Sjálfstæðisflokknum tókst frá upphafi að verða stærsti flokkur landsins; fá og viðhalda um 40% fylgi kjósenda í þingkosningum og meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Leitað er skýringa á hinu mikla fylgi í hugmyndafræði flokksins og afstöðu til ríkisvaldsins. Lengi vel var talsverð óeining innan Sjálfstæðisflokksins en með tilkomu Kalda stríðsins tókst að sameina flokkinn um endurnýjaða stefnu á gömlum grunni.
Sjálfstæðisstefnan + stéttasamvinna = „Lífræn heildarhyggja“
Í samkomulagi Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins, sem lagði grundvöllinn að stofnun Sjálfstæðisflokksins 1929, var lögð áhersla á tvennt. Aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins skyldu vera:
- Að vinna að því að undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.
- Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsi, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Þannig var hugmyndafræði sjálfstæðisbaráttu Íslendinga kjölfesta Sjálfstæðisflokksins. Slíta ætti tengslin við Danmörku og stofna lýðveldi eins skjótt og unnt væri. Kjörorð flokksins „Stétt með stétt“ vísaði til þess að allir Íslendingar ættu sömu hagsmuna að gæta. Áhersla var á einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi en innan ramma hagsmuna allra stétta. Einn aðalhugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins, Birgir Kjaran (1916-1976), kallaði stefnu flokksins „lífræna heildarhyggju“ og rakti aftur til kenninga þýska heimspekingsins Hegels:
Þótt sjálfstæðisstefnan byggi á einstaklingum, er hún heildarhyggja allrar þjóðarinnar, sem lítur á þjóðina sem lífræna heild, er því aðeins vaxi og dafni, að einstaklingunum öllum vegni vel en visni ekki og veslist upp, ef einstaklingarnir fái ekki starfsfrið og svigrúm.
Mjög auðvelt er að staðsetja hugmyndafræði Sjálfstæðisflokks innan flóru alþjóðlegra hugmynda um tengsl einstaklinga og ríkisvald. Þetta eru hugmyndir Íhaldsstefnunnar (Conservatism), hugmyndir „járnkanslarans“ Bismarcks í Þýskalandi, forsætisráðherrans Disraeli í Bretlandi, Kristilegra demókrata í Þýskalandi og Íhaldsflokksins í Bretlandi (áður en Margret Thachter varð formaður flokksins).
Fúsleiki til að beita „viti bornu miðstjórnarvaldi“
Sjálfstæðisflokkurinn var því klárlega ekki stjórnmálaflokkur óheftrar frjálshyggju sem lítur á umsvif ríkisins og frelsi einstaklingsins sem andstæður og ríkisvaldið einatt talið af hinu illa. Hlutverk hins opinbera ætti samkvæmt slíkri frjálshyggju að vera sem allra minnst og helst einungis að halda uppi lög og reglu í samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn áleit þvert á móti að ef flokkurinn réði ríkisvaldinu yrði því beitt til góðs, til eflingar sjálfstæðis Íslendinga og þjóðarhags. Stéttabarátta ylli sundrung í samfélaginu og þjóðarsamstaða kæmi ekki sjálfkrafa. Stjórnmálaflokkar ættu ekki að næra stéttaríg með því að þjóna einungis einni þjóðfélagsstétt heldur vinna að samstöðu þjóðarinnar allrar. Ríkisvaldinu skyldi beita í þágu almannahagsmuna, vera samnefnari þjóðarinnar.
Þannig hefur hugmyndum Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins 1934-1961 verið lýst:
En jafnframt því sem Ólafur Thors taldi útþenslu ríkisvaldsins, báknsins eða kerfisins, mikil böl, var hann óhræddur að nýta alla kosti öflugs og viti borins miðstjórnarvalds, ef svo mætti segja, án þess að ríkisvaldið mylji allt undir sig og drepi athafnaþrá fólksins í dróma með bönnum, höftum og skattpíningu. En það hefur ekki verið talið einfalt mál á Íslandi að minnka ríkisumsvifin frá því að velferðarstefnan varð pólitískt leiðarljós fyrir og um miðja þessa öld. … Hann var að vísu frjálshyggjumaður og trúði á samkeppni einstaklinga innan lýðræðislegs þjóðfélags samstarfs og samhjálpar. Ríkisvaldið var ekki af hinu illa, ef forystan var góð. En ríkið ætti ekki að kúga þegnana, heldur þjóna þeim.
