Ég hef ekki gert á því formlega könnun en grunar sterklega að ef fólk væri spurt hvenær Ísland varð sjálfstætt ríki myndu flestir svara því til að það hefði gerst 1944. Það er rangt. Það gerðist 1918. Frá 1918 til 1944 var Ísland sjálfstætt konungsríki í persónusambandi við Danmörku. Tengsl Íslands og Danmerkur líktust þannig sambandi Kanada og Bretlands. Það sem breyttist í stjórnskipaninni með lýðveldisstofnun var aðallega formsatriði þar sem konungur var hvor eð var orðinn valdalítill, bæði hér og í Danmörku. Engu að síður er 1944 stærra ár í hugum flestra en 1918. Hvers vegna?
Ég held að það sé vegna þess að á tíma sjálfstæðisbaráttunnar hafi Íslendingar verið búnir að telja sjálfum sér svo rækilega trú um slæm áhrif danskra yfirráða að hin formlegu sambandsslit urðu þeim nauðsynleg til að setja punktinn aftan við tímabil sem margir kölluðu „niðurlægingartímabilið“. Ísland varð í raun sjálfstætt ríki 1918 en mörgum fannst eins og fullt sjálfstæði væri ekki fengið fyrr en sambandið við Danmörku var rofið fyrir fullt og allt. Hið pólitíska sjálfstæði kom 1918 en hugmyndafræðilegur aðskilnaður ekki fyrr en 1944.
Sagan er ekki hlutlaust samsafn staðreynda. Hún hefur alltaf verið notuð í pólitískum tilgangi. Hugmyndin um niðurlægingartímabil undir danskri stjórn var pólitískt verkfæri í höndum sjálfstæðissinna. Þeir trúðu því að sjálfstæði væri best og því varð tími erlendra yfirráða að vera niðurlægingartímabil. Starf sagnaritara sjálfstæðishreyfingarinnar fólst einkum í því að búa til sögu fyrir Ísland sem féll að þessari hugmyndafræði. Sögu með glæstri „fornöld“ þegar landið var „sjálfstætt“ en hnignun og niðurlægingu undir erlendri stjórn og loks endurreisn með vaxandi sjálfsforræði. Þessi saga er tilbúningur.
Oft hafa ráðamenn þessa lands talið sjálfum sér og okkur hinum trú um að Ísland hafi verið fátækasta land Evrópu í lok 19. aldar, borið það saman við ríkidæmi nútímans og þakkað sjálfstæðinu breytinguna. Þetta er ósköp einfaldlega rangt. Ísland var ekki fátækasta land Evrópu og ríkidæmi nútímans stafar af iðn- eða nútímavæðingunni sem Ísland gekk í gegnum á svipaðan hátt og önnur lönd í okkar heimshluta. Sjálfstæði landsins kemur því máli ekkert við enda gefa hagtölur ekki til kynna nein sérstök áhrif af fullveldinu. Ísland auðgaðist í Seinna stríði en það stafaði af hernámi fremur en lýðveldisstofnun. Engu að síður vilja margir trúa þessari mýtu enda er hún heppileg fyrir þjóðernissinna.
Eftir að sigur vannst í sjálfstæðisbaráttunni, eins og það er oft orðað, þjónaði mýtan um niðurlægingartímabil ekki lengur upphaflegum tilgangi sínum en hún var orðin svo rótgróin að fólk tók hana einfaldlega í þjónustu annars konar hugmyndafræði. Í þessum síðari útgáfum hefur niðurlæging landsins t.d. verið kennd illmennsku yfirstéttarinnar, hömlum á athafnafrelsi eða slæmri meðferð á gæðum náttúrunnar, allt eftir uppáhaldsmálstað viðkomandi. Rök eða heimildir fyrir því að þess háttar óáran hafi verið meiri eða afdrifaríkari á Íslandi en annars staðar eru vandfundnar. Vissulega var yfirstétt á Íslandi en hún var síst áhrifameiri hér en annars staðar og ekkert bendir til að hún hafi verið verr innrætt. Vissulega voru ákveðnar hömlur á athafnafrelsi en samt ekki meiri en víða annars staðar og mjög hæpið að þær hafi hamlað þróun atvinnulífs. Líklegra er að sérkenni í atvinnulíf hafi stafað af strjálbýli og fólksfæð. Og vissulega hafði búseta mikil og jafnvel geigvænleg áhrif á náttúru landsins en ekkert bendir þó til að það hafi haft afgerandi áhrif á lífsbjörg fólks því hér bjó alltaf miklu færra fólk en landið gat framfleytt. Við búum gjarnan til þá sögu sem okkur finnst heppileg og við viljum trúa; sögu sem hentar okkar hugmyndafræði. Við búum til mýtur.
Sagnfræði getur átt erfitt uppdráttar í þessu umhverfi, einkum og sér í lagi þegar mýtur eru jafn ráðandi í söguvitund þjóðar eins og á Íslandi og reyndar mörgum öðrum löndum sem hafa nýlega öðlast sjálfstæði. Þessar þjóðir byggðu sína sjálfstæðisbaráttu á mýtugerð um skaðsemi erlendra yfirráða og þessar mýtur sitja eftir þótt sjálfstæði hafi náðst.
Enn er alsiða á Íslandi að horfa mjög neikvætt á eflingu konungsvalds á 16. og 17. öld. Þar eimir eftir af þeirri hugmynd að erlend yfirráð hljóti að vera slæm. En þótt margir hafi í orði kveðnu gert upp við þjóðernislega sagnaritun þá situr eftir mynd af hnignun, eymd og harðrétti. Þannig horfum við oftast framhjá því að með styrkingu ríkisvalds efldist réttarríki á Íslandi, í staðinn kjósum við að einblína á stóradóm og harðar refsingar þessa tíma. Við viljum lítið af því vita að ríkisvaldið takmarkaði völd yfirstéttarinnar en syrgjum frekar afnám Alþingis hins forna. Við horfum á dökku hliðarnar vegna þess að við höfum tamið okkur að líta neikvætt á þetta tímabil.
Við montum okkur líka oft af friðsemd þjóðarinnar en gleymum því að hún var í boði danska ríkisvaldsins sem einfaldlega stillti til friðar á Íslandi þegar það tók að eflast á 16. öld. Fram að þeim tíma er ómögulegt að kalla Íslendinga friðsama þótt fjarlægð frá öðrum löndum hafi að mestu hindrað átök við útlendinga. Þeir börðust bara sín á milli í staðinn. Hin frábæra friðsemd þjóðarinnar stafaði þannig af sterkara ríkisvaldi sem afvopnaði menn og bannaði þeim að berjast, nema þá í þjónustu ríkisins. Það sama gerðist á sama tíma í öðrum löndum í kringum okkur. En nú er þetta orðið að dygð sem við sláum okkur upp á; persónuleikaeinkenni sem við heimfærum upp á þjóðina alla í fortíð og nútíð. Það er líka mýta en hún hentar friðarsinnum ágætlega. Röng er hún engu að síður.
Sagan er miklu, miklu flóknari en margir gera sér grein fyrir. Sleggjudómar og pólitískar mýtur um fortíðina eru yfirleitt alltaf rangar. Spurningin er bara hvort við kærum okkur nokkuð um að vita hið rétta. Er kannski bara þægilegra og jafnvel gagnlegra að trúa heppilegum vitleysum? Nú þegar Ísland hefur verið sjálfstætt ríki í 100 ár er tilefni til að staldra við og hugleiða hvernig við búum til sögu okkar, hvernig við kjósum að trúa því sem hentar okkur best. Um þetta og fleira er fjallað í bók minni: Hnignun, hvaða hnignun? sem kemur út hjá Sögufélagi á næstu dögum.
Höfundur er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Hnignun, hvaða hnignun? sem Sögufélag gefur út. [Að stofni til er þetta erindið „Sagan sem tilbúningur“ sem var flutt á fyrirlestramaraþoni ReykjavíkurAkademíunnar á menningarnótt 18. ágúst 2018]