Stytting vinnuvikunnar hefur mikið verið til umfjöllunar undanfarin misseri og hafa t.d. Reykjavíkurborg og Hjallastefnan á leikskólastigi sett slíkar tilraunir af stað með starfsfólki sínu. Þær hafa leitt í ljós að full ástæða er til að halda áfram á þeirri braut og festa í sessi slíkt fyrirkomulag. Garðabæjarlistinn leggur til að bæjarstjórn Garðabæjar stefni að því að stytta vinnuviku starfsmanna bæjarins.
Með styttingu vinnuvikunnar til að mynda á leikskólum Hjallastefnunnar er raunin sú að almennt minnkar fjarvera starfsfólks og stöðugleiki eykst, sem eru gríðarlega mikilvægir þættir í lífi barna á leikskólaaldri. Stytting vinnuvikunnar er ekki síður mikilvægur þáttur fyrir aukin lífsgæði starfsfólksins. Kraftmikil umræða um bætt kjör kvennastétta hefur hreyft við aðilum vinnumarkaðarins og leitt af sér frekari umræðu um kjör þessara stétta almennt. Rétt er að halda því til haga að fjölmennustu kvennastéttirnar eru einmitt þær stéttir sem tryggja undirstöður hvers samfélags.
Starfsfólk á leikskólum er stór og dýrmætur hluti af mannauði hvers sveitarfélags. Á leikskólum er mikið áreiti og álag. Starfsfólk er eðli málsins samkvæmt bundið við það mikilvæga verkefni að sinna börnum, sem veitir lítið svigrúm til þess að taka stutt hlé frá störfum, líkt og þeir sem t.d. vinna hefðbundin skrifstofustörf hafa tækifæri til.
Við viljum öll búa sem allra best að börnum á leikskólaaldri. Í því felst að starfsumhverfið sé aðlaðandi og eftirsóknarvert. Reynsla af styttingu vinnuvikunnar sýnir að starfsánægja eykst, en um leið skapast stöðugleiki í viðveru og sá stöðugleiki skapar festu og öryggi fyrir börnin og dregur úr kostnaði við afleysingar, svo dæmi séu tekin.
Garðabæjarlistinn leggur ríka áherslu á bættan aðbúnað kvennastétta, samhliða áherslum á leiðréttingu á kjörum þeirra stétta. Stytting vinnuvikunnar ýtir undir meiri starfsánægju, sem eykur lífsgæði og bætir andlega líðan.
Mannauður til framtíðar
Garðabæjarlistinn leggur til að stefnt verði að því að stytta vinnuviku starfsmanna Garðabæjar og mun leggja fram tillögu í þá veru. Þá leggur Garðabæjarlistinn jafnframt til, að við slíka styttingu vinnuvikunnar verði fyrst horft til starfsfólks á leikskólum bæjarins og hvetur til samstarfs við stjórnendur um hvernig best sé að skipuleggja slíkar breytingar.
Með tillögunni vill Garðabæjarlistinn axla ábyrgð og sýna að honum er full alvara að hefja til réttmætrar virðingar þau störf, sem eru okkur ekki aðeins svo mikilvæg í dag heldur er ljóst að munu aldrei hverfa úr samfélagi okkar, hvað sem líður svokallaðri fjórðu iðnbyltingu. Við viljum styðja starfsfólk leikskóla til enn betri starfa, með betri aðbúnaði. Það er alltaf hægt að gera betur og þá er engin ástæða til annars en að bretta upp ermar og sýna kvennastéttum - og öllum mannauði Garðabæjar, að við stöndum með þeim.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.