Hagsmunir hvaða sjúklinga? spyr Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir, nýlega í grein sem birtist í Fréttablaðinu. Eftir lestur greinarinnar var ég á því að Birgir væri meðal annars að tala um mig; miðaldra konu sem misst hafði heilsuna fyrir um þremur árum. Hann var að tala um mína hagsmuni. Konunnar í Norðurmýri sem var vön að vinna mikið og lifa jú bara ágætis lífi. Svo kom að því – líkt og kemur fyrir á fleiri bæjum en mínum – að heilsan brast. Arfgengur sjúkdómur, sem hafði í áraraðir náðst að halda í þokkalegum skefjum, ákvað að hans tími væri kominn. Og fallið frá því að vera í fullri vinnu, á ágætis launum, var nokkuð hátt og um leið töluvert erfitt. Við tóku endalausar læknisheimsóknir, sjúkraþjálfun sem og endurhæfing af ýmsu tagi. Sjúkdómurinn tók stjórnina og ég staulaðist misjafnlega brött á eftir honum. Suma daga fannst sjúkdómnum eðlilegt að ég gæti ekki stigið í fæturna nú eða ég gæti ekki haldið á kaffibolla (og trúið mér, ég elska kaffi). Í upphafi þessa tíma kynntist ég á eigin skinni hversu brothætt heilbrigðiskerfið okkar var orðið vegna ástæðna sem ekki verða tíundaðar hér. Á tímabili tókst mér t.d. ekki að fá fastan heimilislækni. Það gerði að verkum að ég sjálf reyndist þurfa að vera nokkurs konar „framkvæmdastjóri eigin veikinda”. Mér gekk það oft og tíðum ágætlega en ég er ekki heilbrigðismenntuð og því var mér létt þegar ég gat látið af því starfi. Ég fékk frábæran heimilislækni, sem er inni í öllum mínum málum, og um leið áttaði ég mig á hversu mikilvægt það er að heilsugæslustöðvar landsins verði styrktar. Sterkari heilsugæsla auðveldar líf þeirra, sem mikið þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, svo um munar.
Ég hef smátt og smátt orðið vör við aukin mátt heilbrigðiskerfisins. Það hefur verið sett í forgang því að stjórnmálafólk, með Svandísi Svavarsdóttur ráðherra heilbrigðismála í broddi fylkingar, er tilbúið til að hlúa að því, styðja og styrkja. Heilbrigðisstarfsfólk er mitt uppáhalds fólk. Það tekur á móti mér með brosi á vör, jafnvel þótt ég skynji vel það álag sem á því liggur. Ég hef legið inni á spítala á þessu ári og hlaut frábærar móttökur. Einhverjir kunna að vera mér ósammála en þetta er mín saga. Minn sérgreinalæknir hefur sinnt mér af mikilli alúð í mörg ár en eftir sjúkrahússlegu mína er ég nú í eftirliti hjá honum, og samstarfsfólki hans, á göngudeild gigtlækninga á Landspítalanum. Í sannleika sagt þá er það frábært. Ég hef t.d. þurft að fá svo kallaða teymisþjónustu þegar upp kom óþol fyrir virku efni í lyfi sem er mér nauðsynlegt. Þá settust saman lyfjafræðingur, deildarlæknir og sérgreinalæknir og fundu út úr þessu fyrir mig. Þessir sérfræðingar sendu svo nákvæmar og góðar læknisnótur til heimilislæknisins sem fylgdi málinu eftir. Þá hafa nú einnig nokkrir læknanemar fengið að kynnast mínum sjúkdómi þar sem þeir hafa verið viðstaddir heimsóknir mínar á göngudeildina. Það tel ég afar mikilvægt enda er hér um að ræða heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar.
Það þarf sjálfsagt ekki að koma neinum á óvart, er lesa þessi orð, að ég fagna nýjum áherslum heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem m.a. felast í því að minnka greiðsluþátttöku sjúklinga, efla heilsugæslu og starf göngudeilda sjúkrahúsa. Styrking heilsugæslu og göngudeildaþjónustu hefur t.d. ekki eingöngu jákvæð áhrif fyrir okkur notendurna heldur tel ég að slík styrking muni hafa góð áhrif á alla þætti heilbrigðisþjónustunnar. Á síðustu mánuðum hafa mín útgjöld – í þágu heilsunnar – lækkað mikið. Og ég get lofað ykkur að það skiptir máli – þegar engin eru mánaðarlaunin né stéttarfélögin (þar sem hægt er að sækja styrki í sjúkrasjóði). Nú fæ ég reglulega að heyra: „Þú ert á núlli”. Frá því að greiða um 8000 krónur á mánuði bara í sjúkraþjálfun (sem þó var niðurgreidd) greiði ég nú um 2800 krónur. Og þessar tæpu 3000 krónur eru þær sem ég borga á mánuði fyrir alla þá heilbrigðisþjónustu sem ég þarf sækja. Fyrsta hvers mánaðar borga ég svo aftur þessar 3000 kr. Núna fyrstu vikuna í október mun ég til að mynda þurfa að fara í eina læknisheimsókn, eina lyfjagjöf á dagdeild sjúkrahúss, segulómun og sjúkraþjálfun. Kostnaðarhlutdeild mín fyrir þessa heilbrigðisþjónustu eru þessar títtnefndu tæpu 3000 krónur. Og nú í nóvember fer ég í fyrsta sinn til tannlæknis eftir að greiðsluþátttaka öryrkja og lífeyrisþega í tannlæknakostnaði lækkaði. Allt þetta skiptir máli.
Um leið og heilsan brast upplifði ég öryggisleysi en núna líður mér meir eins og ég sé á leið í örugga höfn. Ég er ekki komin á leiðarenda en ég er á réttri leið. Ég mun ekki læknast en með góðu stuðningsneti mun ég geta lifað með mínum sjúkdómi. Mitt markmið snýst um að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Á því „græða” allir, ekki bara ég. Ég bý að góðri menntun sem íslenska ríkið hefur m.a. tekið þátt í að veita mér og ég er reynslumikil í mínu fagi. Að öðlast aukin lífsgæði er gjöf til mín og minna. Það er þó ekki bara ég, og mínir nánustu, sem mun njóta þessara auknu lífsgæða því í raun kemur það samfélaginu líka til góða. Þá þarf ekki lengur að greiða mér örorkubætur því ég kemst aftur út á vinnumarkaðinn og vinn fyrir mínum mánaðartekjum. Og þegar ég er komin aftur út á vinnumarkaðinn mun ég greiða hærri skatt og önnur gjöld til íslenska ríkisins. Þessir skattar og þessi gjöld munu svo m.a. fara í áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins – þannig get ég gefið áfram það sem ég hef öðlast.
Ég er því þakklát nýjum áherslum í heilbrigðismálum, áherslum sem eru ákvarðaðar með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Að þeim sé hjálpað sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Um það hljótum við öll að geta verið sammála.
Höfundur er íslenskukennari og MA í uppeldis- og menntunarfræðum.