Í dag eru sex ár liðin síðan Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Yfir 2/3 hlutar kjósenda lýstu stuðningi stjórnarskrána. Í lýðræðisríki ætti enginn vafi að leika á hvert yrði næsta skref. Þó hefur Alþingi Íslendinga ekki enn lögfest þessa nýju og endurskoðuðu stjórnarskrá fólksins. Henni er enn haldið í gíslingu stjórnmálaflokka sem virða ekki grundvallarreglur lýðræðis.
Enn er reynt að þæfa málið og nú undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Uppskriftin er hins vegar Sjálfstæðisflokksins og segir fyrir um að það skuli taka langan tíma að koma á breytingum, en flestir vita sem er að Sjálfstæðisflokkurinn vill stjórnarskrá fólksins einfaldlega feiga. Aðgöngumiði vinstri grænna að stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn er því dýru verði keyptur. Ekki aðeins fyrir flokkinn, sem e.t.v. má einu gilda, heldur fyrir fólkið í landinu. Íslenskt samfélag.
Ferlið sem forsætisráðherra hefur sett málið í lítilsvirðir lýðræðislega stjórnarhætti og gengur líka gegn sögulegum veruleika. Þekkt er að stjórnarskrár verða næstum alltaf til í kjölfar samfélagslegra áfalla og á tímum þjóðfélagslegrar ólgu. Jon Elster, einn fremstur fræðimanna heimsins sem rannsakað hafa tilurð stjórnarskráa segir um þetta:
„Gagnstætt hefðbundinni skoðun, þá eru stjórnarskrár sjaldnast skrifaðar á friðsömum og yfirveguðum tímum. Heldur, vegna þess að stjórnarskrár eru fremur skrifaðar á tímum samfélagslegs óróa, fylgja tímamótum stjórnkerfisbreytinga heitar tilfinningar og iðulega ofbeldi.“
Elster bendir jafnframt á að það opnast gluggi skamma stund eftir áföll þar sem samfélög eru reiðubúin að horfast í augu við erfiða hluti, en svo lokast hann aftur. Tækifæri til breytinga líða hjá. Íslendingar náðu að nýta sér tækifærið sem opnaðist eftir Hrun: Ný og endurskoðuð stjórnarskrá fæddist í löngu, fallegu og lýðræðislegu ferli. Hin fyrsta stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér sjálfir. Loksins! Loksins! Ljóst má vera að fyrirætlanir forsætisráðherra um víðtækt samráð við almenning um hugmyndir stjórnmálaflokkanna að breytingum á stjórnarskrá ganga ekki upp, því ekki er hægt að framkalla slíkt samráð upp úr þurru við tilbúnar aðstæður. Almenningur tók þátt í stjórnarskrárferlinu þegar færi gafst eftir Hrun. Endurskoðuninni er lokið.
Tímabært er að stjórnmálaflokkar sem vilja standa með lýðræðislegum stjórnarháttum og hagsmunum almennings gegn sérhagsmunum, taki höndum saman. Ekki dugar lengur að einn og einn þingmaður á stangli standi með málinu. Stjórnmálaflokkar þurfa að setja málið á oddinn og berjast fyrir því. Í alvöru.
Tímabært er að horfast í augu við að endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur farið fram. Þaulunnið frumvarp að nýrri stjórnarskrá lá fyrir Alþingi í mars 2013. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður hefur útlistað verkefnið sem eftir er, þar sem hann fjallaði um auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárinnar:
„Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameiginlegum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnarskrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.“
Efnislegar breytingar á tillögum að nýrri stjórnarskrá, sem kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu, geta því orðið þær sem öllum er augljóst að séu til bóta.
Þetta er verkefnið sem Alþingi stendur frammi fyrir og þarf að klára.
Höfundur situr í stjórn Stjórnarskrárfélagsins.