Við lýðveldisstofnun 1944 lofuðu allir stjórnmálaflokkar landsins endurskoðun stjórnarskrárinnar eins fljótt og unnt væri. Ástæðan er mjög einföld: Í grundvallaratriðum er stjórnarskráin byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmerkur – frá 1849! Þjóðkjörinn forseti fer með konungsvald en ber enga lýðræðislega ábyrgð. Þannig getur forsetinn skipt um ríkisstjórn í landinu – tekið sér nýjan forsætisráðherra sem undirritar lausn fráfarandi forsætisráðherra. Nýi forsætisráðherrann leggur fyrir forseta Íslands beiðni um þingrof sem forseti samþykkir. ÞIng er þá rofið og þingkosningar fara fram innan 45 daga. Alþingi getur komið nýrri ríkisstjórn frá völdum með vantrausti. Þingrofinu verður hins vegar ekki haggað.
Valdsækinn forseti Íslands getur einnig beitt valdi sínu við stjórnarmyndanir til að skipa forsætisráðherra sem forsetanum er að skapi og ganga fram hjá öðrum forystumönnum sem forsetanum hugnast síður. Eftir þingkosningar 2013 ákvað forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, t.d. að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins yrði forsætisráðherra í samstjórn með Sjálfstæðisflokknum en ekki formaður þess flokks, Bjarni Benediktsson. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut samt um 4000 fleiri atkvæði en Framsóknarflokkur í kosningunum. Forsetinn og Sigmundur Davíð voru nefnilega samherjar í andstöðu við Icesave-samninga en Bjarni studdi árið 2011 sáttagjörð í málinu, „Buchheit-samingana“ svokölluðu.
Í heild skilgreinir stjórnarskráin ekki stöðu og hlutverk valdhafa lýðveldisins, forseta Íslands, ráðherra og Alþingis. Ekki er heldur gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti kjósenda til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu.
Bein fyrir hunda – Grafið undan lýðræðinu
Í skjóli úreltrar stjórnarskrár hefur Alþingi ítrekað samþykkt lög sem hygla sérhagsmunum. Nærtækast er þess að minnast að Alþingi gerðist árið 1990 “þjófþing” sem svipti þjóðina umráðarétti yfir dýrmætustu sameign þjóðarinnar en afhenti útvöldum vildarvinum til eigin fénýtingar og brasks. Indriði Þorláksson, hagfræðingur, skrifar t.d. í niðurstöðum rannsóknar á íslenskum sjávarútvegi:
Staðreyndirnar hér að framan sýna svo ekki verður um villst að allar efnahagslegar forsendur eru til staðar til að sjávarútvegurinn skili þjóðinni því henni ber, þ.e. sanngjörnum hlut í arðinum af fiskveiðiauðlindinni. Auðlindarður í sjávarútvegi er tilkominn vegna samfélagslegra aðgerða, þ,e. takmörkun heildarveiðiheimilda í þeim tilgangi að vernda auðlindina, sem einnig hafði í för með sér efnahagslega og félagslega röskun fyrir marga. Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar og það felur í sér að þjóðin á tilkall til þess auðlindaarðs sem rekja má til hennar. Það að skammta þjóðinni 10% af arði eigin auðlindar er eins og að henda beini fyrir hund eða brauðmolum fyrir smáfugla. Þeir sem það gera verða að skýra fyrir þjóðinni hvað þeir eiga við með yfirlýsingum um að fiskveiðiauðlindin sé þjóðareign.
Semsagt: 10% af arði eigin auðlindar fer til þjóðarinnar en 90% til handhafa kvótans. Í heild er verðmæti aflaheimildanna gífurleg upphæð, um 1.100 milljarða króna virði. (Reiknað með kr. 2500 á hvert kilóþorskígildis); talsvert hærri upphæð en fjárlög íslenska ríkisins - um 900 milljarðar fyrir árið 2018. Einkavinavæðing og gjafakvótakerfið færa útvöldum vinum valdaflokkanna ómældan arð en einnig yfirráð yfir sjávarplássum landsins. Ýmsir stjórnmálaflokkar eru þjónar þeirra. Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri lýsir íslenska valdakerfinu m.a. þannig:
Handhafa kvótans urðu þeir valdsmenn, sem máli skiptu í sjávarplássunum í kringum landið. Þeir höfðu líf plássanna í hendi sér. Þeir gátu selt kvótann frá staðnum og þar með svipt íbúana atvinnu og afkomumöguleikum. Þingmenn landsbyggðakjördæmanna stóðu nær undantekningarlaust með kvótahöfunum. Þeir vissu sem var, að snerust þeir gegn þeim, væri stjórnmálaferli þeirra lokið … Frambjóðendur í prófkjörum þurftu og þurfa að leita fjárstuðnings hjá vinum, kunningjum og stuðningsmönnum, þar á meðal hjá handhöfum kvóta. Það jafngilti pólitísku sjálfsmorði að rísa gegn handhöfum kvóta á landsbyggðinni.
Þannig grefur gjafakvótakerfið undan lýðræðinu í landinu; veitir útgerðarmönnum vald og aðstöðu til að koma í veg fyrir að vilji þorra þjóðarinnar nái fram að ganga og handhöfum kvóta gert að greiða fullt auðlindagjald á grundvelli ákvæða í nýrri stjórnarskrá.
Lýðveldisstjórnarskráin er einfaldlega ónothæf sem grundvallarlög í lýðræðisríki; veitir valdsmönnum skjól til geðþóttaákvarðana og þjónar sérhagsmunum en ekki almannahag. Forgangsmál er að stjórnarskrárbinda ákvæði sem tryggja þjóðinni virkt eignarhald á auðlindum sínum og fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Algjör sátt um stjórnarskrárbreytingar = Ósannindi
Í meira en 70 ár hafa valdaflokkar landsins ekki efnt hátíðleg loforð um heildarendurskoðun stjórnarskrá. Einskis er svifist í vörninni fyrir óbreytt grundvallarlög. Hvað eftir annað er t.d. fullyrt að ríkt hafi samstaða allra stjórnmálaflokka um allar stjórnarskrárbreytingar í sögu lýðveldisins. Þetta eru ósannindi. Kjördæmabreyting var t.d. gerð árið 1959 en þá voru búin til 8 stór kjördæmi í stað 28 kjördæma áður. Lögð voru m.a. niður mörg kjördæmi sem staðið höfðu allt frá 1845 og voru fólkinu kær. Framsóknarflokkurinn stóð einn gegn breytingunni en var ofurliði borinn af hinum stjórnmálaflokkunum í einum hatrömmustu deilum í sögu lýðveldisins.
Við skulum hafa eitt á hreinu: Krafan um að algjör sátt eigi að ríkja um nýja stjórnarskrá jafngildir tilkalli um neitunarvald til handa fámennum valdahópi í landinu sem drottnar í krafti núverandi stjórnarskrár geðþóttavalds og sérhagsmuna.
Nýr samfélagssáttmáli og ný stjórnarskrá verða ekki að veruleika fyrr en tekst að losa algjörlega um kverkatak sérhagsmunaafla og þjóna þeirra á Alþingi og í ríkisstjórn. Átök um stjórnarskrá lýðveldisins eru nefnilega fyrst og síðast barátta á milli almannahags og sérhagsmuna. Vantraust ríkir ávallt í garð þeirra sem ekki efna loforð sín. Farsæl niðurstaða í endurskoðun íslensku stjórnarskrárinnar er ein meginforsenda heilbrigðs lýðveldis þar sem valdaflokkar landsins standa við gefin fyrirheit. Enginn getur þjónað tveimum herrum samtímis. Á Íslandi á að ríkja raunverulegt fullveldi þjóðarinnar en ekki þjónusta valdhafa við sérhagsmuni auðs og valda í skjóli úreltrar stjórnarskrár.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og félagi í ReykjavikurAkademíu.
Heimildir:
Svanur Kristjánsson. 2013. „Lýðræðisbrestir íslenska lýðveldisins. Frjálst framsal fiskveiðiheimilda“. Skírnir (haust).
Styrmir Gunnarsson. 2009. Umsátrið Fall Íslands – endurreisn.
Indriði Þorláksson. 2015. „Veiðigjöld 2015. Annar hluti“. Herðubreið – herdubreid.is – 14. apríl 2015.
Magnús Halldórsson. 2018. „HB Grandi stærsta útgerðin – Þúsund milljarða heildarkvóti“. Kjarninn - www.kjarninn.is - 27. september.