Í sjónvarpsfréttum RÚV, 26. september s.l. sagði fjármálaráðherra að ríkið hefði selt hlut sinn í Arion banka vegna þess að það væri ekki gott fyrir ríkið að vera minnihlutaeigandi í fjármálafyrirtæki.
Árið 2010 voru lögfestar breytingar á hlutafélagalögum til að auka vernd minnihluta hluthafa á Íslandi. Tilefnið var aukin umræða um stjórnarhætti fyrirtækja og hneykslismál. Á þeim tíma var hlutfall þeirra hluthafa sem geta krafist sérstakrar rannsóknar á starfsemi félagsins lækkað úr 25% í 10%, sjá 97. grein laga um hlutafélög nr. 2/1995, en þar segir „Hljóti tillagan fylgi hluthafahóps sem ræður yfir minnst [1/10] hlutafjárins getur hluthafi í síðasta lagi einum mánuði frá lokum fundarins farið þess á leit við ráðherra að hann tilnefni rannsóknarmenn. Tilmælin skal taka til greina, svo framarlega sem ráðherra telur nægilegar ástæður til þeirra.“
Tilgangurinn með breytingunni var eins og segir í frumvarpi að lögunum "að veita stjórnendum félaga aukið aðhald og auka minnihlutavernd og möguleika minni hluthafa til að bregðast við aðstæðum sem upp kunna að koma, t.d. ef grunur leikur á að stjórn, stjórnendur eða stærri hluthafar hafi nýtt sér stöðu sína til að hagnast á kostnað félagsins eða talið er að stjórn eða stjórnendur sinni ekki skyldum sínum. Breytingin er í samræmi við umræðu sem orðið hefur um möguleika hluthafa á að láta rannsaka tiltekin atriði í starfsemi félags. Má t.d. nefna að í skýrslu, sem sérfræðinefnd um félagarétt gerði fyrir framkvæmdastjórn ESB, er mælt með því að hluthafar, sem ráða yfir 5–10% af atkvæðisrétti í félagi, geti farið fram á slíka rannsókn."
Velta má fyrir sér raunverulegu gildi þessarar reglu, þ.e. að ná fram samþykki slíkrar rannsóknar, sem er háð samþykki ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar. Af orðum fjármálaráðherra í sjónvarpsfréttum RÚV, 26. september s.l., má ráða að hann telji að rétturinn samkvæmt þessari reglu sé svo torveldur að sækja, að hann treystir sér og Bankasýslunni ekki til að beita úrræðinu. Aðspurður um sölu ríkisins á Arion banka sagði hann að viðskipti bankans með Bakkavör hefðu haft áhrif á ákvörðun ríkisvaldsins um að selja 13% hlut ríkisins í Arion banka og að það væri ekki góð ráðstöfun fyrir ríkið að vera minnihlutaeigandi í fjármálafyrirtæki. Reyndar stangast það á við orð forsætisráðherra á Alþingi í janúar 2018, þegar hún lýsti því yfir í ræðu að ríkið hafi ekki átt neinnar kosta völ, að kaupréttur hafi verið nýttur, sem skrifaður var rétt um 9 árum áður.
Þá er auðvitað ljóst að minnihluta hluthafar eiga á brattann að sækja. Frægt er mál Guðmundar, kenndan við Brim, sem sóttist eftir skipun ráðherra á rannsóknaraðila til að kanna þynningu hlutar hans í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum árið 2011. Þar höfðu aðrir hluthafar virkjað atkvæðarétt eigin bréfa Vinnslustöðvarinnar til að samþykkja samruna Vinnslustöðvarinnar og Ufsabergs útgerðar ehf. Hæstiréttur dæmdi samrunann ólöglegan, með dómi nr. 585/2012. Árið 2015, var erindi Guðmundar um rannsókn á gerningnum hins vegar hafnað af ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar, án rökstuðnings.
Ef ríkið sjálft og æðstu trúnaðarmenn okkar almennings heykjast á því að skoða stjórnarhætti um viðskipti með gríðarlega hagsmuni hluthafa sem mögulega hafa verið fyrir borð bornir, er varla hægt að ætlast til þess að lífeyrissjóðir landsins framkvæmi slíka skoðun sem minnihluta hluthafar. Hvað þá hin vinalausu Jón og Gunna?
Í öllu falli má spyrja hvers virði eru lög og réttindi þegar sjálfur ráðherrann sér ekki flöt á að beita þeim í þágu okkar, almennings?
Ef stjórnmálamenn hyggjast gefa eftir meirihlutaeign ríkisins í öðrum innlendum bönkum með sölu (eða hreinlega koma í veg fyrir almenna sölu lífeyrissjóða á minnihluta hlutum sínum í skráðum og óskráðum félögum) er ástæða til að benda fjármálaráðherranum og samstarfsfólki hans í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á þá augljósu og knýjandi þörf til að rannsaka framkvæmd 97. greinar laga um hlutafélög nr. 2/1995 og hvort það úrræði hafi í raun aukið minnihlutavernd eins og ætlast var til. Bregðast þarf við af festu ef sú rannsókn staðfestir mat fjármálaráðherrans sjálfs, eins og það birtist almenningi í fréttum í síðustu viku, að ekki sé hentugt að vera minnihluta hluthafi – jafnvel þegar sjálft íslenska ríkið á í hlut.
Höfundur er lektor í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.