Ungur gyðingur, Walter að nafni, skaust að kvöldlagi 1933 á milli hverfa í Berlín til að heimsækja frændfólk. Hann kom á áfangastað náfölur og skjálfandi og hrópaði upp að hann væri andsetinn. Hann hafði á leið sinni skyndilega komið að fjöldafundi nasista og í stað þess að forða sér hafði hann treyst á „arískt“ útlit sitt og tekið þátt í fundinum.
Fljótlega var hann farinn að syngja með og rétti út arminn og öskraði „sieg heil“ - og þá gerði hann sér grein fyrir því að hann var farinn að hrífast af hugmyndafræði sem honum var vitsmunalega andstyggileg og beinlínis beindist að honum sjálfum og hans hagsmunum. Þetta kemur fram í frásögn hagfræðingsins Eyal Winter og er upprifjun af æskuminningum föður hans.
Þegar við fjöllum um stjórnmál förum við oftast í rökræðu og látum sem stjórnmál ráðist af skynsemi og staðreyndum. Dólgastjórnmál – sem nú njóta vaxandi fylgis víða um heim - láta hins vegar staðreyndir, siðferði og röksemdir lönd og leið og byggja á tilfinningum.
Rök vs. Tilfinningar
Sigur Bolsonaro í forsetakosningum í Brasilíu er nýjasta vísbendingin um sigurgöngu dólganna í stjórnmálum heimsins. Bolsonaro er af sama meiði og Orbán í Ungverjalandi, Putin í Rússlandi og Trump í Bandaríkjunum og þeir eiga fjölda félaga. Þessir menn eru fulltrúar nýrra tíma í stjórnmálum eða öllu heldur endurvakningar þjóðernisofstopa og ofbeldisstjórnmála.
Dólgarnir vaða uppi á grundvelli einfaldrar hugmyndafræði og í skjóli þess að hefðbundnir borgaralegir flokkar - bæði til hægri og vinstri - eru hugmyndafræðileg þrotabú. Innan hefðbundnu flokkanna situr fólk í eigin bergmálshelli og sannfærir hvert annað um hversu gáfað það sé og hversu réttmætar og siðlegar hugmyndir þau hafa og hversu miklum árangri þau hafa náð. Á meðan halda dólgarnir fjöldafundi með fólki og selja þeim hugmyndir og afla sér fylgis. „Siðlegu“ stjórnmálamennirnir tala ekki við fólk – heldur til fólks.
Dólgastjórnmálin byggja á hugmyndafræði sem nær flugi – auðmeltri og grípandi. Því miður virðast þessar hugmyndir oftar byggja á neikvæðum gildum en jákvæðum. Ótti og hatur eru þannig grunnur dólgastjórnmála en jafnframt segjast dólgarnir hafa lausnir sem eru einfaldar og skilvirkar.
„Make America great again“ er dæmigert slagorð sem kveikir í fólki – snertir alla tilfinningafletina. Brexit er annað dæmi þar sem kosningabaráttan var á milli þjóðernisstolts annars vegar og röksemda og staðreynda hins vegar. Þjóðernisstoltið vann. Vandamálin eru Evrópusambandið, klíkur og flóttamenn og stjórnmálaelítan. Lausnin – Bretland fyrir Breta.
Óvinirnir eru um allt – það þarf bara að velja. Innflytjendur, flóttamenn, hommar, glæpamenn, gyðingar, múslimar og stjórnmálamenn. Það fer eftir aðstæðum á hverjum stað hverjir verða skotmörkin. Stórkarlalegar yfirlýsingar selja líka. Byggjum veggi og múra, eyðum frumskóginum og gerum landið okkar æðislegt. Drepum glæpamennina og lokum „spilltu fjölmiðlunum“.
Á meðan beita hefðbundnu flokkarnir fyrir sig rökum og tölfræði og línuritum. Þegar rök og tilfinningar keppa um athygli fólks vinna tilfinningarnar næstum alltaf. Tilfinningar sem tengjast ótta um afkomu og von um framtíð eru sterkar og á þeim er hamrað. Tilfinningar sem tengjast þjóðerni og þar sem á einhvern hátt er reynt að upphefja suma á kostnað annarra skora feitt hjá sem upphafðir eru.
Dólgarnir hafa því miður oft nokkuð til síns máls. Þeir höfða til alþýðunnar – verkafólks og millistéttar. Fólks sem upplifir að „stjórnmálelítan“ hafi yfirgefið það. Alþýðufólk stendur frammi fyrir vandamálum og óttast framtíðina.
Stjórnmálafólk er frekar leiðinlegt fólk!
Störf þess eru í hættu vegna alþjóða- og tæknivæðingar og fólk hræðist að innflytjendur taki störfin sem eftir verða – í skjóli frjálsrar farar launafólks. Afkoma fólks hefur versnað síðustu ár á meðan hinir ofurríku lifa í nánast ólýsanlegum lystisemdum og öll auðæfin eru að safnast á fárra hendur - allt saman vel falið í skattaskjólum og leiðin þangað greið með „frjálsum fjármagnsflutningum“.
Stjórnmálaelítan – þessi markhópur haturs sem vel gengur að merkja sem skotskífu – er mjög samleitur hópur. Fólkið hefur sams konar menntun, umgengst sama fólkið, les sömu bækur og fræðigreinar og horfir á sama efni í fjölmiðlum. Þessi hópur sem hefur tekið að sér að stjórna samfélaginu – lifir mjög einangruðu lífi og ágreiningur er einna helst í kringum kosningar.
Flestir stjórnmálamenn af hinum „hefðbundna merg“ eru frekar leiðinlegt fólk. Það heldur yfir manni langar og leiðinlegar ræður stútfullar af alls kyns staðreyndum og vitnar í skýrslur og rýnihópa máli sínu til stuðnings. En að það veki hjá manni von um betra samfélag er fjarri lagi.
Það má vera að það hafi mikið til síns máls – en það skiptir samt engu. Einhvern tíma voru skilti við þjóðvegi einhvers staðar í heiminum sem sögðu „það getur vel verið að þú sért í rétti – en þú ert samt dauður“.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands.