga.
Þriðji orkupakkinn er tannkremstúpan sem hefur verið kreist einu sinn of oft vitlaust, klósettsetan sem einu sinni of oft er ekki sett niður eftir notkun, fylleríið sem varð einu of mikið. Enginn þessara einstöku viðburða orsakaði skilnaðinn eða sambandsslitin, heldur var einfaldlega kornið sem fyllti óánægjumælinn. Það þýðir hins vegar ekki að gera lítið úr því, nær er að ræða orkubúskap Íslands í þaula og hvernig best er um hann búið. Þar eiga sjónarmið umhverfis, náttúru og loftslagsmála fyrst og fremst að ráða för.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.