Um helgina, á tíu ára afmæli hrunsins, sem virðingarvott við lýðræðislegt ferli Nýju stjórnarskrárinnar, var fyrsta stjórnin kosin í Samtökum kvenna um Nýja stjórnarskrá. Við erum hópur kvenna úr ólíkum áttum sem komum saman til þess að berjast fyrir rettlátara samfélagi. Við hvetjum allar konur til þess að ganga til liðs við okkur og allt fólk til þess að styðja okkar baráttu. Þá vonandi sjáum við einn daginn betra samfélag með vandaðari leikreglum.
Markmið okkar er að berjast fyrir innleiðingu hinnar Nýju stjórnarskrár, sem almenningur samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Hún hafði aðkomu kvenna og annarra þjóðfélagshópa, öfugt við þá sem gildir í dag. Við viljum sérstaklega vekja athygli á sjónarhorni kvenna og ólíkra hópa, sem annars gætu týnst i heildarumræðunni.
Þann 20. október 2012 þegar ég mætti á kjörstað til að kjósa um Nýju stjórnarskrána var ég ekki meðvituð um alla söguna á bak við núgildandi stjórnarskrá. Ég vissi að hún var samin af efri stéttar karlmönnum. Ég var einnig meðvituð um að ákveðnir þættir í núgildandi stjórnarskrá stuðluðu að hruninu. Ég fylgdist vel með umræðunni og hvernig ný stjórnarskrá varð til. Mér fannst merkilegt að fólk úr öllum kimum samfélagsins (nema úr stjórnmálastéttinni) var boðað til að taka þátt í þjóðfundinum. Mér fannst ótrúlegt að sjá að í Stjórnlagaráði sátu 10 konur og 15 karlmenn, og meðal þeirra voru innflytjandi, útvarpsmaður, fötluð kona, bóndi, prestur, safnstjóri, nemandi og kvikmyndagerðarmaður. Það var augljóst að þetta var stjórnarskrá sem yrði okkar allra. Einnig að það lýðræðislega ferli sem farið var í myndi leiða okkur til bjartrar framtíðar, þar sem vald samfélagsins yrði fært frá valdstéttum til almennings.
Á kjörstaðnum var ég spurð af manni „Af hverju ertu ÞÚ að kjósa? Þér kemur þetta ekki við, þetta er stjórnarskrá íslendinga.“ Ég svaraði „Ég er að kjósa vegna þess að Nýja stjórnaskráin snýst um gildi okkar allra, framtíð og réttindi, hjá nýjum Íslendingum jafnt sem innfæddum.“
Það er kjarni málsins og ástæða þess að Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá urðu til. Margrét Thatcher sagði einu sinni „If you want something said, ask a man; if you want something done, ask a woman.“ Við viljum virkja þann sterka kraft sem verður til þegar konur koma saman. Við höfum beðið nógu lengi. Við viljum draga úr valdníðslu og spillingu. Við viljum ekki bíða þar til yfirvöldum hentar að hlusta á ákall okkar um breytingar. Við viljum nýja stjórnarskrá sem færir valdið til okkar. Það er okkur ætlun að leiða umræðuna, að hvetja, styðja og þrýsta á stjórnmálamenn þar til hin Nýja stjórnarskrá verður innleidd. Við viljum endurvekja umræður um mikilvægi þess að við fáum stjórnarskrá sem eflir réttlæti, jöfnuðu, frelsi og reisn meðal landsmanna. Ég vil nefna sérstaklega sem dæmi 10. grein Nýju stjórnarskrárinnar sem tiltekur ofbeldi og kynferðisofbeldi, 16. gr. sem tryggir sterka fjölmiðla, 33. gr. sem verndar náttúru Íslands og umhverfi fyrir komandi kynslóðir, 34. grein þar sem auðlindar okkar eru skilgreindar sem sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar og síðast en ekki síst - 65. 66. og 67. greinar sem myndu gera okkur fært að afturkalla lög Alþingis, leggja fram eigin frumvörp og krefjast þjóðaratkvæðisgreiðslu.
Við skullum ekki gleyma að 68 prósent kjósenda samþykkti drög að nýrri stjórnarskrá og hefðu lögfræðingar sérhagsmuna ekki gengið svo langt að fá hana ógilda vegna smávægilegra tæknilegra atriða, væri hún einfaldlega Stjórnarskrá Íslands..
Boðað er til útifundar á Austurvelli 11. október kl. 17:00 í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá að útifundir Harðar Torfasonar hófust haustið 2008. Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá hvetja alla til þess bera bleik höfuðföt á útifundinum. Við berum bleik höfuðföt til þess að vekja athygli á kvennasamstöðu um Nýja stjórnarskrá. Við berum bleik höfuðföt því að fyrir allan almenning er innleiðing Nýju stjórnarskrárinnar gott skref til betri framtíðar, en fyrir konur og aðra undirokaða hópa er hún bráðnauðsynlegt skref.
Við berum bleik höfuðföt til að minna á baráttu #Metoo og #höfumhátt, ljósmæðra og annarra kvennastétta, þolenda í réttarkerfinu og fjölmiðlaumhverfinu, baráttu fyrir bættum aðstæðum kvenna af erlendum uppruna - og til að minna á að Ný stjórnarskrá færir almenningi aukið vald til þess að breyta misrétti og óréttlæti í átt að betra samfélagi, fyrir okkur öll.
Höfundur er fyrrverandi þingmaður og formaður Samtaka kvenna um Nýja stjórnarskrá.