Forsenda kröfugerðar Starfsgreinasambandsins (SGS) er sú, að launafólk geti framfleytt sér á dagvinnulaunum. Markmiðið er að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslukostnaði einstaklings samkvæmt framfærsluviðmiðum stjórnvalda (að viðbættum lágmarks húsnæðiskostnaði).
Þessu markmiði má ná með skattalækkun, hækkun bóta og hækkun launa, í mismunandi samsetningum. Þetta er í raun krafa um viðunandi ráðstöfunartekjur, í því landi sem hefur hæstan framfærslukostnað í Evrópu (sjá hér).
Starfsgreinasambandið setur fram kröfu um að lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans (3 ár). Hið sama gerir VR. Ef hækkunin dreifist jafnt á þrjú ár þá er þetta hækkun um 42.000 krónur á ári. Ef hækkunin verður flöt upp launastigann, sú sama í krónutölu fyrir alla, þá yrði prósentuhækkun launa fallandi – og þar með kostnaður fyrirtækja af launahækkuninni.
Lágmarkslaun myndu hækka um 14% á ári en allra hæstu laun myndu hækka um 1%. Meðallaunahækkun reglulegra launa (skv. skilgreiningu Hagstofu Íslands) yrði 6,5% á ári og miðlaun myndu hækka um 7,7%. Helmingur launafólks er með lægri laun en miðlaun og helmingur er með hærri laun.
Ekki er tekið tillit til hugsanlegra breytinga á vinnutíma, skatta- og bótakerfum, eða öðrum starfstengdum skilyrðum.
Sumir hafa talað um þessar kröfur sem óraunhæfar og jafnvel líkt þeim við „sturlun“!
Þeim hinum sömu er bent á að svona fyrirkomulag launahækkana gefur möguleika á að halda hækkun heildar launakostnaðar innan hóflegra marka – eins og sjá má á myndinni.
-----------------------
Höfundur er prófessor við HÍ og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi.