Þegar Katrín Jakobsdóttir segir þráfaldlega að evran sé „engin töfralausn“ gefur hún þar með í skyn að einhver haldi því fram að svo sé. Hún lætur að því liggja að fólk sem vill taka upp nýjan gjaldmiðil aðhyllist nokkurs konar barbabrellu-hagfræði, sjái bara einn óraunhæfan kost. Sjálf vill hún, hvað sem á gengur, halda í krónuna, sem þar með sé á einhvern hátt raunhæfari kostur.
Kannski býr hér að baki „ómöguleikakenningin“ sem er helsta framlag núverandi fjármálaráðherra til íslenskrar stjórnmálahugsunar.
Viðbárurnar eru ýmsar en þó alltaf svipaðar. Einu sinni var alltaf sagt að ESB væri „ekki á dagskrá“ eins og þjóðlífið sé fundur með stífri fundarstjórn. Og svo þegar augljóslega var ekki hægt að þrástagast lengur á því fengum við að heyra að ekki væri „hægt bara að fá að kíkja í pakkann,“ eins og kjarabætur almennings á Íslandi séu jólagjafir uppi í skáp. Fyrir vikið fékk þjóðin aldrei að sjá hvað ESB-aðild myndi þýða fyrir þjóðarbúskapinn og kjör landsmanna. Og við fáum enn ekkert að vita, nema náttúrlega þetta; að evran sé engin töfralausn.
Sem er alveg rétt. Evran er ekki töfralausn á öllum vanda sem fylgir þjóðarbúskap lítils samfélags í stóru landi. Þau sem hafa talað fyrir upptöku hennar hafa enga glýju í augunum hvað það varðar. Hins vegar ríkir oftrú á krónunni sem gjaldmiðli hjá íslenskum ráðamönnum. Hún lýsir sér meðal annars í þeim forsendum fjárlaga og fjármálaáætlunar að hér haldist stöðugt raungengi. Þær eru þegar brostnar. Þegar við í Samfylkingunni bentum á að þessar forsendur væru óraunhæfar fengum við þau svör að evran væri engin töfralausn.
Sem er svo sannarlega alveg rétt. En þá er vert að muna að krónan er engin töfralausn heldur, eins og mætti ætla af málflutningi áhangenda hennar. Gengi krónunnar er að vísu stundum sjónhverfingum líkast, út og suður, en hún ræður illa við að skapa landsmönnum heilbrigt og stöðugt hagkerfi, hentar þeim mun betur auðmönnum og bröskurum sem hagnast á sveiflum hennar. Krónunni fylgir hálfgert hamfara-hagkerfi. Óstöðugu gengi krónunnar fylgir að fyrirtæki, stór og smá – og heimili – geta ekki gert áætlanir um fjárfestingar nema með samningum til að tryggja rétt kaupanda en einkum seljanda sem við köllum í daglegu tali verðtryggingu.
Krónunni fylgir hærra verðlag en ella – á mat og annarri nauðsynjavöru en líka á peningum, sem við köllum í daglegu tali vexti. Krónan kann að virðast hentug og sveigjanleg til sveiflujöfnunar en í raun og veru er það hún og tilvist hennar sem skapar stóran hluta af þeim miklu efnahagssveiflum sem við búum við. Hún er sjálfur óstöðugleikinn. Það er ekki tilviljun að víðast hvar í löndunum kringum okkur er evran notuð sem gjaldmiðill, ýmist hún sjálf eða þá með beinni tengingu við gengi hennar. Það er ekki vegna þess að þjóðir norður-Evrópu aðhyllist unnvörpum töfralausnir eða séu mikið barbabrellu-fólk í hagstjórn. Öðru nær.
Íslenska jójó-krónan er alltaf á fleygiferð en aldrei þar sem hún ætti að vera. Hún er ýmist of hátt uppi eða svo langt niðri að það jafngildir stórkostlegum kjaraskerðingum fyrir almenning sem fær að heyra að honum sé nær að hafa keypt flatskjá. Þetta kjaraskerðingareðli gengisfellinga er stundum kallað „hagstjórn“ á fínu máli og er meðal þess sem sameinar núverandi stjórnarflokka, sem vilja standa vörð um góð rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja og möguleika stjórnvalda til að skerða lífskjörin, hækka vexti og verð á nauðsynjum, tryggja hátt verð til framleiðenda, sem er sú verðtrygging sem þessum flokkum er kærust, hvað sem líður heimilunum.
Hins vegar hefur komið fram þráfaldlega að undanförnu að VG sé mjög andvígt Nató.