Kvíðinn og samningarnir

Þorsteinn Vilhjálmsson segir að tekjuöflun hins opinbera sé orðin of lítil og starfsemi ríkis og sveitarfélaga svelt um of. Sköttum sé ekki nægilega beitt til tekjujöfnunar og að hátekjuskatt mætti nota á margan hátt til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.

Auglýsing

Til skamms tíma var tekjum Íslend­inga svo háttað að fáir höfðu mjög veru­legar tekjur miðað við allan fjöld­ann, og hlutur þeirra tekju­háu í heild­ar­tekjum lands­manna var hverf­andi; hafði lítil áhrif á afkomu þjóð­ar­bús­ins. Á þeim tíma var eðli­legt að menn teldu að kjara­samn­ingar -- sem réðu þá tekjum flestra launa­manna -- hefðu úrslita­á­hrif á afkomu þjóð­ar­bús og að skattar á þær tekjur vægju þungt í afkomu rík­is­sjóðs. Fjár­magnstekjur voru auk­in­heldur litlar og hálar í hendi eins og lax­inn, vegna verð­bólg­unnar sem ríkti hér ára­tugum sam­an.

Bæði málsvarar vinnu­veit­enda og hag­fræð­ingar lands­manna beittu þessum rökum óspart í umræðum um kjara­samn­inga. Ann­ars vegar var sagt að þjóð­ar­búið þyldi ekki hærri launa­greiðslur til almennra launa­manna og hins vegar að til­gangs­laust væri að hækka skatta hinna ríku af því að þeir væru svo fáir.

En nú eru aðrir tím­ar.

Auglýsing
Þannig ráða kjara­samn­ingar ekki lengur úrslitum um tekjur stórra hópa. Margir sem þó geta kall­ast launa­menn hafa meiri laun en samn­ingar segja til um og til við­bótar tals­verðar fjár­magnstekj­ur. Og tekjur hjá eig­endum og stjórn­endum fyr­ir­tækja -- bæði svo­nefnd laun, fjár­magnstekjur og alls konar sporslur -- hafa þró­ast langt umfram tekjur almennra launa­manna, auk þess sem þessi hópur leggur sig mjög fram um að hag­ræða tekjum sínum þannig að skattar af þeim verði sem minnst­ir. Jafn­framt hefur þessi hópur stækkað og hlutur hans er því engan veg­inn lengur hverf­andi þegar horft er á heild­ar­mynd­ina.

Við sáum glöggt merki um upp­haf þess­arar þró­unar þegar þau boð voru látin út ganga á árunum fyrir hrun að einn hrun­verj­inn hefði haft 30 millj­arða í árs­tekj­ur. Senni­lega hafa fáir skilið þau skila­boð til hlít­ar, en þau þýða að árs­tekjur eins manns hefðu dugað til að greiða hverju manns­barni á Íslandi um það bil 100 þús­und krónur --- eða 6 þús­und fátæk­lingum 5 millj­ónir hverj­um. -- Þetta var þannig eitt fyrsta dæmið um að tekju­öflun hinna ríku var farin að skipta veru­legu máli í þjóð­ar­bú­inu -- gjáin var byrjuð að breikka.

------------------------

Tekju­mynstur þjóð­ar­innar hefur ger­breyst á síð­ustu ára­tug­um. Aldr­að­ir, öryrkjar og annað fátækt fólk situr eftir með skarðan hlut en hinir ríku verða enn rík­ari og tekjur þeirra vega nú miklu þyngra í þjóð­ar­bú­inu en áður var.

-------------------------

Við þessa nýju mynd bæt­ist að málsvari hinna ríku -- Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn -- hefur lengst af stýrt skatta­kerf­inu, leynt eða ljóst, þannig að skattar lág­tekju­fólks hafa hækkað hlut­falls­lega meira en ann­arra, og skattar á þá ríku hafa hins vegar verið í skötu­líki, til dæmis miðað við löndin kringum okk­ur. Skatta­kerfið hefur þannig verið notað til að skapa enn meiri ójöfnuð en áður í nettó­tekjum eftir skatt.

Skattar í heild hafa heldur ekki auk­ist eins og þörf hefði verið á, til dæmis til að að við héldum í við nágranna­löndin í ýmiss konar opin­berri þjón­ustu. Þess vegna er það næstum dag­legt brauð að opin­berar stofn­anir kvarta yfir því að þurfa að skerða þjón­ustu sína þó að almenn­ingur í land­inu kalli eftir henni hástöfum og hafi metnað til að efla hana. Þetta á bæði við um sam­göngu­kerf­ið, vel­ferð­ar­kerf­ið, heil­brigð­is­kerfið og skóla­kerf­ið.

Eitt nýjasta dæmið um fljótræði af þessum toga er stytt­ing fram­halds­skól­ans sem var afurð nið­ur­skurð­ar­kredd­unn­ar, svo van­hugsuð að öfl­ugir og virtir skólar hafa þrá­ast við að fram­kvæma hana, enda var þar ein­göngu verið að hugsa um ímynd­aðan fjár­hags­legan ávinn­ing sem kemur vit­an­lega bara niður ann­ars stað­ar. Von­andi verður önnur Lilja kveðin fljót­lega.

Á bak við þrástef nið­ur­skurð­ar­ins glittir í annan draug nýfrjáls­hyggj­unn­ar, einka­væð­ing­una sem er oft líka kölluð einka­vina­væð­ing (kært barn á sér mörg nöfn, segja Dan­ir). Reynsla síð­ustu ára­tuga vísar okkur þó skýrt og skor­in­ort í hina átt­ina því að einka­væð­ing­unni fylgir enn meiri spill­ing og sóun en í opin­berum rekstri.

-----------------

Tekju­öflun hins opin­bera er orðin of lítil og starf­semi ríkis og sveit­ar­fé­laga svelt um of. Sköttum er ekki nægi­lega beitt til tekju­jöfn­un­ar. Hátekju­skatt mætti nota á margan hátt til hags­bóta fyrir sam­fé­lagið í heild.

---------------

Óvenju mikil spenna ríkir nú í aðdrag­anda kjara­samn­inga. Kröfur verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar gera þó ekki annað en að end­ur­spegla það ástand sem hér var lýst. Hreyf­ingin bendir með góðum rökum á var­huga­verða þróun síð­ustu tveggja til þriggja ára­tuga og vill að hún verði stöðvuð og henni snúið við þannig að launa- og skatta­mál hér á landi fær­ist í átt til sama horfs og ríkir á hinum Norð­ur­lönd­un­um, og ýmsar aðrar þarfar breyt­ingar mundu þá fylgja í kjöl­far­ið, svo sem bætt heild­ar­lífs­kjör lág­launa­fólks, aldr­aðra og öryrkja. Mörgum er von­andi ljóst að þessar kröfur snúa að breyttri skipt­ingu kök­unnar sem kallað er, en gera ekki ráð fyrir því að allir fái sömu hlut­falls­legu hækkun tekna. Ef slíkt mundi ger­ast yrði það allt­ént ekki í boði verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. Áhyggjur af ein­hvers konar óvið­ráð­an­legum koll­steypum eiga því ekki að bein­ast að henni.

Auglýsing
Lítum nánar á nokkur atriði í fram­komnum kröf­um.

Ein veiga­mesta krafan er sú að mark­tækt átak verði gert í hús­næð­is­málum með bygg­ingu íbúð­ar­hús­næðis sem henti ungu og efna­litlu fólki, hvort sem er til leigu eða eign­ar. Miklu varðar að byggt verði sem mest af leigu­hús­næði í félags­legri eigu, án þess að græðgi eig­enda komi við sögu. Áður ríkti sú stefna að hús­næði íslenskra fjöl­skyldna ætti að vera sem mest í eigu þeirra, en sú sér­eign­ar­stefna beið gjald­þrot í hrun­inu þegar verð­mæti hús­næðis lækk­aði stórum en skuldir héldu áfram að hækka eða stóðu í stað. Vert er að taka eftir því að hag­fræð­ingar lands­ins virð­ast ekki amast við áhrifum þess­arar kröfu verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar á þjóð­ar­búið enda er hún aug­ljós­lega til góðs, ekki síst ef sam­dráttur verður í atvinnu­líf­inu að öðru leyti.

Önnur hávær krafa er að undið verði ofan af því órétt­læti í skatta­kerf­inu sem lýst var hér á undan og hefur vaxið á fjós­bit­anum við bak­dyrn­ar, án þess margir tækju eftir því aðrir en þeir sem vildu hafa það svo. Þessi krafa er vissu­lega lík­leg til að valda nokkrum skylm­ingum en hún er hins vegar engan veg­inn lík­leg til þess að skapa neinn usla í þjóð­ar­bú­inu.

Mörgum hefur orðið star­sýnt á kröfur Starfs­greina­sam­bands­ins um tals­verða hækkun lág­marks­launa, og ýmsir vilja gera mikið úr áhrifum þeirra á þjóð­ar­bú­ið. Mönnum yfir­sést þá í fyrsta lagi að ekki er gert ráð fyrir að settu marki verði náð á auga­bragði, heldur á þremur árum eða svo. Í öðru lagi þurfa menn að taka til greina að miðað er við fasta krónu­tölu­hækkun í öllum launa­stig­anum en ekki pró­sentu­hækkun eins og yfir­leitt hefur tíðkast hingað til. Þessi breyt­ing sætir tíð­indum í sögu íslenskrar verka­lýðs­hreyf­ingar og það væri mikið gæfu­spor ef takast mætti að við­hafa þessa aðferð í kjara­samn­ing­um, þó ekki væri nema einu sinni í leið­rétt­ing­ar­skyni.

-----------------

EF rík­is­stjórnin lætur til sín taka í kjara­málum eins og henni ber, til jöfn­uðar og sann­girni, þá þurfum við engu að kvíða.

-----------------

Að lokum vil ég biðja les­and­ann að hugsa sig um tvisvar áður en hann tekur undir með þeim sem ala á svart­sýni vegna hug­mynda verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar um kom­andi kjara­samn­inga. Í þessum hug­myndum er margt að finna sem horfir til betri vegar í sam­fé­lag­inu almennt og sætir tíð­indum miðað við fyrri tíma. En vissu­lega skiptir miklu að málsvarar rík­is­valds­ins þekki sinn vitj­un­ar­tíma og komi að samn­inga­borð­inu með upp­byggi­legum hætti, ekki síst í hús­næð­is- og skatta­mál­um. EF rík­is­stjórnin er til­búin að leggja sitt af mörkum til að draga úr ójöfn­uði og leið­rétta mis­tök síð­ustu ára­tuga, þá þurfum við engu að kvíða.

----------------

Höf­undur er pró­fessor emeritus í eðl­is­fræði og vís­inda­sögu.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Útgjöld aukin, tekjur lækka og niðurstaðan er 533 milljarða króna halli á tveimur árum
Stjórnvöld ætla ekki að skera niður eða hækka skatta til að takast á við yfirstandandi kreppu vegna kórónuveirufaraldursins. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að tekjur og gjöld verði nánast þau sömu og áætlað er að þau verði í ár.
Kjarninn 1. október 2020
Karl Hafsteinsson, Bjarni Benediktsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson við undirritun samningsins í morgun
Tæpir fimm milljarðar króna til sveitarfélaganna
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar undirrituðu viljayfirlýsingu um að auka fjárveitingar til sveitarfélaganna um tæpa fimm milljarða króna til að bæta skuldastöðu þeirra til næstu fimm ára.
Kjarninn 1. október 2020
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra við kynningu fjárlagafrumvarpsins í dag.
Fjárlög gera ráð fyrir 264 milljarða króna halla árið 2021
Samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2020 og 2021 mun nema yfir 530 milljörðum króna. Ríkisstjórnin segist ætla að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga og safna skuldum, frekar en að grípa til niðurskurðar eða skattahækkana.
Kjarninn 1. október 2020
Útflutningur dregst verulega saman á milli ára. Þar skiptir mestu máli að ferðaþjónusta er nær lömuð sem stendur. Kórónuveiran gerir það að verkum að fáir heimsækja Ísland.
Hagstofan spáir mesta samdrætti í heila öld – 30 prósent samdráttur í útflutningi
Hagstofa Íslands spáir því að hagkerfið taki við sér á næsta ári og að þá verði hagvöxtur upp á 3,9 prósent. Verbólguhorfur hafa versnað og nú er gert ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali yfir markmiði út næsta ár.
Kjarninn 1. október 2020
Þriðja bylgjan: „Þetta verður há tala, það er alveg ljóst“
Fleiri liggja nú á sjúkrahúsi vegna COVID-19 en á sama tímapunkti í fyrstu bylgju faraldursins. Thor Aspelund líftölfræðingur segir allt eins líklegt að þriðja bylgjan vari í fimm vikur til viðbótar og jafnvel að önnur taki svo við í desember.
Kjarninn 1. október 2020
Ráðherrar í ríkisstjórn hafa verið mismunandi sýnilegir vegna COVID-19. Svandís Svavarsdóttir nýtur nú meira trausts en áður, Katrín Jakobsdóttir stendur í stað en traust til Lilju Alfreðsdóttur hefur helmingast á rúmu ári.
Katrín nýtur mest trausts en traust til Lilju helmingast milli ára
Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins raða sér í þrjú efstu sætin yfir þá ráðherra sem landsmenn treysta síst. Þeim fækkar sem segjast treysta Lilju Alfreðsdóttur mest en fjölgar sem nefna Svandísi Svavarsdóttur eða Sigurð Inga Jóhannsson.
Kjarninn 1. október 2020
Brynjar sakar Pírata um popúlisma – Björn Leví segir Brynjar vera latan og gera ekkert
Tveir þingmenn, annar úr Sjálfstæðisflokki og hinn frá Pírötum, tókust hart á á samfélagsmiðli í gær. Sá fyrrnefndi ásakaði hinn um popúlisma. Sá síðarnefndi sagði hinn vera latan og reyna að gera sem minnst.
Kjarninn 30. september 2020
Ríkisbankarnir tveir á meðal stærstu eigenda Icelandair Group
Þeir 23 milljarðar hluta sem seldust í hlutafjárútboði Icelandair fyrr í mánuðinum voru teknir til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Icelandair hefur uppfært lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins.
Kjarninn 30. september 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar