Til skamms tíma var tekjum Íslendinga svo háttað að fáir höfðu mjög verulegar tekjur miðað við allan fjöldann, og hlutur þeirra tekjuháu í heildartekjum landsmanna var hverfandi; hafði lítil áhrif á afkomu þjóðarbúsins. Á þeim tíma var eðlilegt að menn teldu að kjarasamningar -- sem réðu þá tekjum flestra launamanna -- hefðu úrslitaáhrif á afkomu þjóðarbús og að skattar á þær tekjur vægju þungt í afkomu ríkissjóðs. Fjármagnstekjur voru aukinheldur litlar og hálar í hendi eins og laxinn, vegna verðbólgunnar sem ríkti hér áratugum saman.
Bæði málsvarar vinnuveitenda og hagfræðingar landsmanna beittu þessum rökum óspart í umræðum um kjarasamninga. Annars vegar var sagt að þjóðarbúið þyldi ekki hærri launagreiðslur til almennra launamanna og hins vegar að tilgangslaust væri að hækka skatta hinna ríku af því að þeir væru svo fáir.
En nú eru aðrir tímar.
Við sáum glöggt merki um upphaf þessarar þróunar þegar þau boð voru látin út ganga á árunum fyrir hrun að einn hrunverjinn hefði haft 30 milljarða í árstekjur. Sennilega hafa fáir skilið þau skilaboð til hlítar, en þau þýða að árstekjur eins manns hefðu dugað til að greiða hverju mannsbarni á Íslandi um það bil 100 þúsund krónur --- eða 6 þúsund fátæklingum 5 milljónir hverjum. -- Þetta var þannig eitt fyrsta dæmið um að tekjuöflun hinna ríku var farin að skipta verulegu máli í þjóðarbúinu -- gjáin var byrjuð að breikka.
------------------------
Tekjumynstur þjóðarinnar hefur gerbreyst á síðustu áratugum. Aldraðir, öryrkjar og annað fátækt fólk situr eftir með skarðan hlut en hinir ríku verða enn ríkari og tekjur þeirra vega nú miklu þyngra í þjóðarbúinu en áður var.
-------------------------
Við þessa nýju mynd bætist að málsvari hinna ríku -- Sjálfstæðisflokkurinn -- hefur lengst af stýrt skattakerfinu, leynt eða ljóst, þannig að skattar lágtekjufólks hafa hækkað hlutfallslega meira en annarra, og skattar á þá ríku hafa hins vegar verið í skötulíki, til dæmis miðað við löndin kringum okkur. Skattakerfið hefur þannig verið notað til að skapa enn meiri ójöfnuð en áður í nettótekjum eftir skatt.
Skattar í heild hafa heldur ekki aukist eins og þörf hefði verið á, til dæmis til að að við héldum í við nágrannalöndin í ýmiss konar opinberri þjónustu. Þess vegna er það næstum daglegt brauð að opinberar stofnanir kvarta yfir því að þurfa að skerða þjónustu sína þó að almenningur í landinu kalli eftir henni hástöfum og hafi metnað til að efla hana. Þetta á bæði við um samgöngukerfið, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og skólakerfið.
Eitt nýjasta dæmið um fljótræði af þessum toga er stytting framhaldsskólans sem var afurð niðurskurðarkreddunnar, svo vanhugsuð að öflugir og virtir skólar hafa þráast við að framkvæma hana, enda var þar eingöngu verið að hugsa um ímyndaðan fjárhagslegan ávinning sem kemur vitanlega bara niður annars staðar. Vonandi verður önnur Lilja kveðin fljótlega.
Á bak við þrástef niðurskurðarins glittir í annan draug nýfrjálshyggjunnar, einkavæðinguna sem er oft líka kölluð einkavinavæðing (kært barn á sér mörg nöfn, segja Danir). Reynsla síðustu áratuga vísar okkur þó skýrt og skorinort í hina áttina því að einkavæðingunni fylgir enn meiri spilling og sóun en í opinberum rekstri.
-----------------
Tekjuöflun hins opinbera er orðin of lítil og starfsemi ríkis og sveitarfélaga svelt um of. Sköttum er ekki nægilega beitt til tekjujöfnunar. Hátekjuskatt mætti nota á margan hátt til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
---------------
Óvenju mikil spenna ríkir nú í aðdraganda kjarasamninga. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar gera þó ekki annað en að endurspegla það ástand sem hér var lýst. Hreyfingin bendir með góðum rökum á varhugaverða þróun síðustu tveggja til þriggja áratuga og vill að hún verði stöðvuð og henni snúið við þannig að launa- og skattamál hér á landi færist í átt til sama horfs og ríkir á hinum Norðurlöndunum, og ýmsar aðrar þarfar breytingar mundu þá fylgja í kjölfarið, svo sem bætt heildarlífskjör láglaunafólks, aldraðra og öryrkja. Mörgum er vonandi ljóst að þessar kröfur snúa að breyttri skiptingu kökunnar sem kallað er, en gera ekki ráð fyrir því að allir fái sömu hlutfallslegu hækkun tekna. Ef slíkt mundi gerast yrði það alltént ekki í boði verkalýðshreyfingarinnar. Áhyggjur af einhvers konar óviðráðanlegum kollsteypum eiga því ekki að beinast að henni.
Ein veigamesta krafan er sú að marktækt átak verði gert í húsnæðismálum með byggingu íbúðarhúsnæðis sem henti ungu og efnalitlu fólki, hvort sem er til leigu eða eignar. Miklu varðar að byggt verði sem mest af leiguhúsnæði í félagslegri eigu, án þess að græðgi eigenda komi við sögu. Áður ríkti sú stefna að húsnæði íslenskra fjölskyldna ætti að vera sem mest í eigu þeirra, en sú séreignarstefna beið gjaldþrot í hruninu þegar verðmæti húsnæðis lækkaði stórum en skuldir héldu áfram að hækka eða stóðu í stað. Vert er að taka eftir því að hagfræðingar landsins virðast ekki amast við áhrifum þessarar kröfu verkalýðshreyfingarinnar á þjóðarbúið enda er hún augljóslega til góðs, ekki síst ef samdráttur verður í atvinnulífinu að öðru leyti.
Önnur hávær krafa er að undið verði ofan af því óréttlæti í skattakerfinu sem lýst var hér á undan og hefur vaxið á fjósbitanum við bakdyrnar, án þess margir tækju eftir því aðrir en þeir sem vildu hafa það svo. Þessi krafa er vissulega líkleg til að valda nokkrum skylmingum en hún er hins vegar engan veginn líkleg til þess að skapa neinn usla í þjóðarbúinu.
Mörgum hefur orðið starsýnt á kröfur Starfsgreinasambandsins um talsverða hækkun lágmarkslauna, og ýmsir vilja gera mikið úr áhrifum þeirra á þjóðarbúið. Mönnum yfirsést þá í fyrsta lagi að ekki er gert ráð fyrir að settu marki verði náð á augabragði, heldur á þremur árum eða svo. Í öðru lagi þurfa menn að taka til greina að miðað er við fasta krónutöluhækkun í öllum launastiganum en ekki prósentuhækkun eins og yfirleitt hefur tíðkast hingað til. Þessi breyting sætir tíðindum í sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar og það væri mikið gæfuspor ef takast mætti að viðhafa þessa aðferð í kjarasamningum, þó ekki væri nema einu sinni í leiðréttingarskyni.
-----------------
EF ríkisstjórnin lætur til sín taka í kjaramálum eins og henni ber, til jöfnuðar og sanngirni, þá þurfum við engu að kvíða.
-----------------
Að lokum vil ég biðja lesandann að hugsa sig um tvisvar áður en hann tekur undir með þeim sem ala á svartsýni vegna hugmynda verkalýðshreyfingarinnar um komandi kjarasamninga. Í þessum hugmyndum er margt að finna sem horfir til betri vegar í samfélaginu almennt og sætir tíðindum miðað við fyrri tíma. En vissulega skiptir miklu að málsvarar ríkisvaldsins þekki sinn vitjunartíma og komi að samningaborðinu með uppbyggilegum hætti, ekki síst í húsnæðis- og skattamálum. EF ríkisstjórnin er tilbúin að leggja sitt af mörkum til að draga úr ójöfnuði og leiðrétta mistök síðustu áratuga, þá þurfum við engu að kvíða.
----------------
Höfundur er prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu.