Auglýsing

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðu um vefsíðuna Tekjur.is og birtingu hennar á upplýsingum um tekjur landsmanna samkvæmt skattskrá síðastliðna viku. Augljóslega er heimild í lögum um tekjuskatt til að birta slíkar upplýsingar opinberlega en þau lög eru frá árinu 1984 og því lögfest fyrir tíma internetsins. Þá er til staðar vafi hvort að opinber birting gagnagrunnsins á tekjuupplýsingunum gegn gjaldi samrýmist lögum um Persónuvernd. Því hljóta allir að vera sammála um að það sé gott að þeim vafa sé eytt. Það eitt ætti að nægja til að framtakið hafi, að minnsta kosti að einhverju leyti, þjónað tilgangi.

Þá er líka gott og eðlilegt að takast á við þá spurningu hvort að í skattskránni sé að finna upplýsingar sem eigi erindi við almenning og hvort að birting þeirra bæti samfélagið okkar.

Valin hópur frjálshyggjumanna sem segist vanalega vera á móti allflestum boðum, bönnum og eftirliti í nafni persónufrelsis fylltist heilagri vandlætingu, kvartaði til eftirlitsstofnana og heimtaði lögbann á birtingu upplýsinganna. Um er að ræða að hluta til sama hóp og kvartar ítrekað yfir pólitískum rétttrúnaði frjálslynda „góða fólksins“ sem sé troðið ofan í þá með valdboði og tilheyrandi skerðingu á tjáningarfrelsi.

En þegar kemur að rétti ríkra til að leyna því hversu stór hluti af tekjum þeirra eru fjármagnstekjur þá breytast þeir í framsækna réttlætisriddara sem krefjast þess að hið opinbera beiti valdboði til að verja frelsi fjármagnseigenda til að leynast, sem þá trompar frelsi annarra til að vita.

Auglýsing
Sú afstaða er líka áhugaverð í ljósi þess að lítið hefur borið á baráttu sömu frjálshyggjumanna fyrir auknu viðskiptafrelsi í til dæmis sjávarútvegi, þar sem eignarhald erlendra fjárfesta er takmarkað með lögum. Þvert á móti snýst frelsisbaráttan þar um rétt þeirra örfáu einstaklinga sem halda nú á veiðiheimildum, og erfingjum þeirra, til að halda þeim óáreittir áfram eða selja sín á milli í lokuðu kerfi. Oftar en ekki með lánsfé úr ríkisbönkum, og þar af leiðandi frá skattgreiðendum. 

Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að upplýsingarnar sem Tekjur.is birtu sýna að margir þeirra sem höfðu hæstu fjármagnstekjurnar á Íslandi árið 2016 voru annarrar kynslóðar eigendur útgerðarfyrirtækja sem voru að selja þau fyrir milljarða hagnað. Undirstaðan í þeim verðmætum eru heimildir til að veiða nytjastofna á Íslandsmiðum, sem samkvæmt lögum landsins eru „sameign íslensku þjóðarinnar“. 

En þegar gæslumenn þeirra heimilda selja þær með gríðarlegum hagnaði þá kemur það sömu þjóð og á nytjastofnana ekki við hvað þeir fá fyrir. Í nafni persónufrelsis er það „trúnaðarmál“.

Óbjöguð mynd af tekjum landsmanna

Áratugum saman hefur tíðkast að gefa út, og selja, sérstök tekjublöð hérlendis sem byggja á álagningarskrá ríkisskattstjóra þar sem tekjur Íslendinga eru áætlaðar út frá greiddum opinberum gjöldum. Þeir sem það gera birta síðan sannarlega hluta þeirra upplýsinga á internetinu. Þar er gengið út frá að allir Íslendingar séu launafólk sem greiði háan tekjuskatt af þeim auk útsvars og tekjur reiknaðar út frá því. Embætti ríkisskattstjóra tekur þátt í leiknum og hefur samhliða stundað það að senda út lista yfir 20-40 hæstu greiðendur opinberra gjalda til allra fjölmiðla landsins, sem hafa birt þann lista.

Sá listi, og álagningarskráin í heild, sýnir þó bjagaða mynd af tekjum landsmanna.

Þær upplýsingar sem birtast á vefnum Tekjur.is eru mun nákvæmari útgáfa af tekjum okkar, enda hægt að sjá hversu stór hluti launa Íslendinga eru launatekjur og hversu stór hluti eru fjármagnstekjur.

Þessar upplýsingar eru því mun betri grundvöllur fyrir ígrundaða samfélagsumræðu um tekjuskiptingu í samfélaginu en þær sem ríkisskattstjóri sendir árlega á fjölmiðla landsins, og starfsfólk tveggja fjölmiðla tekur saman í blöð til að selja almenningi.

