Fjármálaáætlun mætti gagnrýni þar sem sumir vildu meiri útgjöld. Öðrum þóttu útgjöldin of mikil. Sömu raddir heyrast í dag um fjárlög ársins 2019, en við sem að málinu stöndum teljum að þrátt fyrir að útgjöld séu aukin verulega séum við ekki að eyða um efni fram.
En hluti þessarar mikla útgjaldaaukningar er til að auka jöfnuð í samfélaginu. En það er ekki aðeins mikilvægt fyrir þá sem eru verst settir, heldur varðar það okkur öll. Í jafnari samfélögum lifir fólk lengur, börnum gengur betur í skóla og fólki líður almennt betur.
Í öðrum fjárlögum ríkisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á aukinn stuðning við börn og barnafjölskyldur og hækkun greiðslna til foreldra í fæðingarorlofi . Þá gerum við breytingar á tekjuskattskerfinu í átt til meira réttlætis.
Við styðjum við barnafólk
Við forgangsröðum í þágu barna og tekjulágra fjölskyldna enda á ekkert barn að þurfa að búa við skort. Um það erum við öll sammála, að slíkt eigi ekki að líðast í okkar ríka landi. Ég hef líka þá trú að við séum öll sammála um það að fólk sem vinnur fulla vinnu, þótt það sé á lágum launum, á aldrei að þurfa ala börn sín upp í fátækt. Ríkisstjórnin vill leggja sitt af mörkum til að tryggja það og stígur hér fyrsta skrefið í breytingu á samspili tekjuskatts- og bótakerfa. Lögð er til aukning á barnabótum, þar sem fjárhæða og viðmiðunarmörk eru hækkuð, sem á að skila sér til tekjulægri hópa, viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta eru hækkaðar og persónuafslátturinn er hækkaður umfram vísitölu enda kemur það tekjulágum betur heldur en flöt lækkun skatta. Við viljum forgangsraða til þeirra sem þurfa.
Réttlátara samfélag
Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði viljum að allir spili eftir sömu reglum. Verkalýðshreyfingin hefur bent á það óréttlæti að þegar laun á hátekjufólk hækkaði umfram verðlag þá breyttist skattbyrði þess ekki, en þegar laun á lágar tekjur hækkuðu umfram verðlag þá hækkaði skattbyrði þess. Með því að tengja efra skattþrep við neysluvísitölu gengur hið sama yfir alla.
Allt eru þetta aðgerðir til þess að skapa hér réttlátara og betra samfélag. Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði sögðum fyrir kosningar að við vildum stuðla að mannsæmandi kjörum og friði á vinnumarkaði. Við hófum þá vegferð strax með fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og bætum um betur í þessum fjárlögum og við munum halda áfram og gera enn betur.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.