Við þurfum að tala um tjáningarfrelsið

Auður Jónsdóttir segir að á meðan að ekki sé betur búið að starfsskilyrðum fjölmiðlafólks sé vegið að tjáningarfrelsinu í landinu.

Auglýsing

Við þurfum að tala um tjáningarfrelsið. En við þurfum líka að tala um hvernig við búum sem best að því.

„Aðal­málið í öll­um frum­vörp­un­um er rýmk­un tján­ing­ar­frels­is,“ sagði Ei­rík­ur Jóns­son, pró­fess­or og formaður nefnd­ar um um­bæt­ur á sviði tján­ing­ar-, fjöl­miðla- og upp­lýs­inga­frels­is, þegar nefnd­in kynnti til­lög­ur að um­bót­um.

En tjáningarfrelsið er eitt, aðstaða fjölmiðlafólks annað. Meðan ekki er betur búið að starfsskilyrðum fjölmiðlafólks er vegið að tjáningarfrelsinu.

Auglýsing

Það er vegið að þeirri lífæð upplýsinga sem samfélagið þarfnast að sé gagnsæ, virk og margslungin – og fagmannleg – til að við séum sem best upplýst. Og að þær upplýsingar séu framreiddar eftir tilskyldum siðferðisviðmiðum og af raunverulegri fagmennsku. Það þarf líka að auðvelda blaðamönnum að nálgast upplýsingar, hið opinbera má ekki stuðla að slíkri upplýsingaleynd innan stjórnsýslunnar að fjölmiðlafólk geti ekki unnið vinnuna sína.

Upplýsingar eru eitt, að vinna úr þeim annað. Við lifum á tímum upplýsingamengunar, falsfrétta og svo örrar tækniþróunar að okkur berast stanslaust og ofurhratt upplýsingar. En misáreiðanlegar.  Við höfum varla við að skilja allt sem við heyrum og sjáum. Við skiljum ekki allar þessar upplýsingar né getum alltaf greint eftir hvaða leiðum og af hverju þær berast okkur.

Eitt eru upplýsingar úr gagnaleka, annað upplýsingar sem faglegar ritstjórnir eru búnar að vinna úr svo við fáum skilið þær almennilega og getum greint hismið frá kjarnanum.

Áhrifaaðilar út um allt reyna að hafa áhrif á hvernig unnið er úr upplýsingum. Sumir reyna að skrumskæla upplýsingar og aðrir reyna að stöðva þær. Það er reynt að hafa áhrif á í hvaða ljós og í hvaða samhengi þær eru settar.

Því verða styrkar ritstjórnir að fá að þrífast. Ritstjórnir sem búa yfir nægilegri fagmennsku og reynslu til að  vinna úr þessum upplýsingum og setja þær í samhengi fyrir okkur. Ritstjórnir sem láta ekki mata sig. Ritstjórnir sem þora að standa undir nafni, þrátt fyrir smæð kunningjasamfélagsins.

Ritstjórnir þurfa að hafa bolmagn til að geta stundað nauðsynlega og tímafreka heimildavinnu. Þurfa ráðrými til að framleiða eitthvað meira en smellufréttir – sem auglýsendur styrkja. Því er svo mikilvægt að tillögur mennta- og menningarmálaráðherra um endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla nái í gegn. Að það verði ekki staðið í vegi fyrir þeim.

Það er líka mikilvægt að Ríkisútvarpinu verði tryggður starfsgrundvöllur ef umsvif þess eru minnkuð á auglýsingamarkaði. Þannig samt að stofnunin haldi sjálfstæði sínu.

Úrlausnarefnin eru flókin á flóknum tímum. Rekstrarskilyrði fjölmiðla hafa breyst og halda áfram að breytast. Þau eru erfið og ófyrirsjáanleg. Við stöndum á bjargbrún nýrra tíma, tíma tæknibreytingar og alþjóðlegra áhrifa, og enginn veit hver verða rekstrarskilyrði morgundagsins. Því verðum við að vera meðvitaðir fjölmiðlaneytendur. Við verðum að hugsa um fjölmiðlana og stuðla að heilbrigði þeirra og margbreytni. Fjölmiðlarnir erum við – þeir eru um okkur og þeir eru samtal okkar. Birtingarmynd samfélagsins. Og ef fjölmiðlaumhverfið er ekki heilbrigt þýðir það að samfélagið er ekki heilbrigt.

Í óheilbrigðu samfélagi þykir sjálfsagt að það sé ráðist persónulega á fjölmiðlafólk, því hótað og vafasamar leiðir notaðar til að þagga niður í því. Það má ekki líðast. Og það má ekki vera eins konar þjóðarsport. Við sem almenningur getum fordæmt það.

Við getum fordæmt það að stjórnmálamenn neiti að tala við ákveðna blaðamenn. Getum fordæmt stjórnsýsluleynd. Getum fordæmt þöggun og kælingaráhrif. Við getum fordæmt það að fjársterkir sérhagsmunaaðilar nýti fjölmiðla sem áróðurstæki. Við þurfum að fordæma slíkt en líka styðja við vandaða fjölmiðlun. Með því að kaupa hana og styrkja hana. Og styðja stjórnmálamenn sem vilja styðja við starfsgrundvöll fjölmiðla.

Fjölmiðlarnir eru tækið okkar. Aðhaldið okkar. Tækið sem við höfum til að skilja samfélagið og heiminn og hjálpa okkur að hafa rödd. Ef það er veiklað veiklast samfélagið. Frjálslynt heilbrigt samfélag þrífst ekki án heilbrigðrar fjölmiðlunar.

Það er okkar að móta þetta samfélag. Og það gerum við í gegnum fjölmiðlana. En þeir verða að vera nógu burðugir til að geta staðið undir hlutverki sínum. Að standa vörð um virkt lýðræði og gagnsætt samfélag.  

Höfundur var ræðumaður á baráttufundi fyrir fjölmiðlafrelsi sem haldinn var á Austurvelli í gær. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit