Hvar og hvenær gerist það – og í hvers konar neyð – að sveitarfélag stofnar starfshóp, hópurinn fundar strax sama dag, samþykkir útgjöld framhjá fjárhagsáætlun upp á 100 milljónir og bæjarstjóri greiðir summuna samdægurs, án þess að fyrir liggi hvað er í raun verið að fjármagna?
Svar: Í Hafnarfirði, þegar meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vill bjarga bráðum húsnæðisvanda, nánar tiltekið mögulegri 12-18 mánaða seinkun á byggingu yfirbyggðs knattspyrnuvallar. Málshraðinn er lygilegur, eins og hér sést:
8. ágúst: gert rammasamkomulag um breytta fjármögnun byggingar á knatthúsi í Kaplakrika, bærinn fjármagni byggingu FH með því að kaupa þrjú eldri hús af félaginu. Engin gögn lögð fram.
16. águst: fundur í bæjarráði, lagður fram viðauki með fjárhagsáætlun og skipað í starfshóp á grunni rammasamkomulagsins, Kaplakrikahóp. Endurskoðandi bæjarins gerður að formanni hópsins.
16. ágúst: fyrsti fundur í Kaplakrikahópi. Samkvæmt upplýsingum frá sviðstjóra stjórnsýslu samþykkti hópurinn að greiða 100 milljónir til FH. Engin fundargerð birt.
16. ágúst: síðar sama dag greiðir bæjarstjóri 100 milljónir króna til FH.
Þess má geta að þann 16. ágúst lágu ekki fyrir samþykktar teikningar né byggingarleyfi fyrir byggingu knatthúss í Kaplakrika.
19. ágúst: FH tekur fyrstu skóflustungu.
22. ágúst: bæjarstjórn fjallar um viðauka, sem er samþykktur af meirihluta bæjarstjórnar. Fram kemur í umræðum að bæjarstjóri hafi þegar greitt út 100 milljónir, áður en viðaukinn lá fyrir.
Ég leyfi mér að efast um að viðlíka málshraði sé þekktur í stjórnsýslu sveitarfélaga. Allt gerist meira og minna á einum degi! Þessi hraði hefur nú hins vegar verið veginn upp með eindæma hægagangi í svörum stjórnsýslunnar til bæjarfulltrúa minnihlutans um ferlið. Þar liggur greinilega ekkert á.
Erfið gagnaöflun og óútskýrðar stórar upphæðir
Eins og segir hér að ofan felur rammasamkomulag við FH aðallega í sér að boðleið fjármögnunar bæjarins á byggingu knatthúss breytist (og upphæðin hækkar reyndar líka um nokkra tugi milljóna).
Frá því þessi ákvörðun meirihlutans lá fyrir hef ég, ásamt öðrum í minnihluta bæjarstjórnar, unnið að því að afla upplýsinga um áhrif hennar á bæjarsjóð, sem og lögmæti bæði ákvarðanatökunnar og gjörningsins sjálfs. Í mínum huga stenst nefnilega hvorugt skoðun sem ábyrg meðferð á skattfé, sem er frumskylda kjörinna fulltrúa. Rétt er að taka fram að enginn hefur lagt til seinkun eða aflýsingu á byggingu knatthússins.
Ástæða þessarar gagnaöflunar er reyndar líka sú að ákvörðun meirihlutans fylgdu eingin gögn. Ekki arða af upplýsingum nema nýritað rammasamkomulag samið í sumar og jú, kostnaðaráætlun frá FH um byggingu nýja hússins, upp á tæpar 790 milljónir. Allar aðrar staðreyndir í málinu hafa verið dregnar fram af minnihlutanum, með talsverðum eftirgangsmunum. Í dag er um það bil hálfleikur í þeirri vinnu og mörgu enn ósvarað.
Má Hafnarfjörður kaupa 92 milljón króna húseign af sjálfum sér á hálfan milljarð?
Ég leyfi mér að fullyrða að kaupverð húsanna þriggja sem um ræðir (íþróttahússins Kaplakrika, Risa og Dvergs) getur aldrei orðið 790 milljónir. Í fyrsta lagi á Hafnarfjörður það fyrstnefnda nú þegar að 80% hluta, sem skráður er á 92 milljónir í bókum bæjarins. Að vísu hafði bæjarstjórnin sem sat árið 1989 ákveðið að gefa FH þennan hluta frá og með árinu 2005 að telja. Sá gjafagjörningur hefur hins vegar ekki verið fullnustaður enn og reyndar leikur verulegur vafi á því að slík ráðstöfun með almannafé eigi rétt á sér, þ.e. að gefa húseign án kvaða. Það vekur því furðu mína að bæjarstjóri og meirihluti bæjarstjórnar skuli nú ætla að fylgja nærri 30 ára samþykkt eftir án frekari lagalegrar rýni. Því sú er nefnilega ætlunin; að byrja á því að gefa eignarhlutann fyrir 92 milljónir sem þar með gjaldfærast í bókum bæjarins og kaupa hann svo aftur, á mun hærra verði, jafnvel hálfan milljarð.
Kaupverð hinna húsanna tveggja er einnig mjög á reiki, sem og ástæðan fyrir því hvers vegna bærinn ætti yfir höfuð að vilja eignast þau. Byggingarverð þeirra var framreiknað árið 2017 af endurskoðanda bæjarins í samvinnu við FH og var þá alls áætlað um 390 milljónir.
Meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstjóri eiga því enn eftir því að svara hvernig þau reikna það út að húsin þrjú (sem bærinn á þegar að stóru leyti) geti kostað sléttar 790 milljónir. Eina sýnilega nálgunin við þá tölu eftir það sem fram hefur komið í gagnaleitinni er kostnaðaráætlun FH fyrir nýja húsið, upp á 789.688.500 krónur.
Fram hefur komið að ástands- eða verðmöt liggja ekki fyrir, fyrir utan stakt verðmat á íþróttahúsinu.
Er þetta ábyrg ráðstöfun skattfjár Hafnfirðinga?
Að greiða út tilviljanakennt verð fyrir hús án verð- og ástandsmats, upp á hátt í milljarð? Er möguleg árstöf á yfirbyggingu fótboltavallar nægur tilgangur til að helga slíkt meðal?
Rétt er líka að halda því til haga að á húsunum öllum hvíla umtalsverðar skuldir. Bærinn hefur veðsett sinn 80% hlut fyrir 870 milljónir, frá árinu 2009 (4 árum eftir að til stóð að gefa FH umræddan eignarhlut). Á hinum tveimur húsunum hvíla alls rúmlega 330 milljónir, af hálfu FH.
Fyrir liggur í rammasamkomulaginu að FH skuli aflétta sínum skuldum áður en til eignarskipta kemur. Út úr svörum við fyrirspurnum um það hvert þær skuldir verði fluttar og hvernig standa skuli skil á þeim til framtíðar má lesa að þær muni færast yfir á nýja húsið og fjármagnast með leigugreiðslum frá bænum. Með öðrum orðum, þó svo skuldunum verði létt af húsunum fyrir afsal, mun greiðsla þeirra engu að síður fjármagnast úr bæjarsjóði.
Ofgreidd leiga
Á síðasta kjörtímabili var ráðist í endurskoðun allra rekstrar- og þjónustusamninga við íþróttafélögin í bænum. Lengstan tíma tók samningagerðin við FH og henni lauk reyndar ekki að fullu, þar sem ekki náðist niðurstaða um einn samninganna, þ.e. leigusamning um knatthúsið Risann frá árinu 2007, sem gerður var til að standa straum af rekstri hússins. Lengi hefur verið vitað að sá samningur ofáætlar greiðslur til félagsins umtalsvert. Í minnisblaði um samninginn segir: ,,Mismunur á tekjum frá Hafnarfjarðarkaupstað og áætluðum rekstrarkostnaði árin 2007-2015 er (því) 138,8 millj.kr. á verðlagi hvers árs sem væntanlega hefur farið í að greiða vexti og afborganir af lánum sem tekin hafa verið vegna Risans og nú Dvergs.“ Óvíst er hvort þessi ályktun um niðurgreiðslur lána stenst, í ljósi þess að í nóvember 2016 hvíldu tæpar 212 milljónir á umræddum húsum, en sú upphæð er í dag rúmar 330 milljónir. Allar upplýsingar vantar um árin 2016 og 2017.
Í minnisblaði þar sem endurskoðandi bæjarins tók saman ráðstöfun á umræddum leigugreiðslum, kemur fram að hluti þeirra hefur farið í að greiða félagskjörnum formanni FH laun og jafnframt að áætlaður rekstrarkostnaður hafi verið greiddur til knattspyrnudeildar, en að ekki liggi fyrir eiginlegir kostnaðarreikningar.
Fjárhagsleg samskipti bæjaryfirvalda og íþróttafélaga verða að vera skýr og allt þar uppi á borðum. Bæði hjálpar það kjörnum fulltrúum, sem og bæjarbúum, að fylgjast með ráðstöfun skattfjár og auk þess tryggir það jafnræði milli ólíkra félaga innan íþrótta- og tómstundahreyfingarinnar.
Þess vegna voru samningar skýrðir og endurgerðir á undanförnum árum, ef frá er talinn þessi eini, sem ekki náðist samstaða um. Og þess vegna er mikilvægt að meirihluti bæjarstjórnar upplýsi um yfirstandandi fjármálagjörninga sína vegna uppbyggingar í Kaplakrika, sem seint verður kallað auðsótt mál.
Er eðlilegt að greiða fullt verð (sem reyndar er óþekkt) fyrir hús sem bærinn hefur ofgreitt leigu á í 11 ár?
Þetta er ein þeirra spurninga sem ég hef ásamt öðrum lagt fram í bæjarstjórn. Er það ábyrg meðferð á skattfé Hafnfirðinga að horfa ekki til hátt á annað hundrað milljóna króna sem þegar hafa verið greiddar gegnum verulega ofáætlaðan rekstrarkostnað í 11 ár?
Hinn endanlegi verðmiði alls óþekktur
Að lokum er rétt að halda því til haga að meirihlutinn hefur sagst vera að spara bænum 300 milljónir króna með því að fela FH bygginu nýs húss frekar en að bærinn annist framkvæmdina. Sú fullyrðing er að mínu mati algerlega innantóm, þegar horft er til þess hvert verðmat og eignarstaða húsanna þriggja sem kaupa á er í raun og veru. Það er ekki 300 milljón króna sparnaður að gefa eign fyrir 92 milljónir og kaupa hana svo aftur á 400 milljónir. Strax þar eru 300 milljónirnar foknar, en við það má bæta að til stendur að gera rekstrarsamning um hið nýja hús, sem er ávísun á útgjöld til framtíðar.
Þar fyrir utan liggur fyrir að forysta FH lítur svo á að 790 milljón krónurnar séu bara fyrsta greiðsla, samkvæmt viðtali við formann knattspyrnudeildar á dögunum. Bæjarstjóri hefur andmælt þessu skriflega. Aðilar eru því greinilega ekki á eitt sáttir um þýðingu rammasamkomulagsins í heild.
Loks er líka rétt að geta þess að allar upplýsingar um tölur og aðrar staðreyndir sem settar eru fram hér að ofan er að finna í svörum við fyrirspurnum flokka í minnihluta bæjastjórnar, sem birt voru með fundargerð síðasta bæjarstjórnarfundar, þann 5. september síðastliðinn og nálgast má á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.
Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfjarðarbæ.