Fyrir skömmu lenti ég óvænt í talsverðri fjölmiðlaumræðu um þróun eigna- og tekjuskiptingar hérlendis í kjölfar samtals við Daníel Örn Arnarson, stjórnarmann í Eflingu, á opnum fundi í Gerðubergi. Það sem vakti helst athygli voru staðhæfingar mínar að eignaójöfnuður á Íslandi væri mikill og meiri nú en fyrir hrun og að tekjuójöfnuður hefði aukist síðustu ár. Staðhæfingar mínar hvað þetta varðar byggja á bestu fáanlegu gögnum. Stöðu og þróun þessara mála hér á landi eru gerð góð skil í Ójöfnuður á Íslandi, nýútkominni bók eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson (2017).
Samtök atvinnulífsins (SA) snúa út úr orðum mínum, saka mig um rangfærslur, vanmeta ójöfnuð og ráðast með beinum orðum að fræðimannsheiðri mínum í nafnlausum pistli á heimasíðu SA. Útúrsnúningur SA-liða minnir helst á drykkjumann sem leitar að týndum lyklum undir næsta götuljósi vegna þess að það er þægilegra heldur en að leita þar sem lyklarnir sannarlega týndust. Þrátt fyrir það sé ég mig knúinn til þess að svara umræddum pistli, enda er hvimleitt fyrir fræðimann að sitja undir ómaklegum ásökunum um rangfærslur og óvönduð vinnubrögð. Persónulegum árásum í minn garð í skjóli nafnleyndar vísa ég hins vegar beint til föðurhúsanna.
1. Ég staðhæfði í fjölmiðlum á dögunum að eftir mikla lækkun frá hruni hefði tekjuójöfnuður á Íslandi aukist síðustu ár (hægt en bítandi). Þetta sýna bestu fáanlegu gögnin um tekjudreifingu hér á landi, þ.e.a.s. gögn Ríkisskattstjóra yfir heildartekjur (allar tekjur meðtaldar). Sem vísbendingu um aukinn tekjuójöfnuð hef ég aðallega bent á aukna hlutdeild tekjuhæstu 10% landsmanna af heildartekjum allra. Hlutdeild tekjuhæstu 10% af heildartekjum allra jókst úr um 32% árið 2011 og í um 34% árið 2015 (nýjustu gögn sem ég styðst við). Þessi þróun rennir stoðum undir staðhæfingu mína að tekjuójöfnuður hefur aukist. Það var einmitt tekjuaukning tekjuhæstu hópanna, aðallega í formi aukinna fjármagnstekna, sem keyrði áfram geigvænlega tekjuójafnaðaraukningu á árunum fyrir hrun. Svipaða sögu segir þróun tekjuhlutdeildar tekjuhæsta 1% af heildartekjum allra.
SA-liðar svara þessu hins vegar engu. Þess í stað freista þeir þess að drepa málinu á dreif með því að vísa í meðaltalstölur, sér í lagi í þróun Gini stuðuls ráðstöfunartekna út frá tölum Hagstofunnar. Gini stuðull Hagstofu er byggður á úrtakskönnunum, en slíkum könnunum hættir til þess að vanmeta tekjur tekjuhæstu hópanna og vanmeta þannig tekjuójöfnuð almennt. Það gefur mun raunsannari mynd af tekjuójöfnuði að reikna hann út frá skattagögnum (allar skattskyldar tekjur). Slík gögn gefa nákvæmara mat, hafa engar úrtaksvillur, innihalda söluhagnað hlutabréfa o.s.frv. Gini stuðull á grunni skattagagna sýnir að tekjuójöfnuður ráðstöfunartekna hérlendis jókst úr 25 árið 2010 og upp í 27 árið 2015. Ítreka þarf að tölur um tekjuskiptingu út frá skattagögnum vanmeta samt, ef eitthvað er, tekjuójöfnuð því þær ná ekki til erlendra skattaskjóla. Í þessu sambandi má nefna að 600 Íslendingar voru í Panamaskjölunum, sem einungis láku úr einu fyrirtæki í einu landi.
Það verður að ítreka að Gini stuðull ráðstöfunartekna sem Hagstofan reiknar út inniheldur ekki söluhagnað hlutabréfa, sem fellur nær eingöngu í hlut allra tekjuhæsta fólksins hér á landi. Meðal annars fyrir þær sakir vanmetur Gini stuðull Hagstofunnar tekjuójöfnuð. Áhrif þessa eru alls ekki hverfandi, eins og SA-liðar halda fram. Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson (2017) sýna til að mynda að tekjur af söluhagnaði hlutabréfa hækka Gini stuðulinn fyrir ráðstöfunartekjur úr 24 í 27 fyrir árið 2015. Jafnframt verður að halda því til haga að Gini stuðullinn vanmetur almennt tekjuójöfnuð því hann er of næmur fyrir tekjum í miðri tekjudreifingunni og er ekki nógu næmur fyrir tekjum tekjuhæstu og tekjulægstu hópanna. Það er vegna þessa, meðal annars, sem það er mikilvægt að fylgjast sérstaklega vel með þróun tekjuhlutdeildar efstu og neðstu hópanna.
