Stjórnendur eru reglulega frasafylltir með orðalagi um fjórðu iðnbyltinguna, sjálfvirknivæðingu, vélnám, gagnagnótt, breyttar væntingar, breytta hegðun, þúsaldarkynslóð og þverfagleg teymi. Auk þess erum við síðustu risaeðlurnar og þurfum að finna tilganginn áður en við deyjum út.
Við þurfum að eiga við breyttar væntingar og væntar breytingar. Það sem við gerðum í gær er ekki nóg í dag. Það eru spennandi tímar framundan og framtíðin er núna.
Litið framhjá þessum frösum þá þurfa stjórnendur eins og áður að breyta eigin hegðun og hegðun starfsfólks, breyta menningu og breyta fyrirtækjum, í heimi sem er stöðugt að breytast.
Jákvætt er að stjórnendur geta metið hæfi fyrirtæksins til umbreytingar og ýtt umbreytingu úr vör án nokkurra ytri spekinga.
Hér koma tíu ráð sem geta hraðað umbreytingu fyrirtækja og innihalda lágmarksfjölda frasa. Þetta er svokölluð ráðgjöf, alveg ókeypis.
1) Tölum við viðskiptavinina
Æðstu stjórnendur eiga að verja degi eða dögum í beinum samskiptum við viðskiptavini á hverju ári. Taktu þér dag í framlínunni, hlustaðu á fókusgrúbbur, afgreiddu í versluninni eða svaraðu í þjónustuverinu. Ameríski netsalinn Zappos, sem er þekktur fyrir góðan skilning á þörfum sinna viðskiptavina gerir þá kröfu til allra starfsmanna að verja árlega tveimur dögum í þjónustuverinu. Án þess telja þau sig ekki geta fundið púls sinna viðskiptavina.
2) Leikum hlutverkaleiki
Setjið ykkur í spor annarra. Leikið til dæmis forstjóra aðal samkeppnisaðilans, hvaða aðgerðum það fyrirtæki ætlar að beita til að vinna samkeppnina við ykkur. Leikið hlutverk fyrirtækis í viðskiptum sem er ósátt. Við hvað er það ósátt?
Hugsið um ykkur öðruvísi en venjulega til að fá fram nýja vinkla. Ef fyrirtækið ykkar væri drykkur, dýr eða bíll hvað væri það? Hvað væri samkeppnin og af hverju?
3) Lærum af lærisveinum
Hraðið breytingahugsun stjórnenda með því að útnefna óreynda lærimeistara (e. reverse mentoring). Finnið sprækasta unga fólkið í fyrirtækinu og fáið það til að gefa stjórnendateyminu dæmisögur úr daglega lífinu; hvaða tækni unga fólkið notar, hvaða öpp skipta það máli, hvernig það verslar, hvar það verslar, hvernig það hagar sínu lífi og hvernig fyrirtækið ykkar kemur þeim fyrir sjónir.
4) Hristum heilann
Haldið heilahristing, eða hugsanaþon, þar sem starfsfólk hannar lausnir í nokkurra tíma spretti á stórt veggspjald, Powerpoint kynningu eða einblöðung. Ekkert er forritað eða framleitt, einfaldlega hugsað og afhent sem hugmynd. Hraðall að hugarfarsbreytingum og nýjungum.
5) Sjáum fyrir okkur hið fullkomna fyrirtæki
Fáið stjórnendur og starfsfólk til að teikna upp hversu langt frá því að vera fullkomið fyrirtækið ykkar er og svarið hverju þyrfti að breyta fyrst til að komast nær fullkomnun. Veltið fyrir ykkur hvort þið eruð að færast nær eða fjær hinu fullkomna.
6) Horfum til baka úr framtíðinni
Skrifið sögu fyrirtækisins eins og þið séuð stödd í framtíðinni. Horfið til baka sem forstjóri fyrirtækisins að tíu árum liðnum. Hvað gerðuð þið á næstu tíu árum til að komast þangað sem þið komust að tíu árum liðnum. Látið alla framkvæmdastjórnina gera þetta hvert í sínu lagi. Ef svörin eru mismunandi er ljóst að stefnan er ekki skýr.
7) Nýtum fjöldann en ekki bara forstjórann
Stundum er sagt að fyrirtæki séu HIPPO stýrð og stendur hippo þá fyrir “Highest-Paid Person’s Opinions”. HIPPO stýrir oft með tilfinningum og reynslu en ekki gögnum og greiningu. Með breytingu á því má bæta fyrirtæki og hraða umbreytingu. Fyrirtæki geta nýtt þekkingu fjöldans betur. Viðskiptavinir geta tekið þátt í stefnumótun, svarað spurningum eða þróað lausnir. Það má opna tæknilausnir fyrirtækja og gefa viðskiptavinum færi á að þróa lausnir ofan á innviði fyrirtækja. Stjórnendur þurfa ekki endilega að svara stóru spurningunum sjálfir heldur gefa fjöldanum færi á að svara þeim.
Meira má lesa um HIPPO í bók John McAfee og Erik Brynjolfsson “Machine, Platform, Crowd: Harnessing our Digital Future”.
8) Vinnum öfgakenndar sviðsmyndir
Neyðið ykkur til að vinna öfgakenndar sviðsmyndir eins og:
Hvernig bregðist þið við ef Amazon eða Google ráðast á markaðinn ykkar?
Hvað gerið þið ef samkeppnin margfaldar fjárfestingu í stafrænni umbreytingu?
Hvernig má bregðast við ef krónan veikist/styrkist um 50%?
Hvað gerið þið ef 10 mikilvægustu vörurnar ykkar úreldast?
Verslanir eða olíufélög sem gerðu svona æfingu fyrir komu Costco stóðu betur en önnur. Farsímafélög sem áttu aðgerðaáætlun vegna afnáms reikigjalda voru sterkari en hin. Bankar sem bjuggust við innreið lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaðinn stóðu líka betur en hinir. Urmull dæma er um ytri áhrif sem breyta landslagi og fyrirtæki gátu búið sig undir og þeim er ekki lokið.
9) Finnum okkar stafræna DNA
Fyrirtæki þarf ekki stafræna stefnu heldur stefnu sem er stafræn. Þið þurfið ekki stafræna deild og stafræna sérfræðinga heldur stafrænan kjarna, nýtt stafrænt DNA fyrirtækisins en ekki stafrænar eyjur. Í mörgum fyrirtækjum eru stafrænar eyjur sem stjórnendur líta stundum á sem vísbendingu um að stafræn umbreyting sé tekin (nógu) alvarlega. Þessar eyjur þarf að sprengja. Það má ekkert vera til sem heitir stafræn stefna, stafræn sala eða stafræn þróun; bara stefna, sala og þróun. Ef til er stafrænt þetta eða hitt verða til stafrænar eyjur sem hægja á umbreytingu og koma í veg fyrir umbreytingu. Stefna, sala og þróun sem fer í eina átt trompar alltaf stafræna stefnu, stafræna sölu og stafræna þróun sem fer í aðra átt.
Breytið mönnun, skipulagi, vörum og þjónustu þannig að stafræn umbreyting nái að DNA fyrirtækisins en ekki bara í smíði á vef, appi eða sölutölum eða breyta einfaldlega “umbúðunum”. Þó þið séuð með app þá er björninn ekki unninn. Þið þurfið að svara hvernig stoðþjónusta umbreytist, áhættustýring, lögfræðiþjónusta, innheimta eða fjárstýring þarf að breytast frá a til ö.
10) Teiknið allt upp á nýtt
Byrjið með autt blað og svörum hvernig, án nokkurra fortíðarkvaða, hvernig fyrirtækið okkar liti út ef við værum að stofna fyrirtækið í dag, hvernig skiptum við fjármagni, starfsfólki og öðrum kröftum. Spyrjum okkur svo af hverju þetta fyrirtæki er ekki til. Spyrjum okkur svo hvernig við breytum okkar fyrirtæki í þessa átt. Spyrjum okkur svo hvernig þessi mynd getur haft áhrif á okar reglubundnu ferli, áætlunargerð, ráðningarplön, fjárfestingaráætlanir og þróunarverkefni.