Rétt eins aðrir fylgjendur íhaldsstefnunnar taldi Ólafur Thors æskilegt – reyndar nauðsynlegt – að beita lögum og ríkisvaldi til að auka velferð allra í þjóðfélaginu - rétt eins og Bismarck byggði upp almennt tryggingakerfi í Þýskalandi eða Disraeli barðist fyrir almennum kosningarétti verkalýðskarla í Bretlandi. Samkvæmt Sjálfstæðisstefnunni átti t.d. að beita skattkerfinu til að auka jöfnuð og velferð fólksins eða með orðum Jóhanns Hafsteins (1915-1980), eins af helstu hugmyndasmiðum flokksins:
En auðvitað er það eitt verkefni sjálfstæðisstefnunnar, að það skapist ekki kljúfandi djúp í þjóðlífinu milli öreiga annars vegar og auðkýfinga hins vegar. Eitt aðalmeðalið til þess, að svo verði ekki, á skattalöggjöfin að vera, sem tekur af einstaklingum eftir mismunandi efnahag í sameiginlega sjóð, ríkissjóðinn, og af þessum sameiginlega sjóði, er svo eftir atvikum úthlutað á einn veg eða annan til þess að skapa grundvöll undir bættum kjörum almennings í heild.
Á Íslandi ríkti almennt öflugt fyrirgreiðslukerfi þar sem stjórnmálamenn, „höfðingjarnir“, náðu undir sig ríkisvaldinu og beittu því eftir eigin geðþótta í þágu „skjólstæðinga“ sinna. Stjórnmálaflokkarnir höfðu allt forræði í þjóðfélaginu. Greiðasemi stjórnmálamanna við hina útvöldu kallaði á endurgjald þiggjenda í formi stuðnings og atkvæðis á kjördegi. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var að mestu skipaður fyrirmönnum sem fóru með mikið þjóðfélagslegt vald ekki síst útgerðarmenn, sýslumenn og bankastjórar ríkisbankanna. Skilin á milli flokkskerfis Sjálfstæðisflokksins og ríkisvaldsins voru gjarnan mjög óljós. Í Reykjavík rak flokkurinn síðan umfangsmesta fyrirgreiðslukerfi landsins. Þar voru skilin á milli stjórnkerfis borgarinnar og flokkskerfisins nákvæmlega engin.
Með hugmyndafræði „lífrænnar heildarhyggju“ að leiðarljósi ásamt fúsleika til að beita ríkisvaldinu varð Sjálfstæðisflokkurinn frá upphafi stærsti flokkur landsins; hafði umtalsverðan stuðning í öllum stéttum og eini flokkurinn landsins með mikið fylgi bæði í þéttbýli og sveitum. Í Reykjavík var öruggur flokksmeirihluti í borgarstjórn. Flokksstarfið var mjög öflugt og kosningastarfið hið skilvirkasta á landinu, vel fjármagnað og skipulagt. Tengsl flokksins við samtök og hagsmuni atvinnurekenda voru vissulega sterk sem og mikil áhersla á málefni landbúnaðar. Í flokknum störfuðu sérstök félög verkamanna og sjómanna. Samhjálparáhersla kristinnar trúar átti vissulega sinn sess. Sjálfstæðisflokkurinn naut einnig meiri stuðnings kvenna en karla. Konur sátu yfirleitt á þingi fyrir flokkinn en ein eða engar fyrir aðra stjórnmálaflokka.
(Fram til ársins 1978 sátu samtals sex konur á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en einungis þrjár fyrir aðra flokka. Fyrir Sjálfstæðisflokk: Ingibjörg H. Bjarnason (þm. 1922-1930; kjörinn á þing fyrir Kvennalista); Guðrún Lárusdóttir (þm. 1930-1938); Auður Auðuns (þm. 1959-1974); Kristín L. Sigurðardóttir (þm. 1949-1953); Ragnhildur Helgadóttir (þm. 1956-1963, 1971-1979 og 1983-1991); Sigurlaug Bjarnadóttir (þm. 1974-1978). Fyrir Alþýðuflokk (stofnaður 1916): Engin fyrir Framsóknarflokk (stofnaður 1916): Rannveig Þorsteinsdóttir (þm. 1949-1953). Fyrir Sósíalistaflokk (stofnaður 1938): Katrín Thoroddsen (þm. 1946-1949). Fyrir Alþýðubandalag (stofnað 1956): Svava Jakobsdóttir (þm. 1971-1978).)
Kalda stríðið sameinar áður ósamstíga flokk
Sjálfstæðisflokkur var vissulega stærsti flokkur landsins en harðvítugar innanflokksdeilur veiktu flokkinn. Þar tókust á hagsmunir verslunarmanna annars vegar og útgerðarmanna hins vegar. Útgerðin vildi eins og ævinlega gengislækkun til að auka verðmæti útflutnings síns í íslenskum krónum og auðvelda þannig greiðslu innlends kostnaðar. Verslunararmur flokksins var andvígur gengislækkun sem hækkaði verð innflutnings og minnkaði kaupgetu almennings. Helst vildi verslunarhópurinn gengishækkun eins og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, Jón Þorláksson, stóð fyrir sem fjármálaráðherra árið 1925 og uppskar fyrir óbeit útgerðarmanna sem kenndu honum um rekstrarerfiðleika, jafnvel gjaldþrot, fyrirtækja sinna. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók í fyrsta sinn þátt í ríkisstjórn árið 1939 funduðu þingmenn flokksins sitt í hvoru lagi og tilnefndu hvorn sinn ráðherra: Útgerðararmurinn Ólaf Thors en verslunarmenn Jakob Möller. Í tíð Nýsköpunarstjórnar (1944-1947) var Ólafur Thors forsætisráðherra en hópur þingmanna flokksins í harðri stjórnarandstöðu.
Við lýðveldisstofnun 17. júní 1944 þverklofnaði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í kosningu um fyrsta forseta lýðveldisins. Sveinn Björnsson var kosinn en einungis 30 atkvæði af 50 þingmönnum sem greiddu atkvæði. Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins – þar á meðal varaformaðurinn Pétur Magnússon – kusu Svein Björnsson en formaðurinn Ólafur Thors og átta aðrir þingmenn annað hvort skiluðu auðu eða kusu annan. Andstæðingar Sveins vildu alvald Alþingis og valdalausan forseta Íslands. Forsetinn ætti t.d. ekki að beita 26. grein stjórnarskrárinnar, synja lögum staðfestingar sem síðan færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin ákvarðaði framtíðargildi laganna. Stuðningsmenn Sveins studdu aftur á móti valddreifingu, þar á meðal þjóðkjörinn forseta með sjálfstætt þjóðhöfðingjavald og gæti m.a. gripið til þess að synja lögggjöf ef þar hefði gjá myndaðist á milli þingvilja og þjóðarvilja Djúpstæður ágreiningur var nefnilega innan flokksins og á Alþingi almennt um stjórnarskrá lýðveldisins.
(Hin „mikla eining“ um lýðveldisstjórnarskránna er nefnilega síðari tíma tilbúningur; notaður til að krefjast samstöðu allra flokka um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Semsagt: Sjálfstæðisflokkurinn á að neitunarvald í öllum stjórnarskrármálum.)
Styrkleikar Sjálfstæðisflokksins voru því vissulega til staðar en engu að síður var flokkurinn í umtalsverðum vanda. Hagsmunatogstreita ógnaði samheldni flokksins og forystumenn aðhylltust andstæðar kenningar um stöðu og vald forseta Íslands.
Átökin á milli vestrænna lýðræðisríkja og kommúnistaríkja, Kalda stríðið, sameinaði Sjálfstæðisflokkinn. Allt í einu höfðu flokksmenn fengið sameiginlegt og göfugt hlutverk: Að Ísland tæki þátt í vörninni fyrir vestræna siðmenningu gegn ógn Sovétríkjanna. Ísland ætti að skipa sér í sveit varnarbandalags Vesturland, Atlandshafsbandalagið og styddi veru herliðs Bandaríkjanna á Íslandi. Að mati Sjálfstæðisflokksins var baráttan gegn árásarhneigðum Sovétríkjum í reynd framhald af aldalangri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Hið nýstofnaða íslenska lýðveldi þurfti vernd gegn ógn kommúnismans. Sjálfstæðisbaráttan héldi áfram.
Með þessum hætti gaf Sjálfstæðisflokkurinn hefðbundinni hugmyndafræði sinni nýtt inntak; skapaði samfellu í málflutningi sínum fyrir og eftir Kalda stríði. Jafnframt hélt flokkurinn áfram að vera langstærsti flokkur landsins; venjulega með nærri 40% fylgi í þingkosningum.
Það átti eftir að breytast eins og útskýrt verður í næstu grein minni í Kjarnanum: Sjálfstæðisflokkurinn verður sértrúarsöfnuður – 40% flokkur minnkar í 20%
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og félagi í ReykjavikurAkademíu.
Heimildir:
Birgir Kjaran: „Um sjálfstæðisstefnuna”. Stefnir 2.-3. hefti 1958.
Jóhann Hafstein. 1941. „Sjálfstæðisstefnan“. Stjórnmál – Ræður og ritgerðir.
Matthías Johannessen. 1981. Ólafur Thors – Ævi og störf II.
Svanur Kristjánsson. 1979. Sjálfstæðisflokkurinn – Klassíska tímabilið 1929-1944.
Svanur Kristjánsson. 1986. „Valdið og borgin – Valdakerfi Sjálfstæðisflokkurinn og Reykjavíkurborg“. Þjóðlíf 1. tbl. 2. árg.