2. Ég staðhæfi einnig að ójöfnuður í eignaskiptingunni hérlendis sé meiri nú en fyrir hrun og hef fyrir mér hlutdeild ríkustu 10% framteljenda af hreinni heildareign í þeim efnum. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu var hlutdeild eignamestu 10% framteljenda heil 62% af heildareignum árið 2016. Þetta er stærri hlutdeild en eignamestu 10% höfðu nokkurt ár á tímabilinu 1997 til 2006, sem var, samkvæmt mínum útreikningum, „fyrir hrun“. Í Morgunútvarpi Rásar 2 fór ég þó áravillt og sagði að hlutdeild eignamestu 10% væri meiri nú en „árið 2007“, en þá var hlutdeild þessa hóps 63%. Þarna hefði ég með réttu átt að segja „árið 2006“ og leiðréttist það hér með. Eitt ár til eða frá í þessum efnum hrekur hins vegar ekki staðhæfingu mína að ójöfnuður í eignaskiptingunni er nú, þrátt fyrir lækkun frá árinu 2010, meiri en á árunum fyrir hrun, ekki síst í ljósi þess að árið 2007 var eina undantekningin frá þessari reglu á tímabilinu 1997 til 2007. Tölur Hagstofunnar sem lagðar voru fyrir Alþingi fyrr á þessu ári sýna einnig þessa langtímaþróun til aukins ójafnaðar í eignaskiptingunni.
3. Ég hef aldrei dregið dul á það að tekjuójöfnuður á Íslandi er nú, í kjölfari hruns, lágur í alþjóðlegum samanburði, ekki síst ef hann er mældur með Gini stuðlinum. Tekjuójöfnuður hérlendis er sérstaklega lítill í alþjóðlegum samanburði ef við horfum á atvinnutekjur en tekjuójöfnuður eykst almennt þegar fjármagnstekjur eru teknar með í spilið, enda falla síðarnefndu tekjurnar nær eingöngu í hlut þeirra eignamestu. Þetta er óumdeilt. Það gefur því raunsannari mynd af tekjuójöfnuði að tiltaka allar tekjur. Þetta hef ég ítrekað bent á, ekki síst vegna þess að fjármagnstekjur hafa spilað stórt hlutverk í þróun ójafnaðar hérlendis síðustu tuttugu árin eða svo. Aukning fjármagnstekna keyrði fyrst og síðast áfram ójafnaðaraukningu hér á landi á árunum fyrir hrun. Hlutur fjármagnstekna af heildartekjum hefur að sama skapi aukist hérlendis frá 2012 og vissara að vera vakandi fyrir þeirri þróun.
Ég hef ekki fullyrt að staða Íslands í alþjóðlegum samanburði, út frá Gini stuðlinum, myndi breytast í grundvallaratriðum ef dreifing heildartekna er skoðuð, eins og SA-liðar láta í veðri vaka. Ég hef sagt að það gefi skýrari mynd af tekjuójöfnuði að tiltaka allar tekjur. Skattagögn eru, sem fyrr segir, bestu fáanlegu gögnin í þessum efnum. Ég hef einnig sagt að það eru fleiri leiðir til þess að mæla tekjuójöfnuð en með Gini stuðlinum, sem hefur marga galla og vanmetur almennt ójöfnuð. Gini stuðullinn segir okkur, til dæmis, lítið sem ekkert um skiptingu milli tekjuhópa. Ég hef af þessum sökum fyrst og fremst lagt út frá hlutdeild efstu 10% af heildartekjum í umræðum um tekjuójöfnuð (sbr. fyrsta liðinn). Hérlendis fellur stærri hluti heildartekna í hlut tekjuhæstu 10% en á hinum Norðurlöndunum, svo dæmi sé tekið. Ísland er ekki „jafnast“ að þessu leyti. Hér er miðað við gögn frá Ríkisskattstjóra og „World Wealth and Income Database“ (Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson 2017).
Hagfræðingurinn Gabriel Palma hefur bent á að hlutdeild „millistéttartekna“ (þ.e. hlutur 5. til 9. tíundar) sé almennt um helmingur af vergum þjóðartekjum í hverju landi. Hinn helmingur tekna skiptist á milli tekjuhæstu 10% og tekjulægstu 40%. Skiptingin milli þessara síðastnefndu tveggja hópa er hins vegar afar mismunandi milli landa. Bendir Palma jafnframt á að baráttan um skiptingu þjóðartekna standi af þessum sökum aðallega milli ríku 10% og fátæku 40% og ráðist slagurinn að stórum hluta af því hvorum hópnum „millistéttin“ stilli sér upp við. Hagfræðingarnir Alex Cobham og Andy Sumner byggja á þessum hugmyndum og settu árið 2013 fram „Palma hlutfallið“, sem fangar mun betur tekjuójöfnuð og áhrif hans á samfélagið en Gini stuðullinn. Ýmsir spá því að Palma hlutfallið muni taka við af Gini stuðlinum, sem er of næmur fyrir breytingum á „millistéttartekjum“ og nemur ekki nógu vel breytingar á toppi og botni tekjudreifingarinnar. Eftir því sem Palma hlutfallið er hærra, þeim mun meira af tekjum fellur í hlut tekjuhæstu 10% miðað við tekjulægstu 40%. Hagstofan reiknar því miður ekki út Palma hlutfallið, en samkvæmt nýjustu tölum úr „Human Development Report“ Sameinuðu þjóðanna jókst Palma hlutfallið fyrir Ísland úr 0,93 árið 2013 og í 0,95 árið 2015. Þessi þróun bendir til aukins tekjuójafnaðar og breiðara bils milli ríkra og fátækra hér á landi; sem rennir frekari stoðum undir staðhæfingar mínar.
4. Eignaójöfnuður í heiminum er mikill og mun meiri en tekjuójöfnuður. Margar rannsóknir bera þessu vitni. Ísland er engin undantekning hvað þetta varðar; hér er mikill eignaójöfnuður. Nýjustu tölur sýna að ríkustu 10% Íslendinga eiga 62% allra hreinna eigna. Þetta er, sem fyrr segir, hærra hlutfall en nokkurt ár á tímabilinu 1997 til 2006. Með öðrum orðum: Ójöfnuður í eignaskiptingunni hér á landi er meiri nú en fyrir hrun, að undanskildu árinu 2007. Eignaójöfnuður hefur minnkað frá 2010 en spurning hvað gerist á næstu árum.
Samanburður á eignaójöfnuði milli landa er vandmeðfarinn því gögn mismunandi landa eru ekki nógu samhæfð og stöðluð. Fyrir vikið þarf að hafa ákveðna fyrirvara á slíkum samanburði. Þegar ég tjáði mig um eignaskiptinguna á Íslandi á dögunum lagði ég út frá þeim niðurstöðum sem ég hafði á takteinum, þ.e.a.s. úr nýútkominni og vandaðri bók Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar (sem kom út undir lok 2017). Þar er tafla sem ber saman eignahlutdeild ríkustu 10% af hreinni eign í 29 löndum (aðallega vestrænum iðnríkjum). Byggt er á „Global Wealth Databook“ frá árinu 2014 og á tölum Hagstofu Íslands og Fjármálaráðuneytisins fyrir Ísland. Með fyrirvara um gæði gagna að þá raðast Ísland í töflunni í þriðja sæti landa sem hafa ójafnasta eignaskiptingu út frá hlutdeild ríkustu 10%.
SA-liðar benda á nýjustu útgáfu „Global Wealth Databook“ fyrir árið 2017 og er það vel. Ég hef nú kynnt mér efni skýrslunnar. Þessi úttekt sýnir að Ísland er rétt yfir meðaltali þegar kemur að eignaójöfnuði, mældur út frá hlutdeild ríkustu 10% af hreinni eign, sé miðað við þau 39 lönd sem borin eru saman. Ísland raðast í 20. sæti af fjörutíu löndum út frá þessum mælikvarða. Sjö af löndunum sem eru með meiri eignaójöfnuð en Ísland eru sk. „þróunarlönd“ (e. developing countries), en þau eru jafnan plöguð af mikilli misskiptingu. Samkvæmt listanum er Ísland ennfremur með meiri eignaójöfnuð en lönd á borð við Sviss, Bretland og Frakkland, ef miðað er við eignahlutdeild ríkustu 10%. Út frá þessum nýrri lista tók ég þó of djúpt í árinni um daginn varðandi eignaójöfnuð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Réttast væri að segja að eignaójöfnuður á Íslandi sé mikill og rétt yfir meðaltali þeirra 39 landa sem eru til skoðunar í nýjustu útgáfu „Global Wealth Databook“.
SA-liðar reyna að draga dul á þá staðreynd að það er kerfisbundinn ójöfnuður á Íslandi. Sérstaklega beina þeir kastljósinu frá þætti eigna- og tekjumestu hópanna í misskiptingunni. Þetta er að sjálfsögðu viðbúið. Þrástef SA-liða um meðaltöl, sem vanmeta ójöfnuð, vekja hugrenningatengsl við Fóstbræðrasketsinn um konuna sem kunni bara að elda bjúgu. Meðaltöl eru ágæt—en kannski ekki alltaf! Efnahagslegur ójöfnuður hefur margar birtingarmyndir og það þarf að skoða hann frá mörgum hliðum og með bestu fáanlegu gögnum hverju sinni. Það er fráleitt að bregðast við slíku með offorsi.
Þá finnst mér hjákátlegt að SA höggvi í sama knérunn og Donald Trump og brigsli fjölmiðla um „falsfréttir“ (e. fake news). Jafnframt finnst mér að persónulegar árásir í skjóli nafnleyndar ættu að vera fyrir neðan virðingu hlutaðeigandi. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fólk og hópar berjist fyrir tilteknum hagsmunum en það fer betur á því að það sé gert á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga og eftir reglum rökfræðinnar. Góðar stundir.
Höfundur er dósent við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.