Eitt markmiða stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er vinnsla heilbrigðisstefnu. Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Vinna við gerð heilbrigðisstefnunnar stendur yfir í velferðarráðuneytinu og framundan er samráðsferli vegna stefnumótunarvinnunar þar sem fulltrúar haghafa, almennings og fleiri aðilar verða boðaðir til að taka þátt í þessari mikilvægu vinnu.
Við gerð stefnunnar verður meðal annars horft til stefnumörkunar í heilbrigðisþjónustu hjá nágrannalöndum okkar, ráðlegginga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar (WHO) og skýrslum Ríkisendurskoðunar um íslenska heilbrigðiskerfið. Lögð verður áhersla á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu fólks og á skynsamlega nýtingu almannafjár.
Lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnunnar eru til að mynda stjórnun og samhæfing við veitingu heilbrigðisþjónustu, hvernig við stuðlum að því að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi, hvernig við tryggjum að sjúklingar og aðstandendur séu virkir notendur heilbrigðisþjónustu og geti tekið ákvarðanir um meðferð byggða á réttum uppýsingum, gæðakröfur til heilbrigðisþjónustu, hvernig standa eigi að menntun heilbrigðisstarfsfólks og tryggja nægan mannafla í heilbrigðiskerfinu, vísindastarf og nýsköpun og fleira.
Breið pólitísk samstaða um innihald stefnunnar er lykilatriði. Í stefnunni verður þar af leiðandi
umfjöllun um skipulag og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins til lengri framtíðar. Áhersla verður lögð á heilbrigðiskerfið og innviði þess, en ekki heilsu og vellíðan í víðum skilningi, enda hefur lýðheilsustefna nú þegar verið samþykkt á Alþingi.
Í næstu viku verða stofnanir ráðuneytisins kallaðar til samvinnu um efni og áherslur nýrrar heilbrigðisstefnu. Drög að stefnunni verða svo kynnt og rædd frekar á heilbrigðisþingi í byrjun nóvember. Í framhaldi af þeirri vinnu verða drögin gerð aðgengileg til umsagnar í samráðsgátt og að lokum mótuð tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu sem áformað er að leggja fyrir Alþingi á vorþingi.
Kallað hefur verið eftir skýrri stefnumótun í heilbrigðiskerfinu í alllangan tíma. Ég er stolt af því að fá tækifæri til að hrinda vinnu við gerð heilbrigðisstefnu í framkvæmd, og er þess fullviss að gerð og samþykkt heilbrigðisstefnu mun leiða til betri heilbrigðisþjónustu fyrir samfélagið allt.
Höfundur er ráðherra heilbrigðismála.