Starfsgetumat – Upp á líf og dauða

María Pétursdóttir skrifar um fyrirhugaða innleiðingu starfsgetumats.

Auglýsing

Í Bretlandi sviptu 90 öryrkjar sig lífi á mánuði fyrstu tvö árin eftir að vera dæmdir vinnufærir í starfsgetumati sem innleitt var þar í landi árið 2010. Hvers vegna? Jú þeir voru óvinnufærir, fatlaðir, langveikir, öryrkjar, fyrrum bótaþegar, lífeyrisþegar eða hvað við kjósum að kalla þá eða okkur sem ekki höfum heilsu til starfa á frjálsum vinnumarkaði. Þessir einstaklingar vissu að „jákvæða” starfsgetumatið væri dómur sem steypti þeim út í enn sárari fátækt en örorkan áður gerði og stefndi heilsu þeirra í voða. Í breska kerfinu voru þeir nú ekki skráðir öryrkjar lengur heldur langveikir í atvinnuleit án þess að möguleikar þeirra til atvinnuþátttöku hefðu aukist. Það sætir því engri furðu að Íslenskir lífeyrisþegar óttist starfsgetumat en ennþá rugla margir því saman við eitthvað jákvætt sem endurspeglar getu fólks fremur en vangetu.

Starfsgetumat eða með orðum forsætisráðherra „stórkostlegar breytingar á bótakerfinu” er þó ekkert annað en grimmúðleg aðför frjálshyggjuafla hins vestræna heims að velferðarkerfunum. Í okkar tilfelli sem margra annara þjóða velferðarkerfi sem byggt var upp af verkalýð og stjórnmálaforystu á fyrri hluta síðustu aldar og átti að tryggja sem mestan jöfnuð og velferð borgaranna. Starfsgetumat er rammpólitísk aðferð við að „fiffa til” exelskjal ríkisins og er komin frá Alþjóðastofnunum sem þóttu tíðni örorku á Vesturlöndum of há og sett í samhengi við örlæti. Á einhvern afkáralegan hátt matreiða mið- og hægrisinnuð stjórnvöld þetta með dassi af niðurskurðarstefnu sinni í heilbrigðismálum sem leið til jöfnuðar með því til dæmis að ætla sér að koma í veg fyrir bótasvik sem fólki er talið trú um að séu veruleg en eru hjóm eitt við hliðina á þeim upphæðum sem valdafólk og ríkir Íslendingar koma undan skatti.

Starfsgetumatið sjálft er í grunnin færnimat svipað örorkumati nema það er búið að þrengja það all verulega þrátt fyrir að vera þröngt fyrir . Þannig er það ekki endilega læknirinn þinn sem metur örorku þína í samráði við tryggingalækni heldur eru það teymi ýmissa fræðinga sem meta þig út frá þröngum viðmiðum og jafnvel geðþótta. Víða eru það einkafyrirtæki sem sérhæfa sig í starfsgetumati og hafa þau jafnan fjárhagslegan hag af því að úrskurða sem flesta vinnufæra. Ef einstaklingur á t.d. Bretlandi vill svo áfrýja úrskurði um vinnufærni getur það tekið kerfið allt upp í tvö ár að vinna málið og er viðkomandi tekjulaus á meðan en það vekur athygli að flest slík mál falla þeim langveika í vil sem ítrekar hvað þetta nýja kerfi er gallað.

Auglýsing

Starfsgetumat sem einnig hefur verið tekið upp í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi og Hollandi auk Bretlands og Ástralíu hefur tekist mis illa. Þessar þjóðir hafa farið aðeins ólíkar leiðir bæði hvað varðar matið sjálft og hvernig og til hvaða hópa það nær en hvergi hefur það gengið nægilega vel. Það sætir því furðu að íslenska ríkið ætli að stíga þetta skref hafandi slæmar fyrirmyndir allt í kringum sig.

Vinnan göfgar manninn

Við Íslendingar höfum löngum haft vinnusemi í hávegum en með þessari ofuráherslu eða upphafningu á vinnu er líf langveikra smættað enda geti fatlaðir vart átt innihaldsríkt líf ef þeir eru ekki á vinnumarkaði eða hvað? Merkilegt nokk þá á þessi krafa um að allir vinni sér stað á sama tíma og matvöruverslanir byrja að setja upp sjálfsafgreiðslukassa og Icelandair útrýmir hlutastörfum. Á Íslandi hefur ekkert verið gert ennþá til að krefja atvinnulífið um að auka möguleika fatlaðra á atvinnuþátttöku né vinna gegn fordómum á vinnumarkaði en rannsóknir sýna að langveikir eru mun síður ráðnir til starfa. Sama má segja um þá sem ekki hafa stundað vinnu til margra ára vegna félagslegra aðstæðna eða atvinnuleysis hvað þá ef komnir yfir miðjan aldur.

Starfsgetumat á Íslandi

Áform íslenskra stjórnvalda í þá átt að koma hér á starfsgetumati hafa verið augljós þó þess hafi verið gætt að tala ekki of mikið um þau opinberlega en ótalmargir öryrkjar koma ennþá af fjöllum þegar minnst er á matið. Enn ein nefndin um útfærslu starfsgetumatsins er nú starfandi innan velferðarráðuneytisins og afnám krónu á móti krónu ekki upp á borðum forsætis né velferðarráðherra enda sú krafa notuð sem kverkatak á öryrkjum til að knýja á að ÖBÍ leggi blessun sína yfir starfsgetumatið. Já þetta er efnahagsleg breyting, efnahagsleg breyta gerð í efnahagslegum tilgangi til að breyta ríkisbókhaldinu. Nei þetta er ekki gert í þágu velferðar og nei þetta hefur ekki verið kynnt almennilega meðal langveikra þó þarna sé mögulega verið að gambla með lífsafkomu þeirra.

Ef um óeðlilega fjölgun öryrkja væri að ræða eða þeir mjög óvirkir sem ekki virðist vera meinið hér á Íslandi væri kannski vit í að skoða þessa meintu þróun nánar en það að fjölgun innan vissra hópa, aldurs og kynja sé að aukast gefur okkur ástæðu til að skoða þjóðfélagsgerðina og þjóðfélagsbraginn og kanna hvað veldur. Kanna hvort breytt neyslumynstur eiturlyfja sé að valda aukningu á geðrænum veikindum, of langur vinnutími, of mikið álag á of lágum launum sé að sliga vinnandi fólk og það sé að slíta sér út fyrir aldur fram. Kanna hvers vegna unga fólkið okkar er þunglynt eða kvíðið eða er unga þunglynda fólkið kannski börnin með greiningarnar að verða fullorðið og ekki að höndla kröfur vinnumarkaðarins? Er unga fólkið þunglynt og kvíðið af því það kemst ekki að heiman af því að það kemur skuldum vafið út í lífið og hefur hvorki efni á því að kaupa eða leigja. Er vinnumarkaðurinn of grimmur og of ábyrgðarlaus? Hvaða munstur sjáum við og hvernig getum við breytt því öðru vísi en að svelta fólk frá örorku. Ef sá sem glímir við veikindi á að geta unnið þarf hann fyrst að vinna í því að ná heilsu ef mögulegt er og hann nær því illa ef hann þjáist stöðugt af afkomukvíða. Það er svo í sjálfu sér jákvætt að fólk geti unnið hlutastörf hafi það heilsu til en bara það eitt og sér má auka með því að afnema krónu á móti krónu skerðingum og aðgerðum úti í atvinnulífinu.

Endurhæfing

Auðvitað gagnast endurhæfing mörgum vel og ætti hún alltaf að vera í boði fyrir fólk sem glímir við heilsubrest. Að stilla henni einungis upp sem starfs-endurhæfingu er þó á margan hátt svo rangt því endurhæfing getur gagnast mörgum langveikum fyrst og fremst til að líða betur og lifa ekki við eilífar þjáningar. Að endurhæfing þurfi að hafa starfsgetumat sem endahnút er á sama tíma ákveðinn endahnútur á velferðinni sem slíkri. Enginn skal fá að vinna einungis í því að halda heilsu, allir skulu vera á vinnumarkaði í einhverju formi og eins og í Danmörku verður sennilega skrúfað algjörlega fyrir það að örorkuskrifa fólk undir fertugu hversu veikt sem það er.

Það er athyglisvert að á sama tíma og lögum um örorkumat og starfsemi Tryggingastofnunar hefur ekki verið breytt er VIRK starfsendurhæfing sem stofnuð var í kjölfar þess að forsætisráðuneytið ákvað að innleiða starfsgetumat farið að ráða því hvort einstaklingar fái örorkumat og undirstofnarnir þess bókstaflega farnar að framkvæma starfsgetumatið. Samskonar vandamál hafa risið í tengslum við VIRK og hafa verið gagnrýnd í t.d. Noregi þar sem starfsgetumatið hefur þó verið talið hafa tekist einna best upp vegna ríkrar hefðar fyrir velferð. Það eru hlutir eins og að þú skalt aldrei sjálfur eiga frumkvæðið að því að sækja um örorku. Slíkt er ávísun á synjun. Þá samþykkir tryggingastofnun ekki örorkumat þíns læknis ef læknir VIRK mælir ekki með örorku, jafnvel þó að læknir á vegum VIRK hafi aldrei haft þig til meðferðar né hitt þig. Þú færð synjun ef þú virðist of ákafur því þarna er ekki tekið inn í myndina að þú gætir haft raunhæfa mynd af eigin veikindum og getu heldur frekar talið að þú værir að reyna að svindla á kerfinu. Þú getur verið hjá hjartalækni eða geðlækni útí bæ sem metur þig óvinnufæran en VIRK ræður ferðinni nú þegar og ef það stendur í skýrslu frá þeirra endurhæfingaraðilum að þú getir kannski bara breytt um viðhorf og farið að vinna þá stendur það og TR synjar þér um örorku. Þunglyndi og kvíði eru frjálslega teygð hugtök og gerð að viðhorfum í meðförum misgáfulegra fræðinga í teymi. Í Bretlandi hafa það aðallega verið einstaklingar með geðraskanir og geðsjúkdóma sem hafa fengið synjun um örorku og engar vísbendingar eru um að þeir hafi fengið vinnu í kjölfarið svo við getum ímyndað okkur hvað varð um þá. Þá er sorgleg staðreynd að við séum farin að sjá slíkt hér á Íslandi líka án þess þó að búið sé að innleiða starfsgetumatið formlega og maður veltir fyrir sér hvaða öfl stjórni raunverulega framkvæmdinni.

Einkavæðing endurhæfingar

Afleiðingar starfsgetumatsins eru þær að einkareksturinn í endurhæfingabransanum blómstrar og er Holland gott dæmi um slíkt en þar eru atvinnurekendur og launafólk algjörlega ábyrgt fyrir fyrstu árunum sem einstaklingur þarf mögulega að taka út á örorku ef til þess kemur. Þá eru endurhæfingamiðstöðvar víða einkavæddar en hér á landi versla endurhæfingarstöðvar sem oftast eru sjálfseignarstofnanir svo aftur við einkareknar heilsuræktarstöðvar og aðra einkarekna meðferðaraðila. Við erum því ekki lengur að sjá ríki eða sameignarsjóð allra bera ábyrgð á velferð borgaranna heldur er heilsa og endurhæfing orðin verslunarvara. Sú kapítalíska þróun ber með sér margt ljótt.  

Nú þegar er örorkulífeyrisþegum gert að éta upp allar eignir sínar og ríki telja sig geta refsað þeim við minnstu tilraun til sjálfshjálpar. Þar er Ísland ekki undanskilið en þrátt fyrir að hafa byggt upp velferðar og bótakerfi hér á landi hefur það ekki verið fullkomið. Við Íslendingar höfum alltaf greitt öryrkjum lágar bætur og skerðingarnar verið háar. Bótakerfið okkar hefur fremur líkst því breska en því skandinavíska sem við tengjum gjarnan sósíalisma og því óttast ég verulega framtíðina og mögulegt mannfall ef ríkisstjórninni tekst ætlunarverk sitt og ef enginn fer að setja spurningarmerki við tilvist VIRK og vald þeirrar stofnunar yfir lífi fólks.

Hreinsanir á veiku fólki

Skandinavar drógu línu í sandinn en bretar gengu alla leið og sendu hvern einasta öryrkja í landinu í starfsgetumat með þeim afleiðingum og því manntjóni sem við heyrum reglulega af. Nánast alls staðar hefur einnig dregið úr þjónustu við fatlaða og henni komið yfir á sveitarfélög með þeim afleiðingum að foreldrar fatlaðra barna flytja með þau landshlutana á milli í leit að velferð og víða komast fatlaðir ekki út undir bert loft daglega vegna skorts á þjónustu eða fá þeir næga framfærslu til að eiga í sig og á. Hvernig ætlar ríkisstjórnin okkar raunverulega að matreiða slíka hreinsun hér á Íslandi?

Um leið og ég fagna ályktun ÖBÍ sem skorar á stjórnvöld að efla núverandi kerfi örorkumats og hafna tilraunakenndu starfsgetumati hvet ég stjórnmálamenn til að hlusta á sjúklingafélög annara landa sem og ÖBÍ og hafna þeirri grimmu niðurskurðarstefnu sem þarna liggur að baki því sagan á ekki eftir af fara fögrum orðum um þessa framkvæmd.  

Höfundur er örorkulífeyrisþegi, myndlistamaður og kennari.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja
Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins.
Kjarninn 23. júní 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar