Loksins er skýrslan hans Hannesar Hólmsteins komin og hann veldur engum vonbrigðum. Allt var útlendingum að kenna, ekkert Íslendingum, nema ef vera skyldi þeim sem ekki vildu í einu og öllu fara að ráðum seðlabankastjórans. Þetta endurómar þann afneitunarsöng sem hljómað hefur úr Valhöll í heilan áratug og kemur því engum á óvart. Hannes fær sína greiðslu sem við skattgreiðendur látum mildilegast af hendi, enda löngu orðin vön því að halda bæði Hannesi og verkkaupanum uppi af allnokkru örlæti.
Meginniðurstaða Hannesar er sú að bresk stjórnvöld, einkum þeir örmu kratar Brown og Darling, skuldi íslensku þjóðinni afsökunarbeiðni fyrir ósæmandi viðbrögð við eðlilegum vinnubrögðum hennar í Hruninu.
Ferðasaga úr Hruninu
Allir eiga sér eflaust sína sögu af því hvernig og hvar þeir upplifðu Hrunið. Sjálfur kom ég til Brussel sunnudagskvöldið áður en Íslandsbanki sigldi í þrot og dvaldi þar fram á fimmtudag þegar síðasti bankinn var hruninn. Ég var þar sem ritstjóri Bændablaðsins í boðsferð á vegum samtaka sveitarfélaga á Vestur- og Norðurlandi. Með mér voru um 30 sveitarstjórnarmenn úr sömu fjórðungum ásamt forystumönnum Sambands sveitarfélaga. Tilgangurinn að sækja ráðstefnu héraðanefndar Evrópusambandsins, enda margir samferðamanna minna í miklu sambandi við héruð Evrópu, fjárfesta og framámenn í þeim.
Ég held nú samt að megnið af því sem sagt var og gert á þessum fundum hafi farið fyrir ofan garð eða neðan hjá hópnum. Þeir voru sífellt að hlaupa út af fundum til þess að fylgjast með fréttum og hringja heim, hlusta á ræðu Geirs Haarde og annað sem barst frá landinu bláa. Margir þeirra höfðu líka lagt milljónir og sumir hundruð milljóna króna sem þeim var trúað fyrir inn í þá sjóði sem voru að gufa upp í rústum bankakerfisins. Svo fórum við öll í boð til sendiherrans, Stefáns Hauks, sem líkti Hruninu við náttúruhamfarir á borð við gosið í Vestmannaeyjum sem honum var í barnsminni og upprifjunin kveikti á tárakirtlunum hjá honum. Þetta voru erfiðar tímar og atvinnuþref hjá flestum.
Af hverju stafaði harkan?
Eins og aðrir lá ég á netinu og í fjölmiðlum til þess að fá einhverja mynd af því sem var að gerast uppi á skerinu. Það var ekki auðvelt því þetta virtist hafa komið flatt upp á alla, bæði á Íslandi og í Evrópu. Sannarlega brá mönnum þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum á íslenska banka, enda sjaldgæft í samskiptum ríkja sem eru bæði í Nató og að stórum hluta einnig í Evrópusambandinu. Um þetta las ég meðal annars í ensku blöðunum Guardian og Observer og eftir á að hyggja hefur sá lestur fætt af sér ákveðna samsæriskenningu hjá mér.
Þessi ágætu blöð útskýrðu hin skjótu og hörðu viðbrögð Breta með því sem gerðist að morgni mánudagsins 6. október. Við upphaf viðskipta um morguninn er lýst yfir gjaldþroti Íslandsbanka (eða Glitnis eins og hann hét víst) og samtímis er lokað fyrir öll viðskipti á netinu. Það þýddi að allir þeir sem bjuggu utan Íslands (eða eiginlega utan Reykjavíkur) voru útilokaðir frá því að hreyfa við eignum sínum í bankanum. En svo spyrst það út að það hafi ekki verið lokað fyrir bankaviðskipti í Reykjavík, þar gátu menn mætt á staðinn og nálgast eignir sínar (sem og í öðrum bönkum). Þetta ástand varði fram undir hádegi, þá fyrst mætti skiptastjóri og lokaði bankanum.
Þetta fréttu menn náttúrlega strax í Bretlandi og að sögn blaðanna var þetta meginástæðan fyrir hörkunni í Brown og Darling.
Sýslumaður birtist
Um þetta hefur ekki mikið verið fjallað í íslensku pressunni, enda hefur enginn sem nokkru réði á þessum tíma viljað tala um þetta. Það er ekki fyrr en í kosningabaráttunni í fyrrahaust sem Stundin fer að birta greinar sem unnar voru upp úr skjölum sem lekið var út úr bankanum um atburði síðustu daga Glitnis. Hverju sem um er að kenna mætti sýslumaður, gamall Eimreiðarfélagi, á ritstjórnarskrifstofur Stundarinnar í miðri kosningabaráttu og lagði lögbann á frekari umfjöllun blaðsins. Var það tilviljun að það skuli hafa gerst einmitt þegar frásögn Stundarinnar var þar komin að upp var að renna mánudagurinn 6. október 2008? Um það hef ég efast æ meira, ekki síst vegna þess hve lengi þessi ófyrirleitna ritskoðun hefur varað.
Enginn vill kannast við að hafa krafist þessarar ósvífnu aðfarar að tjáningarfrelsinu, annar en lögmaður þrotabúsins sem skjölin láku úr og hann var bara í vinnunni. En hin einfalda regla qui bono – hverjum gagnaðist bannið – segir allt sem segja þarf um það hverjir hafi átt hugmyndina. Hún beinlínis hlýtur að vera ættuð úr Valhöll, annað er óhugsandi.
Alvarleg mismunun
Í því ljósi verður myndin af þeim Valhallarfélögum, Hannesi og Bjarna, sem fjölmiðlar birtu eftir afhendingu skýrslunnar einkar athyglisverð. Og ekki síður sá alvöruþungi sem birtist í skýrslunni þar sem Hannes sakar bresk stjórnvöld um þetta hér: „Með því (að láta vera að bjarga tveim bönkum í Bretlandi sem Íslendingar áttu, einum banka þar í landi – innskot mitt) mismunuðu stjórnvöld á grundvelli þjóðernis, sem gengur gegn reglum um innri markað Evrópu. Samt var það mál ekki tekið upp af Framkvæmdastjórn ESB.“ (3. liður í „Helstu niðurstöðum úr skýrslu dr. Hannesar…“ sem heimasíða ráðuneytis Bjarna birtir á íslensku.)
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu sem áreiðanlega verður á umfjöllun Stundarinnar um skjalalekann þegar Hæstiréttur verður búinn að aflétta ritskoðuninni.