1. Ódýr áróður og orkumál
Það hefur verið hlálegt undanfarna mánuði að fylgjast með málflutningi þeirra sem vilja virkja Hvalá í Ófeigsfirði. Sveitarstjórnarkosningar í Árneshreppi snerust upp í skopleik sem lauk með sigri forhertra virkjunarsinna sem þó styðjast við frekar nauman meirihluta hreppsbúa. Aðeins hefur heyrst í örfáum Árneshreppsbúum opinberlega sem hlynntir eru þessari framkvæmd, oddvita sem virðist vera fjarstýrt af Vesturverki, og tveim orðhákum sem gjamma hástöfum um hyski og rottueitur að fólki sem hefur ekki annað til saka unnið en að sýna velvild í garð byggðarlagsins og láta sér annt um náttúru þess og mannlíf. Fróðlegt væri að heyra opinberlega sjónarmið fleiri íbúa, hvort þeim þyki sómi að vandræðalegu ósjálfstæði oddvitans og gaspri orðhákanna, hvort þeir trúi því í alvöru að virkjun sé eina leiðin til að tryggja framhald búsetu í hreppnum og ekki síst hvað þeim finnst um málflutning þeirra sem augljóslega bera hag bæði Árneshrepps og náttúrunnar fyrir brjósti.
Vestfirskir framámenn láta gjarnan sem þeir tali í nafni allra Vestfirðinga og láta í veðri vaka að þar tali menn einum rómi sem einn maður. Þó er framkvæmdin umdeild á Vestfjörðum. Óvinasmíð héraðsmetings, skipting í „heimamenn“ og „hyskið að sunnan“, er lúaleg og alþekkt aðferð til að koma vondum málum áleiðis og skilvirk leið til að bæla niður andstöðu heima fyrir. Menn jórtra stöðugt sömu tugguna um raforkuöryggi og stórfengleg tækifæri landshlutans til framfara, sama hve rækilega er sýnt fram á að ávinningurinn sé hæpinn.
Það tíðkast að orkufyrirtækin ráða heimafólk til að sjá um áróður í héraði. Kjarninn í málflutningi virkjunarsinna birtist í viðtali við fjömiðlafulltrúa Vesturverks í kvöldfréttum sjónvarps 19. júní sl.: „Það er skortur á rafmagni á Vestfjörðum og sérílagi er raforkuöryggið lítið, Hvalárvirkjun getur klárlega verið liður í að bæta það en ekki ein og sér. ... Við sem erum að tala fyrir því að skynsamleg nýting náttúruauðlinda sé viðhöfð hér í landinu við erum alveg jafnmiklir umhverfissinnar og hver annar en við sjáum það bara að ef við ætlum að búa í þessu landi þá þurfum við að nýta auðlindirnar okkar með skynsamlegum hætti.“
Við þessi fáu orð er margt að athuga ef málið er skoðað í víðara samhengi.
1) Í fyrsta lagi felst orkuvandi Vestfjarða í tengingum en ekki orkumagni eins og oft hefur verið sýnt fram á. Virkjunin skiptir litlu máli fyrir raforkuöryggi heldur þarf að bæta dreifikerfið og tengingar við raforkukerfi landsins. Deilt er um tengileiðir og ýmsar tæknilegar útfærslur en aðalatriðið er hvort sérstæðum náttúrugæðum sem hafa gildi í sjálfu sér sé fórnandi þegar ekki er brýn samfélagsleg þörf fyrir þessa orku. Það hefur verið afhjúpað að Kollafjarðartenging sem virkjunaraðilar hafa sóst eftir beini orkunni beinlínis framhjá Vestfirðingum og inn á landsnetið því litlu máli skiptir í raun hvaðan orkan kemur ef dreifikerfið er í lagi. Nóg rafmagn er til í landinu og svo virðist sem orkunni sé ætlað að auka hagnað og hagkvæmni HS Orku svo það þurfi ekki að kaupa toppafl dýru verði. Toppafl er orkan sem til er þegar orkuþörf er mikil í kerfinu í heild og þar af leiðandi dýr. Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur og ráðgjafi um orkumál, hefur reiknað út að virkjunin sé „töluvert dýrari en almennt raforkuverð hér réttlætir”. Skýringin á þungri sókn Vesturverks í virkjun virðist að sögn Ketils vera sú „að HS Orku sé mikilvægt að ráða yfir nýrri nokkuð stórri vatnsaflsvirkjun til að geta uppfyllt alla raforkusölusamninga sína. Eða ella kaupa dýrt toppafl af Landsvirkjun.“ Þessi skoðun um helsta tilgang virkjunarinnar sé staðfest í gögnum Orkustofnunar. Niðurstaða Ketils er því sú (og rétt að taka fram að hann er talsmaður ódýrrar vindorku sem gæti leyst þennan vanda) að það sé „ekki heppilegt ef reyndin er sú að orkufyrirtæki þurfi að reisa svo dýra 55 MW virkjun norður á Ströndum til að mæta toppafli.“ Líklega séu til betri leiðir til að framleiða nóg rafmagn fyrir orkusölusamningana, meðal annars að „ná meiri hagkvæmni út úr hinu stóra íslenska vatnsaflskerfi ... sem þegar er til staðar“. Það er augljóst að ýmsir maðkar eru í þeirri mysu sem Vestfirðingum er boðin og löngu tímabært að huga betur að heildarfyrirkomulagi orkuöflunar og -dreifingar í landinu.
Fara þarf rækilega í saumana á orkuskuldbindingum HS Orku, hvort fyrirtækið sé að sælast eftir Hvalá til að losna úr vandræðum vegna loforða um orku til stóriðju, kísilvera, gagnavera eða jafnvel bitcoin-graftar eins og Andri Snær Magnason hefur bent á. Þrátt fyrir þessar rökstuddu grunsemdir virðist fjöldi Vestfirðinga og Árneshreppsbúa halda að Hvalárvirkjun sé fyrst og fremst ætlað að bjarga þeim. Þegar allt kemur til alls er það einfaldlega kanadíski auðhringurinn Innergex sem á meirihluta í Alterra sem á meirihluta í HS Orku sem á meirihluta í Vesturverki sem hyggst spilla ómetanlega náttúru Hvalársvæðisins til að hagnast á þessari óvenjudýru og óhagkvæmu virkjun. Erfið staða Árneshrepps og náttúrugæði svæðisins verði skiptimynt í viðskiptum andlitslauss auðmagns. Leysa þarf raforkuvanda Vestfirðinga eftir einfaldari leiðum og að sjálfsögðu á að bæta samgöngur, raforku og nettengingar í Árneshreppi án þess að gylliboð orkufyrirtækis komi til.
2) Í öðru lagi er augljóst að fjölmiðlafulltrúinn veit ekki hvað orðið skynsemi þýðir og heldur að það sé nánast samheiti við fjárhagslegan hagnað. Ef eitthvað borgi sig sé það sjálfkrafa skynsamlegt. Sú meinloka hefur viðgengist allt of lengi í almennri umræðu. Skynsemi er náskyld dómgreind og felst fyrst og fremst í því að draga vitsmunalegar ályktanir út frá flóknum aðstæðum í miklu víðara samhengi en einungis fjárhagslegu. Og það er einmitt er nauðsynlegt þegar taka þarf mikilvægar ákvarðanir. Skoða þarf ólíkar hliðar málsins út frá fjölþættri heild í stað þess að einblína á ætlaðan hagnað eins og hann sé eini mælikvarðinn á skynsemina.
3) Í þriðja lagi segir það sig sjálft að þeir sem standa eða tala fyrir verulegu umhverfisraski geta ekki verið „jafnmiklir umhverfissinnar og hver annar“, hvað sem fjölmiðlafulltrúinn er svosem að reyna að segja með þessari algengu og fráleitu fullyrðingu. Maður verður ekki umhverfissinni fyrir það eitt að hafa gaman af að spóka sig úti á víðavangi.
4) Í fjórða lagi er það fjarri því að vera sjálfgefið að ef fólk ætli að búa í landinu þurfi það skilyrðislaust að nýta auðlindirnar með hina þröngu „skynsemi“ (þ.e. hagnaðarhugsun) fjölmiðlafulltrúans að leiðarljósi. Þessi hugmynd kann að hafa átt við fyrr á öldum þegar nýting náttúrugæða gat snúist um líf og dauða en nú eru aðstæður allt aðrar. Tæknilega væri mögulegt að umturna öllu náttúrufari í hagnaðarskyni en raunin er þó sú að landsmenn bera ábyrgð á umgengni sinni við umhverfi og náttúru, gagnvart afkomendum sínum og umheiminum. Þá umgengni verður að meta í víðu samhengi raunverulegrar skynsemi og það verður nú reynt hér.
2. Víðara samhengi
Margvísleg umhverfisvá steðjar að mannkyni og ber hnattræna hlýnun hæst, eins og stöðugt blasir við í nær öllum fjölmiðlum. Það er algengur misskilningur að raforka, hvernig sem hennar sé aflað, sé af hinu góða bara ef hún leysir kolefnisorkugjafa af hólmi. Það þarf fyrst og fremst að draga úr ósjálfbærri neyslu og bruðli með hráefni. Hnattræn hlýnun er aðeins hluti af stærri umhverfisvanda. Mengun, sóun auðlinda, hröð fækkun tegunda og hrun líffræðilegrar fjölbreytni eru aðrar hliðar vandans. Umhverfisváin er afleiðing af náttúrudrottnun sem á djúpar sögulegar rætur en náði hæstu hæðum með upplýsingunni, iðnbyltingu, neysluhyggju nútímans og yfirþyrmandi kröfu auðmagnsins um vöxt og hagvöxt. Smættandi og brotakennd náttúrusýn í þjónustu hagnaðar og hagvaxtar tók að drottna á kostnað víðtækari þekkingar á sambúð manns og náttúru. Sú skynsemishyggja sem býr að baki þeim svonefndu framförum sem kallað hafa fram efnalega velsæld nútímans var allt of takmörkuð og þröng og hefur leitt drottnun yfir náttúrunni út í slíkar öfgar að óvíst er hvernig mannkyni reiðir af. Í raun var ekki um skynsemi að ræða heldur yfirþyrmandi skort á skynsemi vegna þess að heildarmyndin var ekki skoðuð. Afleiðingarnar blasa við um víða veröld, í loftslagsvanda og óstöðugu veðurfari, eyðingu regnskóga og auðlindaþurrð, yfirgengilegri mengun og hraðri hnignun lífríkisins.
Vandinn felst í rangsnúinni skynsemi, þeirri drottnandi afstöðu til náttúrunnar sem mál er að linni. Það er enginn bakkgír á sögunni og útilokað að spóla til baka. Ekki er hægt að skrúfa fyrir ríkjandi lífshætti með einu handtaki en hins vegar verður mannkynið að staldra við og hugsa sinn gang, átta sig á hvað sé til ráða til að vinda ofan af ástandinu. Því þarf að meta allar athafnir manna og framkvæmdir út frá heildarsýn í stað þess að telja það sjálfgefið að allar auðlindir beri að nýta. Vellíðan og sátt við náttúru eru viðmið sem smátt og smátt leysa hagvaxtardýrkun af hólmi enda fer því fjarri að neyslumagn sé mælikvarði á lífsgæði. Vel má stórminnka neyslu án þess að dregið sé úr vellíðan. Vaxtarblekkingin leitast við að halda uppi neyslustigi meðan staðan er sú að brýnt er að draga stórlega úr því, ekki síst því bruðli sem orkuframleiðsla nútímans ýtir undir. Hagfræðingar um víða veröld eru í óða önn að endurskoða hefðbundnar hagvaxtarhugmyndir eða jafnvel hafna þeim og halda fram hugmyndum á borð við hjöðnun (e. degrowth) sem gæti stuðlað að sjálfbærni. Hvalárvirkjun snýst fyrst og fremst um hagnað eigenda þar sem hver situr ofnaná öðrum en kemur lífsgæðum á Vestfjörðum ekkert við. Virkjunin er í samræmi við hina þröngu og úreltu skynsemishugmynd og þá einsleitni sem veldi fjármagnsins hefur í för með sér. Slík stórverkefni sem byggjast á hefðbundinni náttúrudrottnun eru grófar öfgar og jafnvel hryðjuverk gagnvart náttúrunni. Náttúruvernd, sem menn hafa hneigst til að stimpla sem öfgakennda er aftur á móti krafa um að látið sé af öfgum og skynsemi hins víða samhengis verði höfð að leiðarljósi gagnvart náttúrunni.
Heillandi náttúrufegurð hefur lengi verið mest áberandi í umræðu um náttúruvernd. Því hafa menn löngum beitt þeirri röksemd að landsvæði sem kaffæra skuli undir uppistöðulón séu ljót og ómerkileg. Þar að auki er stundum sagt að enginn hafi séð tiltekin virkjunarsvæði eða haft áhuga á þeim og því sé óhætt að fórna þeim, sem er náttúrlega snargalinn hugsunarháttur. Svona röksemdir hafa heyrst gagnvart Hvalárvirkjun en læknarnir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson hafa ásamt fleirum gert náttúrufegurðinni og tign fossanna á svæðinu svo glæsileg skil að ljótleikaraddirnar hafa þagnað. Hins vegar sýna rannsóknir að útivera og ferðalög um óbyggð víðerni auka á vellíðan fólks og því opnast hér nýir möguleikar á vistvænni ferðaþjónustu sem byggðist á samspili heimamanna og gesta.
3. Jarðrask, þekking og afstaðan til náttúrunnar
Jarðrask virkjunarinnar verður mikið: Fimm stíflur og fjögur lón, skurðgröftur, gangagerð, jarðvegsflutningar, vegagerð og bygging stöðvarhúss. Framkvæmdirnar eiga auk þess að ná yfir tvo firði og mikil óbyggð víðerni. Menn hafa misskilið Rammaáætlun þannig að hún gefi sjálfkrafa grænt ljós á virkjun en svo er ekki. Hún gefur aðeins leyfi til að skoða virkjunarkosti og og þá er hið eiginlega umhverfismat eftir. Skipulagsstofnun mat það svo að áhrifin yrðu verulega neikvæð. Þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk árið 2011 olli það mörgum vonbrigðum en sú niðurstaða virðist vera málum blandin. Þegar skýrslan er skoðuð kemur í ljós að gögnin um svæðið sem unnið var eftir voru að mestu leyti aðeins sæmileg og það er tæpast nægilegt fyrir mat. Á skalanum A-D þar sem A var best en D lakast voru gæði gagna fyrir faghóp I C/B, fyrir faghóp II C/C og B fyrir faghópa III og IV. Skjöl úr vinnuferli Rammaáætlunar benda til þess að gögnin hafi jafnvel verið enn verri. Forsendurnar fyrir mati á menningar- og náttúruþáttum voru því alls ekki fullnægjandi og virkjunin hefði með réttu átt að fara í biðflokk. Í raun var niðurstaðan, að setja Hvalá í nýtingarflokk, byggð á vanþekkingu og því ómarktæk.
Nú hefur staðan hins vegar breyst og þekkingin aukist. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur, í ljósi frekari rannsókna, mælt með friðun drjúgs hluta framkvæmdasvæðisins, þ.e. Drangajökuls og nágrennis hans. Suðurmörk þess „liggja um Ófeigsfjarðarheiði frá Melgraseyri í vestri suður fyrir Hraundal og Rauðanúpsvatn, síðan eftir farvegi Rjúkanda austur í Ófeigsfjörð”. Eftir því sem þekkingin eykst styrkjast rökin gegn virkjun vegna vendargildis svæðisins. Í þessu tilviki á sviði náttúrufræða, en ætla má að möguleikar í ferðamennsku hafi einnig verið vanmetnir verulega. Því er brýnt að stjórnvöld taki strax í taumana og friði svæðið eftir tillögu Náttúrufræðistofnunar, í B hluta náttúruverndaráætlunar.
Það er augljóst að í ljósi þess hverjir hagnast á Hvalárvirkjun og í krafti þeirra viðhorfa sem eru að verða ríkjandi í náttúruvernd eru næg rök til að stöðva áform um Hvalárvirkjun. Þau styrkjast enn frekar þegar málið er skoðað í víðara samhengi þeirrar heildarhyggju sem rakin var hér að framan. Umhverfisvandi heimsins er afleiðing þess að menn glötuðu skynbragði á heildina og settu allt sitt traust á smættandi vélhyggju, þá hugsun að sambúð manns og náttúru sé nánast verkfræðileg og hagfræðileg úrlausnarefni. Nú er tímabært að víkka sjónarhornið.
Í ljósi þeirra viðhorfa sem nú er lífsnauðsynlegt að hafa að leiðarljósi mætti færa rök fyrir því að eignarhald á landi og þar með náttúru sé vafasamt, eða í það minnsta réttur til að ráðstafa landi að geðþótta og vild. Eign á landi hefur alltaf verið einhverjum takmörkunum háð enda hafa aðstæður að sönnu verið misjafnar. Vegna þess að náttúran er stærri og samvirkari heild vistkerfa en menn hafa vilja vera láta er brýnt að endurskoða ofan í kjölinn allan ráðstöfunarrétt á landi. Mönnum verður æ betur ljóst hvílík fjarstæða það er að heilu landsvæðin séu háð geðþótta einstaklinga sem til dæmis þjóna undir ómennska auðhringa, sama hvers lenskir þeir eru. Í raun ætti að vera óhugsandi að ráðskast með land í hagnaðarskyni af því að það er alltaf hluti af þeirri stóru heild sem líf okkar er komið undir.
Það þarf að skoða sambúð manna við náttúruna í víðu ljósi samfélags, menningar og hugarfars. Árið 1970 tóku Mývetningar lögin í sínar hendur til að hindra að framin yrðu hryðjuverk á lífríki Mývatns með vatnaflutningum og stórvirkjunum í Laxá. Í kvikmyndinni Hvelli sem gerð var um þann atburð lýsir aldraður Mývetningur, Finnbogi Stefánsson á Geirastöðum, afstöðu sinni. Hann segist vera hluti af náttúrunni og lífkeðjunni, tilheyra henni. „Mýið étur örþörungana, silungurinn étur mýið og ég ét silunginn.“ Virkjunarmenn ætluðu að vaða yfir allt og alla án þess að spyrja nokkurn mann, t.d. byggja vinnubúðir á landi Finnboga í leyfisleysi. Honum var gert ljóst að ekkert þýddi að vera með neinn derring því allt yrði tekið eignarnámi ef með þyrfti. Þarna stóð til „að eyðileggja allt lífsstarf foreldra minna og afkomenda“ segir hann. Mývetningar stóðu gegn virkjunaráformum sem einn maður, sprengdu stíflu í Miðkvísl eins og frægt er og hætt var við stórframkvæmdirnar. Finnbogi segir í myndinni: „Við höfum allt frá náttúrunni. Og ef við skemmum það og spillum því þá eigum við eftir að spilla fyrir sjálfum okkur, eftirkomendum og eiginlega öllu, hverjum sem er og hvar sem við erum. Um leið og þú ert farinn að spilla náttúrunni þá ert þú að eyðileggja annað hvort möguleika þína eða einhverra annarra.“ Vísdómsorð Finnboga eru í samræmi við það sjónarmið að við séum aðeins með landið að láni hjá afkomendum okkar, að það sé aðeins tímabundið í okkar vörslu og ábyrgð. Ólíkt hafast þeir að, Finnbogi á Geirastöðum og þeir sem selja vatnsréttindi á Ófeigsfjarðarheiði. Finnbogi vill vernda líf og náttúru, en eigandi Ófeigsfjarðar leggur dráttarvél sinni þvert yfir almannaveg til að meina náttúruverndarsinnum aðgang að ætluðu virkjanasvæði. Aftur á móti vill hann leyfa ótæpilegt og óafturkræft jarðrask á heiðinni.
4. Friðun og breyttir samfélagshættir
Full ástæða er til að að friða það svæði sem Náttúrufræðistofnun leggur til og í framhaldinu mætti gera allt svæðið að þjóðgarði. Samfélagslega væri það afar öflug aðgerð og líklega eina færa leiðin til að vekja minnstu vonir um að Árneshreppur haldist í byggð. Byggja þarf upp nútímalega framtíðarsýn þar sem saman fléttast náttúra, menning og vitund um breytilega lífshætti í sambúð manns og náttúru. Menn verða að gera sér grein fyrir að trúin á stórvirkar vinnuvélar er að líða undir lok og allar landnytjar eru breytingum háðar.
Samfélagshættir og menning geta staðnað og trénað og þá er skammt í auðn og endalok. Flóttinn úr afskekktum byggðum hefur staðið yfir lengi, Hornstrandir, Flateyjardalur, Fjörður og Flatey á Skjálfanda. Nú er óttast að Bakkafjörður stefni í sömu átt og jafnvel fleiri byggðarlög á Austfjörðum og Norðausturhorninu. Margvísleg hlunnindi gerðu þessi svæði byggileg öldum saman. Frumframleiðslugreinar á borð við landbúnað og sjávarútveg standa þar ekki lengur undir nútímalegum lífsháttum og sama gildir um Árneshrepp. Fjárbúin týna tölunni og smábátaútgerð byggist á aðkomubátum yfir hásumarið. Varla dettur nokkrum manni í hug að virkjun Hvalár breyti því. Eða ætla nýhættir fjárbændur að byrja fjárbúskap aftur fullir bjartsýni ef virkjað verður? Í raun fylgir engin raunveruleg innspýting með virkjuninni, nema málning á skólahús þar sem ekkert skólahald er lengur, einhverjar útsvarstekjur, engin störf (virkjunin verður mannlaus), vegarspotti út í óbyggðir (úr Trékyllisvík í Ófeigsfjörð), og hugsanlega betra netsamband og rafmagn (þriggja fasa) eftir skringilegum krókaleiðum sem sjálfsagt er að sé útvegað hvort sem er. Engin ný hugsun eða sýn um framtíð þessa samfélags.
Vandinn er einfaldlega sá að sjálf hugmyndin um virkjun sem hálmstrá byggðarlags er einmitt sprottin úr gamaldags hugmyndum um landnytjar og búskaparhætti sem ekki eiga lífsvon. Sú björgun sem menn sjá í Hvalárvirkjun, Vesturverki, Alterra, Innergex (eða hvaða stórfyrirtæki það nú er sem á þetta) og græna riddaranum Ross Beaty er einmitt á forsendum óbreyttra lífshátta sem fólk er að leggja að baki. Eina framtíðarsýnin er áframhaldandi búskapur og jafnvel hvarflar að manni að oddvitinn reikni svosem ekkert frekar með að byggðin haldist við í hreppnum til frambúðar. Ógöngurnar eru augljósar, óbreyttir lífshættir ganga ekki lengur en samband byggðarlagsins við umheiminn skiptir öllu máli. Það getur verið af ýmsum toga og þar kann að leynst vonarglæta.
Þessi þróun, eyðing byggðarlaga, hefur verið óhjákvæmileg en þó getur margt breyst með nýrri hugsun og breyttum aðstæðum sem geta breytt lífsháttum. Eins og málin standa nú er ólíklegt að Árneshreppur lifi af þá orrahríð sem gengið hefur yfir. Hugsanlega mætti þó byggja upp nútímaleg lífsskilyrði með varanlegum hætti þó að samfélagið sé fámennt. En það gæti þá aðeins orðið á forsendum nýrra lífdaga í krafti þeirra töfra sem svæðið býr yfir. Aðdráttarafl þess er sterkt en mundi óhjákvæmilega skerðast gróflega með virkjun. Með stofnun þjóðgarðs opnast hins vegar möguleikar á nútímalegri uppbyggingu þar sem umbreyta mætti töfrum náttúru, menningar og sögu í sköpunarkraft frumbyggja og aðfluttra íbúa sem sækja þangað innblástur. Virkja mætti aðdráttaflið með þjóðgarði í bland við ferðaþjónustu og nýjar leiðir í hlunnindanýtingu, búskap, sjósókn og fullvinnslu afurða. Það væri heimafengin verðmætasköpun í sjálfbærri sambúð við náttúruna. Kannski er ekki of seint að hefja slíka vegferð, að byggja upp samfélag vellíðunar, samstöðu, samræðu, milli heimamanna og umheimsins, í þeirri sátt við náttúruna sem viðgengist hefur þar um aldir, vitanlega að því tilskildu að séð sé fyrir sjálfsögðum lífsskilyrðum á borð við samgöngur, almennilegt rafmagn og netsamband.
5. Ný framtíð?
Í Árneshreppi býr gott fólk og góðviljað í sérstæðu samfélagi sem einmitt einkenndist af samstöðu þangað til auðhyggjan hélt innreið sína og rak inn fleyg með gylliboðum um það sem ætti að vera sjálfsögð réttindi. Til lengdar mun slíkt samfélag ekki þrífast og dafna öðruvísi en með áhuga þeirra sem þangað koma til lengri eða skemmri tíma. Ekki þyrfti að leggja nema örlítið brot af þeim upphæðum sem varið er til að þjóna undir stóriðjuuppbyggingu, til að koma á fót áhugaverðum verkefnum sem gætu fleytt Árneshreppi áleiðis. Slíkt yrði þó seint mælt á þann hagræna mælikvarða sem menn hengja sig gjarnan í þegar rætt er um stórframkvæmdir sem yfirleitt eru þó þannig að gróðinn fer til stórfyrirtækjanna en ekki heimamanna.
Sjálfur hef ég haft áhuga á Árneshreppi síðan ég kynntist þeim magnaða karli Jóni Guðmundssyni lærða, sem fæddist í Ófeigsfirði árið 1574, þeirri jörð sem nú stendur til að selja vatnsréttindi undan fyrir þrjátíu silfurpeninga. Jón bjó líka í Trékyllisvík þar til hann var hrakinn í burtu og hundeltur af helsta valdsmanni Vestfjarða, moldríkum skynsemishyggjumanni í hinum þrönga hagnaðarskilningi orðsins. Nú er Ara Magnússonar í Ögri helst minnst fyrir ofsóknir á hendur Jóni lærða.
Ég hef undanfarinn áratug staðið fyrir alþjóðlegum sumarnámskeiðum á háskólastigi um ýmis tilbrigði við sambúð manns og náttúru, kennd við Svartárkot í Bárðardal. Vegna þess að mér er að takast að fleyta orðstír Jóns lítið eitt út fyrir út fyrir landsteinana, hef ég hug á að halda um hann námskeið í Árneshreppi á næstu misserum og jafnvel fleiri en eitt. Námsdvöl útlendinga er þó ekki óþekkt í hreppnum því sumar voru 80 útlendingar þar á merkilegu námskeiði um Bjólfskviðu á vegum skóla sem kallast Orphan Wisdom og er rekinn af Kanadamanninum Stephen Jenkinson í samstarfi við Elínu Öglu Briem þjóðmenningarbónda sem einmitt hefur sest að í Árneshreppi vegna þess sérstæða aðdráttarfls sem svæðið hefur. Starfsemi skólans byggist á skilningi á hinu víða samhengi í sambúð manns og náttúru og ekki síst ábyrgri umgengni við landið. Nýta þurfti allt gistirými í sveitinni í þá fimm daga sem námskeiðið stóð yfir og auk þess gisti hluti hópsins í tjöldum. Snar þáttur í námskeiðinu fólst í því að þátttakendur kynntust staðnum og íbúum og lifðu af heimafengnum gæðum, sauðfjárafurðum og fiski.
Margt svipað væri hægt að gera til að efla ferðamennsku á svæðinu í samfloti við aðra uppbyggingu sem drepið var á hér að framan. Innlendir og erlendir listamenn mundu örugglega sækjast eftir dvöl í Árneshreppi væri hún í boði. Mig langar af einlægni til að leggja mitt litla lóð á vogarskálarnar til að stuðla að nýjum tímum í Árneshreppi. En verði af virkjun er ég smeykur um að slík löngun fari hratt þverrandi hjá mér og mörgum öðrum.
Það græna ljós sem hálfpartinn var gefið á Hvalárvirkjun í 2. áfanga Rammaáætlunar árið 2011 var á grunni upplýsingaskorts og einhvernveginn virðist vondum málum oft vera komið áleiðis á Íslandi í krafti forhertrar vanþekkingar. Nú er kominn tími til að byggja upp þekkingu og heildstæða sýn á sambúð manns og náttúru. Starfsemi af þeim toga í Árneshreppi mundi leggja lið brýnum umhverfismálum heimsins um leið og hún gæti stutt við nýja uppbyggingu. Því mætti spyrja hinn almenna Árneshreppsbúa: Er fólk sammála málflutningi tvímenninganna kjaftforu sem drepið var á hér í upphafi? Vill fólk virkilega halda dauðahaldi í vafasaman virkjunardraum og óbreytta samfélagshætti sem naumast eiga sér lífsvon, frekar en að taka fagnandi býsna víðtækum velvilja margra sem lagt geta hönd á plóginn um endureisn Árneshrepps? Einmitt nú hefur fólk hraðvaxandi áhuga á breyttum lífsháttum vegna þeirra ógangna í umhverfismálum sem tíundaðar voru hér að framan. Því væri jafnvel hægt með stuðningi og þolinmæði að þróa öfluga fræðslustarfsemi og menntaferðaþjónustu á slóðum Jóns lærða sem gæti, í samfloti við þá búskaparhætti sem fyrir eru, stofnun þjóðgarðs, almenna ferðaþjónustu og nýstárlega hlunnindanýtingu, laðað að fólk og stuðlað að uppbyggingu lífvænlegs samfélags. Svartárkot og Ófeigsfjörður eru litlir punktar á alheimskortinu en vegna sérstöðu sinnar, töfra og aðdráttarfls geta þeir fengið víðtæka merkingu í stóra samhenginu.
Höfundur er sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur og áhugamaður um menningarsögu Stranda.