Ég er skráður félagi hjá Pírötum og einnig hjá VG. Og ég held því áfram þar til að mér verður vísað burt úr öðru hvoru samfélaginu. Ég þykist nú vita að vinir mínir muni fyrirgefa mér þó þeim finnist skoðanir mínar skrýtnar. Eins er með Pírata – alls konar fólk þrífst innan vébanda þeirra og því munu þeir ekki grípa til örþrifaráða.
Að undanförnu hef ég mikið velt fyrir mér þeirri gagnrýni sem núverandi ríkisstjórn hefur fengið. Nær eingöngu eru það Vinstri grænir sem eru skammaðir. Stór hluti meðlima VG og stjórnarandstaðan eins og hún leggur sig segja að VG hafi svikið öll kosningaloforðin sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar. En er réttlátt að dæma um það í dag eftir svo stutta setu í ríkisstjórn?
Ég held að við þurfum að gera greinarmun á gagnrýni frá degi til dags og gagnrýni til lengri tíma. Fyrstu skref núverandi ríkisstjórnar lofuðu ekki góðu, en fyrstu skrefin segja ekki allt. Gagnrýni frá degi til dags er réttlát og vel við hæfi. En fólk verður einnig að horfa til lengri tíma. Það er ekki hægt að uppfylla öll loforð sem gefin voru fyrir kosningar – á fyrstu níu mánuðum kjörtímabilsins. Áætlun stjórnarinnar til næstu ára segir okkur meira um það hvers má vænta. Og efndirnar á þeim loforðum verða lagðar í hendur kjósenda.
Óvægin gagnrýni á Vinstri stjórnina
Gagnrýni á samstjórn VG og Samfylkingar eftir hrun var í flestum tilfellum mjög ósanngjörn. Það þufti að koma þjóðarskútunni á siglingu aftur. Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Samfylking báru mesta ábyrgð á árunum fyrir hrun – þegar skútan fór á hliðina. Andvaraleysi og rangar ákvarðanir höfðu einkennt ríkisstjónir þessara flokka. Mikið og erfitt verk beið því Vinstri stjórnarinnar. Seingrímur Sigfússon fjármálaráðherra hennar orðaði það eitthvað á þá leið að það þyrfti að moka flórinn og hann vildi gjarnan taka það að sér, þó hann vissi að hann yrði eflaust hataðisti maður á Íslandi að verki loknu. Óvægin og óréttlát gagnrýni á aðgerðir Vinstri stjórnarinnar einkenndi vinnubrögð sjálfstæðismanna og Framsóknar. Og því var fylgt eftir með upphrópunum og málþófi á alþingi. Örugglega hefði mátt vinna öðruvísi og betur úr aðstæðunum sem við var að glíma. Má þar t.d. nefna að það hefði verið heillavænlegra að reyna að hafa minnihlutann á alþingi meira með í ráðum. Undir lok kjörtímabilsins var skútan komin á þokkalega siglingu en þingmenn B og D lista héldu áfram óvæginni og óréttlatri gagnrýni.
Og hvað gerðist í kjölfarið? Vinstri menn töpuðu meirihluta á alþingi.
Okkur er hollt að minnast þessara tíma.
Sjálfumgleði og grobb BD-stjórnarinnar
Að loknu kjörtímabili Vinstri stjórnarinnar kom samstjórn Framsóknar og sjálfstæðismanna. Allt kjörtímabil þeirrar ríkisstjórnar einkenndist af sjáflumgleði og grobbi. BD-stjórnin hafði jú bjargað skútunni og minntust ekkert á að ytri aðstæður hjálpuðu að mestu til að koma henni á betri siglingu. Að sjálfsögðu var endurreisnarstarfið eingöngu þeim að þakka! Þeir minntust aldrei á þátt Vinstri sjórnarinnar við að koma skútunni á réttan kjöl. Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar á mikið hrós skilið, en í einum eldhúsdagsumræðum, þegar BD stjórnin réði ríkjum, benti hann á hve mikinn þátt Vinstri stjórnin ætti í því að ástandið batnaði svona mikið eftir hrun.
Engar úrbætur til þeirra sem eiga undir högg að sækja
Í umræðunni núna frá degi til dags ber mikið á gagnrýni á því að núverandi stjórn hafi brugðist þeim sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Vissulega er ljóst að ef stjórn VG, Framsóknar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar hefði komist á koppinn, þá hefði meira verið gert í því að lagfæra ástandið. En hafa verður í huga að framsóknarmenn ætluðu aldrei í slíka stjórn. VG varð því að bregðast við og velja illskásta kostinn – samstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.
Það er mjög eðlilegt að gagnrýna núverandi stjórn fyrir það að vinna ekki betur fyrir allan almennning í landinu. Fullyrt hefur verið á að Katrín Jakobsdóttir sé einungis strengjabrúða í höndum Bjarna Ben. En er ekki rétt að athuga að í samstarfi þriggja flokka frá hægri til vinstri, þá þarf að miðla málum. Í stjórnarmyndunarviðræðum þessara flokka lögðu sjálfstæðismenn ofurkapp á að hygla þeim betur settu í landinu með skattalækkunum og smánarlega lágum gjöldum fyrir afnot af auðlindum okkar. Einnig var lagt ofurkapp á að borga niður skuldir ríkissjóðs. Það má velta því fyrir sér hvort það er besta ráðið á þeim tímum þegar svo margt þarf að gera. Í þessu sambandi má minnast tillagna Lilju Mósesdóttur en hún vildi borga niður skuldir okkar eftir hrun á lengri tíma svo við þyrftum ekki að ganga svona hart fram í niðurskurði í mikilvægum málaflokkum.
Áherslur VG hafa væntanlega verið á annan veg og má telja að stór þáttur hafi verið fólginn í leiðréttingu á kjörum aldraðra, öryrkja og barnafjölskyldna. Eða almennt að bæta hag þeirra lægstlaunuðu og einnig að bæta hag meðaltekjufólks. Allir flokkar á alþingi eru væntanlega samþykkir því að byggja upp innviði heilbrigðiskerfisins og skólanna svo og að koma skikki á vegamálin. Einungis er deilt um í hve smáum eða stórum skefum það er gert og hvers eðlis þau eiga að vera. Það er því mikill kostur að VG kemur að ákvarðanatöku um verklagið.
Rétt er að hafa í huga að gagnrýni á ríkisstjórnina á að beinast að flokkunum sem að henni standa. Ef sjálfstæðismenn fá ekki sinn skerf af gagnrýni þá mun flokkur þeirra stækka á kostnað samstarfsflokkanna eins og dæmin sanna.
Aðkoma ríkisstjórnar að kjarasamningum
Í komandi kjarasamningum mun virkilega reyna á þingflokk VG. Hver verður aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningunum? Aldraðir og öryrkjar hafa um langa hríð verið sviknir um eðlilegar hækkanir til jafns við almennar launahækkanir í landinu. Barnabætur hafa verið skerktar til muna. Húsnæðismál eru í ólestri bæði fyrir leigjendur og þá sem vilja kaupa eigið húsnæði.
Í stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum kom fram að ríkisstjórnin telur að hún hafi lagt sitt að mörkum til að liðka fyrir samningum. En ljóst er að betur má ef duga skal.
Hægt er að reikna út hagstæðar tölur um hækkun launa í landinu á ákveðnum árabilum. En almennt má segja að launahækkunum þeirra lægstlaunuðu og millitekjufólks hefur kerfisbundið verið stolið með aðgerðum stjórnvalda.
Réttlát gagnrýni
Gagnrýni frá degi til dags má vera hörð. En forðast ber óvægna og óréttláta gagnrýni. Ég tala nú ekki um ef í kjölfarið fylgir málþóf og upphrópanir á alþingi, sem oft má líkja við hrein og klár skemmdarverk.
Gagnrýni til lengri tíma er mjög mikilvæg. Við verðum að líta á heildarmyndina og meta hverju ákveðnar aðgerðir skila.
Hvað gerist í næstu kosningum? Samkvæmt síðustu skoðanakönnun um fylgi flokkanna þá má stefnir í að VG, Píratar, Samfylking og Viðreisn muni fá rúmlega 50% atkvæða. Það mun samt ekki leiða til meirihluta á aþingi vegna óhagstæðrar skiptingar þingsæta.
Okkur er hollt að hugleiða: Hvað gerist ef sjálfstæðismenn fá ekki sinn skerf af gagnrýninni? Og hvað gerist ef við metum ekki frammistöðu VG að verðleikum undir lok kjörtímabilsins?
Höfundur er eftirlaunaþegi.