Launaleynd var afnumin með lögum árið 2008 og því eiga tekjur landsmanna ekkert að vera neitt leyndarmál. Stjórnvöld og atvinnulíf segjast líka, að minnsta kosti í orði, vera að berjast fyrir því að kynbundnum launamun verði eytt. Nú geta konur flett því upp hvað karlar í sömu stöðu eru með í laun og séð það svart á hvítu hvort verið sé að mismuna þeim á grundvelli kynferðis. Og þannig flýtt fyrir að sá ósanngjarni munur sé brúaður hratt.

Þá liggur fyrir, líkt og greint er frá á síðunni, að yfirlýstur tilgangur hins opinbera með birtingu upplýsinga úr skattskrá er sá „að veita skattgreiðendum aðhald og gefa almenningi kost á að koma ábendingum á framfæri ef grunur leikur á skattaundanskotum einstaklinga.“ 

Tekjuhæstu borga ekki endilega hæstu skattanna

Í umfjöllun Kjarnans um gögnin sem vefsíðan byggir á kom í ljós að alls voru 137 Íslendingar með fjármagnstekjur yfir 100 milljónum króna á árinu 2016, 54 voru með yfir 200 milljónir króna í slíkar tekjur og 33 þénuðu yfir 300 milljónir króna á þann hátt. Alls voru fjármagnstekjur 22 einstaklinga yfir 400 milljónir króna á árinu 2016 og 16 voru með yfir hálfan milljarð króna í slíkar tekjur.

Sex Íslendingar þénuðu meira en milljarð króna í fjármagnstekjur á árinu 2016, þrír yfir tvo milljarða króna og tveir voru með yfir þrjá milljarða króna í fjármagnstekjur. Til samanburðar voru heildarárslaun meðallaunamanns um sjö milljónir króna á því ári, ef miðað er við miðgildi launa.

Auglýsing
Þetta skiptir máli og á sannarlega erindi við almenning. Þ.e. að það sé til stór hluti landsmanna sem gefur upp lág eða jafnvel engin laun og greiðir fyrir vikið rúmlega helmingi lægra hlutfall tekna sinn til hins opinbera en venjulegt launafólk. Það er nefnilega þannig að launafólk þarf að greiða allt að 46 prósent af launum sínum til hins opinbera, að meðtöldu útsvari, á meðan að fjármagnseigendur greiddu einungis 20 prósent, sem var hækkað í 22 prósent um síðustu áramót, og sleppa við útsvarsgreiðslur.

Svo eru það peningarnir sem eru faldir

Utan þeirra tekna sem koma fram í íslenskri skattskrá þá skulum við muna að mjög margir íslenskir fjármagnseigendur hafa kosið að fela digra sjóði erlendis. Þeir sjást ekki í íslenskum skattframtölum. Það birtist skýrt í Panamaskjölunum sem sýndu að íslenskir stjórnmálamenn, flest fyrirferðarmesta athafnafólk landsins, dæmdir glæpamenn og fjölmargir aðrir kusu að geyma fjármuni í aflandsfélögum. Tvær ástæður er fyrir því: að sleppa við að borga skatta eða til að fela peninga af einhverjum ástæðum, t.d. fyrir kröfuhöfum eða ættingjum.

En þessi skjöl opinberuðu einungis brot af aflandsfélagamyndinni sem Íslendingar höfðu teiknað upp fyrir hrun. Í grein sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, skrifaði í Vísbendingu í september velti hann fyrir sér þeirri spurningu hvað hefði orðið um þá þúsundir milljarða sem teknir voru að láni af íslensku bönkunum fyrir bankahrun, en aldrei endurgreiddir. „Í ljós kom að ekki hefur verið gerð til­raun til þess að finna þessa pen­inga. Það sem liggur fyrir er að eig­endur bank­anna lán­uðu sjálfum sér og eigin eign­ar­halds­fé­lögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af láns­fénu tap­að­ist í erlendum fjár­fest­ingum og hversu miklu var komið undan í skatta­skjól.“

Heilbrigðisvottorð á „skítugt fé“

Það sem liggur hins vegar fyrir er að þessi hópur hefur fengið að koma heim með þessa peninga sem þeir földu í aflandsfélögunum áður en íslenska efnahagskerfið hrundi. Það var meðal annars gert í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Sú leið var draumi líkust fyrir þá sem áttu „skítugt“ fé, sem hafði annað hvort verið komið undan skattgreiðslum eða falið fyrir kröfuhöfum. Með því að færa það aftur í gegnum fjárfestingarleiðina gátu þessir aðilar leyst út tugprósenta gengishagnað, fengið virðisaukningu sem Seðlabankinn sá þeim fyrir og heilbrigðisvottorð á peninganna. Þá gátu þeir notað til að kaupa eignir á brunaútsölu á Íslandi. Alls fengu innlendir aðilar 72 millj­arða króna fyrir þann gjald­eyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur sam­kvæmt skil­málum útboða fjár­fest­ing­ar­leið­ar­inn­ar. Afslátt­ur­inn, eða virð­is­aukn­ing­in, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjald­eyr­inum á skráðu gengi Seðla­bank­ans er um 17 millj­arðar króna. Seðlabankinn neitar að upplýsa hverjir það voru sem fengu að njóta þessara gæða.

Auglýsing
Starfshópur um eignir Íslendinga á aflandssvæðum velti þessu fyrir sér í skýrslu sem var tilbúin fyrir kosningarnar 2016 en var stungið undir stól fram í janúar 2017. Þar sagði orðrétt: „Miðlun upp­lýs­inga um fjár­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­taka í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­bank­ans er ekki til stað­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­bank­ans þegar um grun­sam­legar fjár­magnstil­færslur er að ræða. Æski­legt má telja að sam­starf væri um miðlun upp­lýs­inga á milli þess­ara stofn­ana.“

Embætti héraðssaksóknara hefur síðar sagt að eftir því sem næst verður komist þá hafi ekki borist neinar tilkynningar frá bönkum um mögulegt peningaþvætti vegna þeirra sem nýtt sér fjárfestingarleiðina.

Aðlögun krónuveruleikans

Fjármagnshöft voru svo afnumin í fyrra. Síðan þá hafa þessir aðilar getað losað peninganna sína úr fjárfestingum hérlendis og fært þá aftur til útlanda án vandkvæða.

Íslenska krónan hefur veikst mikið það sem af er ári. Þar af hefur hún veikst mjög hratt síðustu vikur, eða um tólf prósent frá því í lok júlí. Sú þróun leiðir af sér skert lífsgæði, aukna verðbólga og hækkun lána fyrir okkur sem neyðumst til að búa í krónuveruleikanum. Engin virðist geta fest nákvæmlega fingur á hvað hafi orsakað þessa veikingu.

En sagan sýnir okkur að þeir sem eiga mikið af fjármunum og hafa oftar en ekki betri aðgengi að upplýsingum og tækifærum, eru þeir fyrstu til að yfirgefa íslenskt efnahagskerfi þegar niðursveiflan byrjar. Sá hópur er vanur því að græða bæði í uppsveiflu og niðursveiflu, en láta launafólkið um að taka út aðlögunina í gegnum sín lífskjör. Því er ekki útilokað að flótti þeirra út úr íslensku efnahagskerfi útskýri veikinguna að hluta.

Er vilji til að breyta kerfum?

Gögnin sem Tekjur.is birtu varpa ljósi á anga samfélagsgerðarinnar sem hefur verið hulinn hingað til. Meiri upplýsingar geta varla verið vondar fyrir almenning sem þarf að móta sér skoðanir á t.d. skattkerfinu þegar hann mætir á kjörstað hverju sinni.

Til viðbótar hafa stjórnvöld sýnt það í verki að ekki var til staðar vilji til að sækja stærstan hluta þess fjár sem var tekið með ólögmætum hætti út úr bönkum fyrir hrun. Þau hafa líka sýnt að þau hafa frekar viljað liðka fyrir því að „skítugt fé“ komist aftur til landsins, handhöfum þess til hagsbóta, en að láta þá sem komu því undan sæta upptöku þess.

Samandregið liggur fyrir að til staðar er vilji í kerfum íslenskrar stjórnsýslu til að leyfa fjármagnseigendum að leynast og vilji til að leyfa þeim að komast upp með að fela peninganna sína. 

Nú er eðlilegt að stjórnmálin taki afstöðu til þess hvort að þetta séu kerfi sem þau standi á bak við eða hvort þau vilji breyta þeim.

Mjög áhugavert verður að fylgjast með þeirri umræðu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ríkisstjórnin héldi ekki þingmeirihluta sínum ef niðurstöður kosninga yrðu í takt við nýja könnun Maskínu.
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju einungis 30 þingmenn samkvæmt nýrri könnun Maskínu
Í nýrri könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis dalar fylgi Sjálfstæðisflokksins um tæp þrjú prósentustig. Ríkisstjórnin myndi ekki halda þingmeirihluta sínum, samkvæmt könnuninni.
Kjarninn 28. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari