Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á ríkisstjórnin ætli sér að styðja og efla sjálfbæran íslenskan landbúnað með sérstaka áherslu á að efla lífræna ræktun sem og stuðla að aukinni nýsköpun og vöruþróun innan landbúnaðargeirans. Þar segir beint að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Í sáttmálanum er einnig tekið sérstaklega fram að ríkisstjórnin ætli sér að stuðla með beinum hætti að frekari þróun lífhagkerfisins, innleiða grænar lausnir til að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og styðja við kolefnisjöfnun greinarinnar.
Þetta er jákvæð og metnaðarfull sýn en mun ekki verða að veruleika nema henni verði fylgt eftir af fullum krafti. Það verður að sjálfsögðu best gert innan skrifstofu landbúnaðarins í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR) því fagskrifstofur ráðuneytanna gegna jú því hlutverki að vera faglega sérhæfðar í þeim málaflokkum sem viðkomandi ráðherra er ætlað að halda utan um og fylgja eftir. Í þessu ljósi skýtur því mjög skökku við að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi nýverið ákveðið að leggja niður fagskrifstofu matvæla og landbúnaðar og færa verkefni landbúnaðarins undir skrifstofu alþjóðamála innan ANR.
Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja og líklega aldrei meiri þörf en einmitt í dag á þverfaglegri og vel mannaðri skrifstofu landbúnaðarmála innan ANR til að sinna hefðbundnum stjórnsýsluverkefnum málaflokksins ásamt því að halda utan um vinnu við að móta landbúnaðarstefnu stjórnvalda út frá stjórnarsáttmálanum, í samvinnu við samfélagið allt, og greina helstu vaxtarbrodda landbúnaðarins til framtíðar. Slík vinna er grunnur þess að hægt sé að samþætta og aðlaga núverandi styrkjakerfi greinarinnar að landbúnaði nútíðar og framtíðar og opna kerfið fyrir mun fjölbreyttari notendahópi en hefur aðgang að því í dag. Það myndi án efa skila öflugri endurnýjun og nýsköpun til sveita og verða þannig hluti af langtíma atvinnuskapandi byggðastuðningi, eitthvað sem við líklega öll viljum sjá raungerast.
Til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar þarf ráðherra landbúnaðarmála og hans ráðuneyti einnig að efla rannsóknir og þróunarstarf á sviði fjölbreytts landbúnaðar og sjálfbærni. Það er umhugsunarvert að Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur enga faglega undirstofnun til að vinna að þessum málaflokkum með sér og hefur tæplega haft síðan árið 2005 er Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Garðyrkjuskólinn á Reykjum runnu saman í eitt og Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ) varð til. Af ástæðum sem ekki verða raktar hér hefur LBHÍ frá upphafi aldrei haft fjárhagslega burði til að sinna rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum tengdum landbúnaði og sjálfbærni af þeim krafti sem eflaust var reiknað með að háskólinn myndi gera þegar til hans var stofnað.
Allar þekkingarstoðir landbúnaðarins, þar með taldar stoðir nýsköpunar, grænna lausna og sjálfbærni eru því í dag langt í frá eins sterkar og þær þyrftu að vera. Þessu þarf að breyta ef markmið ríkisstjórnarinnar um öflugan og sjálfbæran íslenskan landbúnað eiga að verða að veruleika. Það verður best gert með þrennu: uppbyggingu á öflugri fagskrifstofu landbúnaðar innan ANR, stofnun þverfaglegrar fagstofnunar landbúnaðar og sjálfbærni og verulegri innspýtingu inn í alla starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands.