Kringum tíu ára afmæli Hrunsins takast á að minnsta kosti þrjár frásagnir um aðdraganda þess og eftirmál. Sú fyrsta: Hrunið varð vegna þess að Ísland er í grunninn ónýtt og það verður að setja landinu nýja stjórnarskrá og byrja allt upp á nýtt; númer tvö: Hrunið varð vegna umsáturs vogunarsjóða, jafnvel Evrópusambandsins, sem vildi komast yfir fyrirtækin okkar – og númer þrjú: allt var í himnalagi hér en óvandaðir menn misnotuðu sér frelsið. Iðulega sér maður samkrull af tvö og þrjú.
Sjálfur held ég að Hrunið hafi ekki orðið vegna persónuleikabresta tiltekinna einstaklinga. Græðgi, dramb, glannaskapur, óhóf og ofsi einkenndi vissulega framgöngu margra áberandi einstaklinga í Stóru-Bólu, en slíka eðlisþætti höfum við alltaf á meðal okkar – og inni í okkur í mismiklum mæli. Það er einmitt hlutverk stjórnmálanna að skapa aðstæður þar sem slíkir eiginleikar eru ekki allsráðandi og skipta ekki sköpum um samfélagsþróunina. Upp úr aldamótum gerðist hið þveröfuga: Stjórnmálamenn og aðrir leiðtogar afnámu allt regluverk, gáfu bankafurstum lausan tauminn, bjuggu til samfélag sem laðaði fram og verðlaunaði glannaskap, óhóf og dramb en bældi hógværð, varfærni og hófsemi.
„Við vorum eins og sjómenn í Smugunni,“ sagði einn útrásargosinn síðar í blaðaviðtali, sem lýsir stemmningunni vel þegar sem mest gekk á í stórkaupum hans og annarra skuldasafnara á grónum fyrirtækjum í viðskiptalífinu sem þeir sugu verðmætið úr og hræktu svo leifunum út úr sér inn í sópdyngjur eignarhaldsfélaga með fyndin nöfn.
Mig langar að nefna þrennt sem ég held að hafi átt ríkan þátt í að skapa aðstæður í íslensku efnahagslífi sem leiddu að lokum til Hrunsins.
Í fyrsta lagi: Innleiðing regluverks Evrópusambandsins skilaði miklum félagslegum umbótum – auknum réttindum almennings og launafólks – en varð líka til þess að leysa úr læðingi öfl sem hefði þurft að hafa betri gætur á; staðföst oftrú ráðamanna á alvisku og almætti Markaðarins kom í veg fyrir það. Áralöng höft í viðskiptalífinu kölluðu á ámóta öfgafulla andstæðu sína, algjört hömluleysi – og algjört virðingarleysi fyrir reglum, hefðum og venjum og siðum. Rótgróið klíkuræði, þar sem sá hæfasti lifir ekki af heldur sá tengdasti, tryggði líka að viðskipti „skyldra aðila“ urðu nánast að reglu á meðan erfitt þótti að sýna fram á að Björgólfsfeðgar væru „skyldir aðilar“. Til varð hér landi skringilegt misgengi krónu og annarra gjaldmiðla, sem hægt var að leika sér með - um hríð - en gat ekki endað nema á einn veg.
Við þetta bættist múgæsingin sem svona lítið samfélag eins og okkar fer ekki varhluta af með reglulegu millibili samfara oftrú á eigið brjóstvit; að þessu sinn varð til hálfgert gullæði sem hófst á útboði í bréfum Íslenskrar erfðagreiningar. Forsprakkar Decode prönguðu bréfum í félaginu inn á hrekklausa landsmenn á uppsprengdu verði og töpuðu ýmsir stórt á því að taka lán til kaupa í eigin genum.
Við fjárfestum í genum og jenum.
Í öðru lagi má nefna framsal kvóta skömmu fyrir aldamót, þegar allt fylltist af peningum sem voru ekki til frá mönnum sem eignast höfðu þá með því að selja það sem þeir áttu ekki: óveiddan fisk. Og til varð velmegun út á krít.
Og loks í þriðja lagi: Kárahnjúkavirkjun þandi hagkerfið meira út en það þoldi. Henni fylgdi gríðarleg innspýting inn í samfélagið, sem að mestu var tekin að láni, án þess þó að um væri að ræða arðbæra fjárfestingu sem skilaði samfélaginu öðru en tímabundnum hagvexti með tilheyrandi hávöxtum. Í þessari framkvæmd hófust líka stórfelldari notkun á erlendu vinnuafli en áður hafði þekkst.
Hér varð sem sé Hrun. Við vitum nú að íslenska efnhaghagsundið reyndist efnahagstundur. Við þurfum að draga rétta lærdóma af þessu öllu, um stjórn efnahagsmála en líka um dyggðir og lesti, siðferði og verðmæti. Við þurfum að minna okkur á að græðgi er ekki dyggð og ríkidæmi fæst ekki með lántökum. Atvinnulífið má ekki fyrst og fremst miðast við hagsmuni verðbréfasala heldur heilbrigðan rekstur sem ræður við að greiða fólki góð og sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Við þurfum að muna að mikill launamunur er ekki náttúrulögmál heldur sjúkdómseinkenni. Við þurfum að muna að hið góða líf er ekki bundið við auð og völd, en forsenda þess er að fólk hafi mannsæmandi laun, gott húsnæði sem þarf ekki að þræla fyrir – ríkulegt innra líf, vaxtarskilyrði fyrir börn og sveigjanleiki til að vaxa og dafna ævina á enda, hversu löng sem hún verður, mannréttindi, frelsi til að njóta sín og tjá sig.
Útrásarvíkingarnir voru ekki Hinir - þeir komu úr Breiðholtinu og Árbænum, Stykkishólmi, Borgarnesi og Akureyri, úr Vesturbænum og Kársnesinu; úr þjóðardjúpinu. Þetta voru börnin okkar, afurðir íslensks samfélags, hressir krakkar sem lentu í að láta stjórnast af vondum hugmyndum, eins og mannkynssagan á ótal dæmi um. Hrunið varð ekki vegna persónuleikabresta tiltekinna einstaklinga þó að þessir brestir væru áberandi og kæmu við sögu; það varð út af rangri hugmyndafræði og vondri efnahagsstjórn.