Sameinuð getur alþýðan lyft grettistaki - bætt lífskjör og komið á réttlátara samfélagi. Sundrað í smáfylkingar verður alþýðufólk létt bráð fjármálaöflunum sem beita öllum ráðum til að halda völdum og auka auð sinn. Þetta eru gömul sannindi og ný.
Alþýðusamband Íslands er breiðfylking launafólks á almennum markaði og fyrir margt löngu var slitið á tengsl sambandsins við ákveðinn stjórnmálaflokk til að sameina launafólk þvert á alla flokka. Þannig er innan vébanda aðildarfélaga Alþýðusambandsins fólk úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Sósíalistaflokki - og yfirleitt öllum flokkum. Þar eru anarkistar og Píratar og þar eru gamlir þreyttir karlar og ungar reiðar konur. Þar eru líka gamlar þreyttar konur og ungir reiðir karlar. Þar er frjálslynt fólk og þar er íhaldssamt fólk. Þar er fólk með lágar tekjur og erfiðar aðstæður og þar er millilaunafólk og jafnvel fólk með tiltölulega háar tekjur.
Við, fólkið í Alþýðusambandinu, eigum eitt sameiginlegt. Við erum launafólk – þiggjum laun hjá launagreiðendum og höfum myndað í félög til að verja sameiginlega hagsmuni okkar. Samtakamáttur okkar er mikill þegar við leggjumst öll á eitt. Ef hins vegar tekst að kljúfa okkur í fylkingar brotnar öll samstaða og launagreiðendur og samtök þeirra ráðast að okkur - einu og einu í senn - og ráða örlögum okkar.
Hagsmunir fólks - ekki formanna
Forystuhlutverk Alþýðusambandsins er mikilvægt. Því hefur verið reynt að velja forystu þess í áratugi þannig að hún endurspegli sem best vinnumarkaðinn, landshlutana, kynin og atvinnugreinarnar. Með þessu er reynt að tryggja að sjónarmið Alþýðusambandsins endurspegli sem best þau sjónarmið sem samstaða er um – sem fjöldinn innan Alþýðusambandsins er reiðubúinn til að berjast fyrir.
Það þýðir að Alþýðusambandið er kannski ekki alltaf róttækasta aflið – með háværustu röddina eða mestu kröfurnar. Á hinn bóginn eigum við að geta reiknað með að nokkuð skýr samstaða sé meðal fólksins í Alþýðusambandinu um markmiðin. Við eigum líka að geta treyst því að kröfur Alþýðusambandsins byggi á málefnalegri vinnu – að farið hafi verið yfir málin á þingum okkar og fundum og þau skoðuð frá öllum hliðum og að samstaða sé um markmiðin. Kröfur okkar eiga að koma frá fólkinu í Alþýðusambandinu.
Fólkið í Alþýðusambandinu er lykilhugtak – sem því miður gleymist oft. Verkalýðsfélögin voru stofnuð af fólki og um fólk. Ekki um formenn. Verkalýðsfélögin stofnuðu síðan Alþýðusambandið – um fólk. Um lífskjör fólks - drauma þess og markmið. Ekki um frægð forystumanna og metorð. Störf Alþýðusambandsins eiga því að snúast um fólkið innan Alþýðusambandsins og hagsmuni þess.
Forysta verkalýðsfélaganna hefur fyrst og fremst skyldur við félagsmenn sína og hagsmuni þeirra. Það er því mikilvægt að félögin nái að stilla saman strengi í komandi baráttu. Í þeirri hríð verður að taka tillit til allra og sætta sjónarmið. Þannig verður unnt að taka slaginn með breiðfylkingu alls fólksins innan Alþýðusambandsins.
Starf í verkalýðshreyfingunni er oft ekkert sérstaklega spennandi. Það er mikið um fundarhöld, samtöl og ráðstefnur og mörgum finnst tímanum illa varið. Bara eitthvað tilgangslaust þras og röfl. En tilgangurinn er einmitt að reyna að finna einhvern samnefnara sem flestir geta sameinast um.
Það er nefnilega þannig að þó einhverjum snillingum finnist þeir hafa leyst alla lífsgátuna þá eru aðrir ekki á sama máli. Ef menn taka síðan slaginn við auðvaldið í mismunandi fylkingum sem allar hafa höndlað stóra sannleikann – bara hver á sinn hátt – er eftirleikurinn fyrirsjáanlegur. Almennir félagsmenn verkalýðsfélaganna borga brúsann með lakari árangri.
Höfundur býður sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands.