Auðlindaarður í norsku laxeldi

Háskólaprófessor í hagfræði og tveir norskir prófessorar emeriti skrifa um laxeldi í Noregi.

Þórólfur M;att og co.
Auglýsing

Mikið hefur verið fjallað um umfang auðlindaarðs (grunnrentu) í norsku laxeldi, bæði á pólitískum og faglegum grundvelli. Umfjöllunin hefur einnig tekið til þess hverjir njóta auðlindaarðsins. Auðlindaarður er skilgreindur sem sá umframhagnaður sem verður til við nýting náttúruauðlindar samanborið við sambærilega nýtingu vinnuafls og fjármuna annars staðar í hagkerfinu. Auðlindaarður getur komið fram sem afnotagjald fyrir nýtingu auðlindar, í hagnaðartölum fyrirtækja, í «yfirborgunum» til launþega eða fjármagnseigenda. Einnig eru dæmi um að auðlindaarði sé sóað í ofsókn eða offjárfestingu. Samkvæmt blaðafréttum ræðir Atvinnuveganefnd Stórþingsins um þessar mundir að leggja framleiðslugjald sem nemur um 5 krónum íslenskum (0,35 NOK) á hvert kíló af fiski sem slátrað er, til þess m.a. til þess að taka til samfélagsins hluta af þeim arði sem náttúran skapar. 

Í Noregi eru olíu- og gasvinnsla, framleiðsla raforku með vatnsorku og fiskistofnar í sjó dæmi um aðrar atvinnugreinar sem eru uppspretta auðlindarentu. Því er stundum haldið fram að aðstaða til kvíaeldis sé ekki «heppnisfengur» á borð við olíu eða gaslindir í jörðu, vatnsafl eða villta fiskistofna. Við erum ekki fyllilega sammála því. Ástæða þess mikla umframhagnaðar sem er til staðar í fiskeldi tengist takmörkunum á svæðum sem nota má undir kvíar. Þessar takmarkanir ráðast bæði af opinberri stefnumörkun og takmarkaðri burðargetu náttúrunnar. Að fá rétt til að nýta þessi takmörkuðu gæði og þar með réttinn til að framleiða lax, bleikju og silung við ströndina getur gefið betri arð en væri fjárfest í öðrum atvinnugreinum. Fiskeldið nýtir sameiginlega auðlind, súrefnisríkan sjó. Framleiðslunni fylgir mengun í formi sleppilaxs, lífræns úrgangs við og undir kvíunum og dreifing laxalúsar og lyfjaleifa.

Góð stjórnsýsla og góð stjórnun eykur ávinning

Auðlindaarður verður óþarflega lítill ef ekki er komið í veg fyrir ofsókn og offjárfestingu með skilvirkri og vandaðri stjórnsýslu og stjórnun. Samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) hafa með samþykktum sínum dregið úr olíuframleiðslu og þannig unnið að því að auka auðlindaarð í þeirri framleiðslu. Sama á við í sjávarútvegi þar sem takmörkun sóknargetu fiskiskipaflota einstakra landa hefur aukið hagnað í sjávarútvegi. 

Auglýsing

Nefna ber að tvær stórar nefndir á vegum ríkisstjórnar Noregs hafa bent á að staðbundnar eða óhreyfanlegar auðlindir á borð við olíu, gas og fiskistofna séu heppilegri skattstofnar en hreyfanlegar auðlindir (vinnuafl og fjármagn). Annars vegar er um að ræða nefnd sem kennd er við formann sinn Hans Henrik Scheel, framkvæmdastjóra Norsku hagstofunnar. Sú nefnd fjallaði um skattlagningu fyrirtækja. Hins vegar nefnd kennd við Arild O. Eidesen, dómara sem fjallaði um stýringu veiða með kvótum.

Auðlindaarður í norsku fiskeldi

Nauðsynleg forsenda skynsamlegrar umræðu um gjaldtöku af fiskeldi er að ákvarða hvernig hægt er að reikna út umfang auðlindaarðsins í greininni og talfesta þá stærð. Fiskistofan norska (Fiskeridirektoratet) birtir fjárhagslegar og aðrar tölulegar upplýsingar um fiskeldi árlega. 

Við gerð þessarar greinar höfðum við haft aðgang að gögnum um afkomu fiskeldis á árinu 2016. Við notum sama líkan og við höfum áður notað til að reikna út auðlindaarð í sjávarútvegi í Noregi og á Íslandi. Þeir útreikningar eru birtir í alþjóðlegu fagtímariti, Marine Resource Economics (2017). Í þessu líkani tökum við útgangspunkt í rekstrarhagfræðilegu hugtaki (hagnaður fyrir skatt, Earnings Before Tax, EBT). Það hugtak er útgangspunktur útreikninga okkar. Hugtakið hagnaður fyrir skatt fellur ekki að öllu leyti saman við auðlindaarðshugtakið. Með nauðsynlegum leiðréttingum er engu að síður hægt að reikna út umfang auðlindaarðsins. Hagnaður fyrir skatt er sá hluti rekstrarhagnaðar sem rennur til eigenda áður en skattur er greiddur. 

Til að finna hversu mikil umframarðsemin er þarf að taka tillit til vaxtakostnaðar eigin fjár sem bundið er í rekstrinum. Í Noregi er notast stjórnvöld við þjóðhagslega raun-ávöxtunarkröfu (Social Discount Rate) upp á 4%. Við notumst við þá vaxtakröfu gagnvart eiginfé fiskeldisfyrirtækjanna. Þar með er búið að reikna öllum aðilum sem koma að framleiðslunni réttláta greiðslu fyrir sitt framlag.

Þó þarf að taka tillit til þess að sum fiskeldisfyrirtæki hafa keypt réttinn til að staðsetja kvíar sínar þar sem þær eru af öðrum fyrirtækjum, sem upphaflega fengu réttinn afhentan endurgjaldslaust. Þau fyrirtæki sem þannig hafa keypt framleiðslurétt af öðrum fiskeldisfyrirtækjum færa þann rétt í efnahagsreikning sinn undir liðinn óefnislegar eignir. Þessi kaup kalla fram fjármagnskostnað hjá kaupendum sem þeir eðlilega hafa dregið fram sem kostnaðarlið þegar þeir reiknuðu út hagnað sinn (EBT). Tilsvarandi upphæð fjármagnstekna koma að sjálfsögðu fram hjá þeim aðilum sem seldu framleiðsluréttinn. En þeir aðilar, fyrrverandi eigendur framleiðsluréttar, eru ekki í samantekt Fiskistofunnar um EBT hagnað sem við notumst við. Fyrir þessu þarf að leiðrétta svo auðlindaarður í greininni verði rétt reiknaður. Við gerum það.

Auðlindaarður í norsku fiskeldi er samkvæmt útreikningi okkar 360 milljarðar íslenskra króna árið 2016 (25,5 milljarðar NOK). Það svarar til tæplega 260 íslenskra króna (18,22 NOK) á hvert kíló af slátruðum laxi og silungi það ár. Niðurstaðan getur rokkað til ár frá ári þar sem tekjur og útgjöld ráðast af breytilegi verði bæði aðfanga og afurða. Ef við notuðum aðra ávöxtunarkröfu en 4% myndi það hafa talsverð áhrif á niðurstöðuna. Sömuleiðis skiptir miklu hvernig samkeppnisstaðan er á afurðamarkaðnum. Þegar framleiðsla í laxeldi í Síle dróst saman vegna umfangsmikilla sjúkdómsvandræða stórbatnaði staða norskra útflytjenda.

Greitt fyrir frekari vöxt greinarinnar í Noregi

Reynslurök og fræðirök hníga til þess að mikil aukning norskrar framleiðslu á eldislaxi muni valda verðlækkun á helstu markaðssvæðum. Stjórnvöld hafa engu að síður ákveðið að heimila frekari vöxt greinarinnar, þó þannig að leyfishafar greiði fyrir ný eldisleyfi og fyrir viðbætur við fyrri heimildir. Fjármunir sem þannig er aflað renna í sérstakan Kvíaeldissjóð. Að loknu uppboði á nýjum eldisleyfum og stækkunum sumarið 2018 munu 25,5 milljarðar íslenskra króna renna til 160 sveitarfélaga. Líta má á þessar greiðslur auk 5 krónu framleiðslugjaldsins sem Atvinnuveganefnd er með til athugunar sem skatt á auðlindaarð sem náttúra og atvinnugreinin skapa. 

Frá hagfræðilegu sjónarmiði er mögulegt að hækka framleiðslugjaldið umtalsvert. Fimm krónur svarar til tveggja prósenta af auðlindaarði sem verður til við framleiðslu hvers kílós af sláturlaxi. Er skynsamlegt að auka þessa skattlagningu? Það er spurning sem Stórþing og ríkisstjórn eru kosin til að svara og verða að svara. Það verður áhugavert að fylgjast með hver niðurstaða þeirra varðandi skattlagningu fiskeldis verður.

Þórólfur Matthíasson er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Ola Flåten og Knut Heen eru báðir prófessorar emeriti við Heimskautaháskóla Noregs, Tromsö.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar