Evrópusambandið leggur nú aukna áherslu á alþjóðlegt samstarf til að sporna við loftslagsbreytingum á þessu lykilári í framkvæmd Parísarsamkomulagsins. Þetta er óhjákvæmilegt í ljósi þess mikla verks sem er fyrir höndum í loftslagsmálum, nú og í framtíðinni. Neikvæð áhrif loftslagsbreytinga gera þegar vart við sig víða um heim og ógna jörðinni og jarðarbúum. Enn fremur gætu þau grafið undan þeim árangri sem náðst hefur í þróunarmálum undanfarna áratugi og dregið úr möguleikum á að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030.
Í Parísarsamkomulaginu um loftslagsbreytingar, tímamótasamningnum sem nær 200 þjóðir samþykktu árið 2015, er sett fram aðgerðaáætlun um að forða heiminum frá hættulegum loftslagsbreytingum. Samkomulagið markar stefnu um hvernig jarðarbúar geta byggt upp lágkolefnishagkerfi og -þjóðfélög sem einkennast af lítilli koltvísýringslosun.
Við erum að falla á tíma
Við vitum nú þegar að markmiðin um að draga úr losun sem lögð voru fram í París nægja ekki til að ná því sameiginlega takmarki okkar að halda hlýnun jarðar innan við 2°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu, hvað þá 1,5°C. Væntanleg skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar mun því miður sýna fram á að möguleikinn á að halda okkur innan þessara marka fer síminnkandi. Því verðum við öll að gera betur og hraða framkvæmd Parísarsamkomulagsins.
Sendinefnd ESB á Íslandi ýtir undir þessa brýnu umræðu með því að halda ráðstefnu 2. október í samstarfi við Háskóla Íslands. Sérstakur gestur okkar verður Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, sem mun útlista hvernig Íslendingar efna skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu og greina frá metnaðarfullri áætlun Íslendinga um að gera landið kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. Ég hyggst gera hið sama fyrir hönd ESB.
Aukið gagnsæi er nauðsynlegt
Mikilvægt verkefni fyrir alþjóðasamfélagið í ár er að innleiða vinnuáætlunina fyrir Parísarsamkomulagið, en þar eru settar fram nákvæmar reglur um gagnsæi og stjórnunarhætti til þess að hrinda samkomulaginu í framkvæmd. Það er nauðsynlegt að samþykkja þessa „reglubók“ á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP24) í Katowice í Póllandi. Skýrar og ítarlegar reglur um gagnsæi gera okkur kleift að fylgjast með og sýna fram á það starf sem fram fer um heim allan og gefa öllum aðilum, jafnt þróuðum löndum sem þróunarlöndum, sameiginlegan ramma til að ná markmiðum okkar.
Evrópusambandið er komið vel á veg við að innleiða lagaramma til að ná því markmiði sínu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um minnst 40% fyrir 2030 miðað við losunina árið 1990 (Íslendingar deila þessu markmiði með ESB). Á meðal nýmæla má nefna endurskoðun á viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir eftir árið 2020, markmið um að draga úr losun í atvinnugreinum sem falla ekki undir viðskiptakerfið og ákvæði um landnotkun í loftslagslöggjöf. Þessi grundvallarlög voru innleidd nýlega og frekari tillögur um hreina orku og samgöngur eru í farvatninu.
Horft til framtíðar
Um leið horfum við lengra en til ársins 2030. Í mars 2018, í kjölfar samskonar beiðni frá Evrópuþinginu, báðu ráðamenn ESB framkvæmdastjórnina um að leggja fram, innan 12 mánaða, tillögu um langtímaáætlun um losunarskerðingu á gróðurhúsalofttegundum innan ESB. Framkvæmdastjórnin leggur fram tillögu sína í undanfara loftslagsráðstefnunar í því markmiði að skapa umræðugrundvöll innan sambandsins alls.
Um leið leggur Evrópusambandið aukna áherslu á alþjóðasamvinnu og stuðning við aðila utan ESB, til dæmis með stefnumótandi skoðanaskiptum, verkefnum til að auka afköst og fjármögnun í loftslagsmálum. Til þess að alþjóðlegar aðgerðir hafi tilætluð áhrif þurfa allar þjóðir að bregðast markvisst við, einkum stærstu hagkerfin, sem í sameiningu bera ábyrgð á um 80% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Ísland er vel í stakk búið frá náttúrunnar hendi, þökk sé miklu framboði af „grænni“ orku, og stjórnvöld hafa tekið markviss skref til að draga úr losun í greinum þar sem enn eru miklar áskoranir til staðar, svo sem í samgöngum.
Sterkari saman
Þótt Parísarsamkomulagið marki stefnuna er ferðalagið rétt að hefjast. Nú þurfa allar þjóðir að skapa umhverfi sem gerir þessari þróun kleift að halda áfram með því að styðja við varanlegar skipulagsbreytingar á orkukerfum heimsins og auka fjárfestingar sem stuðla að þessu markmiði. Íslendingar geta kennt heiminum sitthvað hvað þetta varðar.
Loftslagsbreytingaþolinn vöxtur sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun er mögulegur fyrir allar þjóðir, burtséð frá efnahag, og hefur marga og áþreifanlega kosti í för með sér fyrir íbúa, hagkerfið og umhverfið. Evrópusambandið er staðráðið í að starfa með öllum samstarfsaðilum sínum á þessari vegferð okkar.
Höfundur er sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi.