Fram undan eru kjarasamningar sem þurfa að jafna leikinn milli þeirra sem búa við það að ná ekki endum saman um hver mánaðamót og hinna sem eru með laun yfir meðallagi. Helmingur launamanna er með laun undir hálfri miljón fyrir skatt og stórir hópar hafa laun sem eru undir viðurkenndum framfærsluviðmiðum þrátt fyrir langan starfsaldur og lengri vinnutíma en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Hér munar miklu á milli Íslands og hinna Norðurlandanna sem bjóða uppá mannsæmandi laun fyrir dagvinnutíma og venjulegt fólk sem t.d. vinnur á pítsustað getur lifað af laununum sínum. Það er frábært að kaupmáttur hefur aukist á liðnum árum og það kemur sér vel fyrir tekjuhærri hópa samfélagsins en fyrir hina skiptir það litlu máli enda sýna tölur að framfærslukostnaður hefur hækkað meira en sem nemur kaupmáttaraukningunni þegar húsnæðiskostnaður er tekinn með í dæmið. Og húsnæði er grunnþörf en ekki valkvæður lúxus.
Útvarpsgjald og skyr!
Það er nefnilega allt svo dýrt á Íslandi og af einhverjum ástæðum alveg sjálfsagt að hækka verð og þjónustu eftir fyrir fram ákveðnum viðmiðum án þess að nokkurt tillit sé tekið til mögulegrar hagræðingar. Gott dæmi um þetta er hækkun Mjólkursamsölunnar á vörum sínum nýlega sem virðist fengin með því að setja út fingur og giska á hvað þol almennings er fyrir hækkun. Ekki njóta landsmenn þess að neinu leyti að umsvif fyrirtækisins hafa margfaldast á liðnum árum með stórauknum ferðamannastraumi til landsins með tilheyrandi framleiðsluaukningu og meiri sölu. Og ríkisstjórnin tilkynnir í fjárlagafrumvarpi næsta árs hækkanir á gjöldum eins og það sé lögmál og til dæmis hækkar útvarpsgjaldið um 2.5% eins og það sé alveg sjálfsagt að halda áfram að taka nefskatt af hverjum einasta skattgreiðanda til þess að halda RÚV gangandi. Hefði ekki mátt skoða að draga saman seglin aðeins hjá RÚV okkar allra þegar fyrir liggur að efnisveitur eru að taka yfir stóran hluta af þeim tíma sem landsmenn verja til áhorfs og hlustunar? Það má vera að tekjuhærri helmingur landsmanna sé ekkert að spá í hvort útvarpsgjald eða skyr hækki en tekjulægri helmingur þjóðarinnar þarf að fylgjast vel með verðlagi og hugsa um hverja krónu sem kemur í launaumslagið.
Hækka þarf persónuafslátt verulega
Í sama fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir því að persónuafslátturinn hækki um 4% sem verður að teljast ansi hógvært miðað við umræðu margra hópa um mikilvægi þess að lágmarkslaun og bætur öryrkja og eldri borgara njóti skattaafsláttar þannig að ekki sé verið að skattleggja fátækt. Í nýlegri könnun meðal félagsmanna VR um helstu áherslur í komandi kjaraviðræðum kemur skýrt fram að félagsmenn vilja að hækkun lægstu launa fái forgang, persónuafsláttur hækki verulega og að dagvinnutími styttist.
Verkalýðshreyfingin er sest við stýrið
Það er viðtekin venja þegar styttist í kjarasamninga hjá venjulegu launafólki að dregin er upp dökk mynd af horfum í efnahagsmálum og varað við því að svigrúm sé lítið til launahækkana og verðstöðugleiki sé það sem skiptir mestu máli. Venjulegt launafólk á sem sagt að axla ábyrgð á verðstöðugleika umfram aðra hópa sem hafa fengið verulegar kjarabætur á síðustu misserum! Það er holur hljómur í þessum málflutningi. Stóra áskorunin í komandi kjarasamningum verður að tryggja kjarabætur í samræmi við verðmætasköpun, viðunandi framfærslu fyrir lægstu tekjuhópanna og að húsnæðismarkaður bjóði upp á valkosti fyrir alla hópa samfélagsins. Sterk verkalýðshreyfing nær árangri og nú er ný forysta að setjast við stýrið sem mun ekki una því að sitja í farþegasætinu í næstu kjaraviðræðum og þiggja það sem atvinnurekendur og ríkisstjórnin telja „eðlilegt“ til skiptanna fyrir venjulega launþega til þess að allt fari nú ekki á hliðina hér í okkar fallega landi.
Höfundur er bæjafulltrúi og varaformaður VR.